Thursday, December 31, 2009

Nú árið er liðið...


Þegar horft er um öxl þá hefði ég aldrei trúað því í byrjun ársins að ég myndi kveðja það í Ríó de Janeiro. Enn á ný sannast hið forkveðna að enginn veit sína ævi fyrr en öll er og hvað mig varðar þá líður mér vel á nýjum stað og hlakka til að halda áfram að festa hér rætur og ná áttum. Á Íslandi á ég auðvitað fjölskyldu og vini sem ég elska og alltaf verð ég Íslendingur. En um leið var ég orðinn þreyttur á allri óvissunni og þar sem ég var erlendis lungann af góðæris fylleríinu, þá langaði mig ekki mikið til að taka á mig timburmennina.

En hvað um það, þessar línur áttu ekki að sveigja inná blúsaða braut. Ég og kötturinn káti sem sést hér á mynd dauðskelkaður í sínu flutningsferli ætluðum nú bara að senda kveðjur á liðið. Hún treysti sér ekki alla leið til suður Ameríku en flutti þess í stað norður til mömmu og pabba og unir hag sínum vel. Ég er persónulega bjartsýnn á 2010 og vona að svo sé um sem flesta sem ég þekki.

Ég hefði mögulega skrifað meira en það er mikið verið að reka á eftir mér að tygja mig af stað. Við ætlum að fá okkur bita í gogginn áður en við leggjum af stað niður á strönd þar sem árið verður hvatt með kunnuglegum hætti - flugeldasýningu.

Tuesday, December 29, 2009

City Primeval e. Elmore Leonard


Ég er orðinn á eftir í 'bókaumfjölluninni' - hef verið í nokkuð góðu lestrarformi og verið að detta niður á góðar bækur.

Lengi ætlað að tékka á þessum gaur og fannst því tilvalið að grípa gæsina þegar ég rakst á hana í lítilli bókabúð sem selur notaðar bækur.
Ég hef aldrei verið mikill reyfarakall en þó lesið nóg til að gera mér grein fyrir því að það er mikill gæðamunur innan kreðsunnar. Þessi gaur flokkast með góða stöffinu og myndi þá fyrir mitt leyti fara í hillu með James Ellroy.

Leonard hefur skrifað hrúgu af bókum, til dæmis Get Shorty sem varð að bíómynd og Rum Punch sem Tarantino breytti í Jackie Brown - að mínu mati er það síðasta frábæra kvikmyndin úr hans smiðju, en hann er svo sem ekki dauður.

Þessi bók er lipurlega skrifuð og flæðir vel. Það er vondur krimmi og sæmilega góð lögga og slatti af áhugaverðum karakterum í bland. Það vakti athygli mína hve ofbeldið er léttvægt - ef svo má að orði komast. Fólk er bara lamið aðeins eða skotið í hausinn. Þegar ég síðan sá að skræðan er fyrst prentuð 1980 þá rann upp fyrir mér ljós. Það hefur líkast til ekkert þróast jafn mikið á mínu æviskeiði og þol mannskepnunnar fyrir ofbeldi í afþreyingarmiðlum...

Jól í Alphaville


Það er skrítið þegar maður er búinn að setja sér að halda 'dagbók' - ef svo má að orði komast. Rútínan er brotin upp og fyrr en varir vaknar maður upp við það að hafa ekki skrifað staf í hartnær viku.

Uppbrotið skrifast á ferðalag til Sao Paulo sem liggur hér suðvestur af og er stærsta borg landsins. Þetta var 430 km. akstur og því ekki ósvipað að aka heim til Dalvíkur til jólahalds, en samlíkingin nær ekki lengra en svo. Við lögðum af stað í bítið á þorláksmessu og sóttist ferðin nokkuð greiðlega en mér þótti kúnstugt að þegar við vorum komin innfyrir borgarmörkin þá var góður klukkutími eftir. Það helgast fyrst og fremst af umferðarþunganum - ástandið er ekki gott í Ríó en verra í Saó.

Það hlakkaði í mér þegar við renndum inn í Alphaville hverfið þar sem við áttum hótelgistingu og ég gat ekki á mér setið að söngla nokkrar hendingar úr Forever young. Tengdó fræddi mig á því að Japanskur náungi sem fann upp eitthvað lækningatæki og auðgaðist vel hefði keypt mikið land í Sao Paulo og byggt upp þetta hverfi. Kannski Alphaville hafi í virðingarskyni samið Big in Japan? Þarf að rannsaka þetta nánar ;)

Það er talsverður rígur milli Cariocanna og Paulistas (íbúa SP) þannig að það er ekki sjálfsagt mál að fara þangað til að halda jól. Foreldrar stjúpmóður hennar búa hins vegar þarna og faðirinn orðinn lélegur, þannig að ákveðið var að smala öllum systkinunum saman um jólin. Það væsti ekki um okkur, svo mikið er víst, ég kannski fer nánar í saumana á því síðar.

Tuesday, December 22, 2009

Feliz primavera...


...eða gleðilegt sumar. Ég er búinn að vera vaðandi í villu, vorinu lauk fyrst í gær og nú er s.s. brostið á sumar. Gott að vera búinn að fá það á hreint, ég er jú búinn að bíða og bíða eftir því að það færi að hlýna...

Samkvæmt dálki sem ég stautaði mig gegnum í blaðinu þá verður sumarið öfgakennt, bæði mjög heitt og mjög blautt. Ætli ég haldi mig ekki bara við þá hugmyndafræði sem ég hef iðkað í sambandi við veður á Íslandi: Taka því sem kemur.

Sunday, December 20, 2009

The naked and the dead e. Norman Mailer


Fyrst maður er á annað borð að hripa hér inn þá datt mér í hug að setja á blað nokkra punkta um bækurnar sem ég klára að lesa. Mér þykir orðið fenna ansi fljótt í sporin og hver veit nema þetta gagnist til að stemma við því stigu.

Þegar ég var að pakka heima á Íslandi þá komu ýmsar bækur úr hillum sem ég hafði geymt til betri tíma - ef svo má að orði komast. Þessi skræða var í þeim flokki og lenti með í farteskinu.

Ég hafði áður lesið eina bók eftir Mailer, Hörkutól stíga ekki dans, og líkað nokkuð vel. Hér er allt önnur skepna á ferð, þetta er hans fyrsta bók og hún byggir á atburðum sem höfundur upplifði sem hermaður í seinni heimsstyrjöld. Heilmikil skræða, rúmar 600 síður í vasabroti og ekki auðlesin.

Heilt yfir dálítið hæg en vel þess virði að lesa hana. Veltir upp skemmtilegu sjónarhorni á líf óbreyttra hermanna, eða öllu heldur venjulegra manna, sem hafa verið ræstir út, þjálfaðir upp og sendir af stað að slást við Japani. Það telst henni til tekna að í frásögninni er hvergi að finna sanna ameríska hetju sem drepur 500 óvini og fórnar á endanum lífi sínu til að binda endi á styrjöldina - a la Hollywood.

Samhliða því að fylgja sveit hermanna sem send er í vafasaman könnunarleiðangur þá veitir höfundur innsýn í bakgrunn hvers og eins, hvað þeir voru áður en þeir skrýddust búninginum. Vel skrifað og fyrir vikið eru karakterarnir mun trúverðugri. Markmiðið er að hreinsa einhverja eyju af Japönum og köppunum er falið að reyna að finna bakdyraleið að því markmiði. Leiðangurinn misheppnast en eyjan er nú samt hertekin, majór slysast til að vinna orrustuna á meðan hershöfðingin er í burtu á fundi og sá verður svaka svekktur. Hermennirnar láta ekki í ljós neinar sterkar tilfinningar, þegar bókinni lýkur eru þeir farnir að kvíða fyrir næstu innrás.

Saturday, December 19, 2009

Kæri jóli


Gerðum okkur ferð á pósthúsið fyrir rúmri viku til að senda jólapakka til Íslands. Rákum augun í svaka hrúgu af jólapökkum bakvið borðið og spurðum fyrir forvitnissakir hvað væri á seyði. Þá kom uppúr dúrnum að pósturinn safnar saman bréfum sem börnin í fátækrahverfunum skrifa jólasveininum. Bréfin eru síðan látin liggja frammi á afgreiðslustöðum og fólk getur tekið bréf, keypt gjöfina og pósturinn kemur henni til skila - þeir meira að segja klæða sig upp og hvaðeina :)

Við auðvitað stóðumst ekki mátið og fórum og kíktum á bréfin. Óskir sumra voru helst til óraunhæfar, allavega miðað við okkar fjárráð - ein óskin hljóðaði til dæmis uppá Playstation 3 tölvu. En við rákumst á bréf frá 14 ára strák sem heitir að mig minnir Jefferson, hann óskaði sér að fá skóladót og bakpoka undir það og við ákváðum að bjarga því fyrir hann.

Skóladótið var auðvelt að versla, gott úrval af því og í raun erfiðara að hemja sig í innkaupunum. Þegar upp var staðið þá var erfiðara að fá bakpokann á sæmilegum kjörum, þannig að ég fórnaði mínum. Keypti hann af götusala í London 2007 og þrátt fyrir efasemdir föður míns um endingu þá sér ekki á honum eftir tveggja ára notkun. Ana laumaði síðan með bók úr safninu sínu og við vorum bara nokkuð ánægð með okkur þegar við pökkuðum inn og skiluðum af okkur á pósthúsinu. Vonandi að drengurinn verði það líka.

Friday, December 18, 2009

Ó hýra Ísland...

Gott úrval af ferðahandbókum í bókabúðinni. Hvaða land skyldi nú státa af hýrustu bókakápunni?

Thursday, December 17, 2009

Buzios

Þessar myndir voru að skjóta upp kollinum, mappan lenti einhverstaðar á flækingi.









Wednesday, December 16, 2009

Lukkudýrið Fernando


Þessi litli gaur var að flækjast á vegg í sameigninni þegar við komum heim í fyrrakvöld. Hann var þægilega lítill og meinlaus eftir geðshræringuna sem fylgdi því að Ana steig næstum því á snák í einhverjum garði sem við vorum að væflast í. Ég sá ekki kvikindið en það hefði verið alveg mín heppni að stíga á snák í opnum sandölum.

Hvað um það, litla dýrið fékk nafnið Fernando og telst lukkudýr Liverpool aðdáendaklúbbsins sem við starfrækjum hér á heimilinu. Ekki vanþörf á heppninni og kappinn farinn að skila sínu, unnum Wigan í kvöld 2-1 og nafni hans skoraði eitt.

Við slepptum honum hér í herberginu og hann lét sig fljótlega hverfa inní skáp. Aðal röksemdin fyrir að leyfa honum leika lausum hala í okkar vistarverum er að hann étur meðal annars móskítóflugur. Lítið frést af honum nýlega, hann er kannski á termítafylleríi inní skáp og kemur tilbaka tveggja metra langur og reynir að éta mig - og bróður minn líka...

The cinematic orchestra


Gerðum okkur ferð í kvikmyndahús í gær. Óhefðbundna ferð þannig séð, þar sem við horfðum ekki einvörðungu á kvikmynd heldur fengum tónleika í kaupbæti. Myndin var s.s. 'þögul' - ber nafnið Man with a movie camera og er ættuð frá fyrrum Sovét, kom út 1929.

Menn hafa verið að brasa við þetta hér og þar, að leyfa hljómsveitum að semja músík við þöglar myndir og slá saman tónleikum og bíósýningu. Man að múm fékk að glíma við Potemkin og síðan gerði Barði þetta Haxan dæmi sitt.

Hvað um það. Ég átti einn disk með Cinematic og fíla þá bara nokkuð vel - trip hop með jazz ívafi. Þau voru mjög flott þarna, svaka tónlistarmenn heilt yfir. Tók sérstaklega eftir trommuleikaranum og bassaleikaranum.
Kvikmyndin stórundarleg en gerði sig vel í þessari samsuðu, veit ekki hvort ég myndi nenna að horfa á hana aftur og reikna svo sem ekki með að þurfa að glíma við þá ákvörðun.

Monday, December 14, 2009

Marimbondo og co


Dýralífið er eins og gefur að skilja mun fjölbreyttara en ég á að venjast. Hef nú að líkindum ekki komist í tæri nema brotabrot af því dóti sem þrífst hér, ætli það sé ekki best að fara í Amazon til þess að fá þetta allt á einu bretti.
Það eru helst skordýrin sem ég hef komist í kast við og þá er fyrst og fremst að nefna móskítóflugur og termíta.

Móskítóflugurnar eru duglegur við að bíta mig með tilheyrandi ofnæmisviðbrögðum míns norræna líkama. Mér er tjáð að með tímanum geti blóðið framleitt einhver mótefni sem draga úr þessum ósköpum. Þangað til reyni ég að muna að nota fælu og nota ofnæmistöflur og áburð til að bera á 'minnismiðana' sem skjóta upp kollinum hér og þar, þó aðallega á fótleggjum.

Termítarnir bíta ekki en eru hins vegar að dunda sér við að éta fataskápana. Þegar þeir síðan komast á legg þá vilja þeir fljúga á vit ævintýrana en ef glugginn er ekki opinn þá millilenda þeir á okkur. Það er smá bögg en ekkert stórmál. Ég hef aðallega áhyggjur af því að þeir taki sér bólfestu í gítarnum mínum...

Kvikindin á myndinni kallast Marimbondo. Þær stinga og systurnar segja mér að það sé ógeðslega sárt... Ég sem hef aldrei orðið fyrir stungu geitungs eða neins af þessu tagi hef ákveðið að reyna að forðast Marimbondo-stungu eftir fremsta megni.
Þær eru hins vegar mikið hér í kring og eru að byggja sér hreiður í gluggakistunni hennar Biu. Ég tók þessa mynd af þeim að störfum og þær urðu ansi argar þegar vissri nánd var náð við glerið, flugu ítrekað á rúðuna og vildu greinilega komast inn og 'ræða' við mig. Húsvörðurinn ætlar að fjarlægja hreiðrið við tækifæri.

Friday, December 11, 2009

Þegar tré fellur


Eða nánar tiltekið tvö tré. Vöknuðum um fjögurleytið í nótt við eitthvað undarlegt hljóð. Maður var að sjálfsögðu hálfmeðvitundarlaus en vaknaði og skynjaði að það hafði orðið einhver hávaði, hvinur eða álíka. Svona til ítrekunar þá slökknaði á dýrindis jólaseríu sem búið er að setja upp í herberginu - rafmagnið sumsé farið.

Ég nennti nú ekki að spá mikið í málinu á þessum tímapunkti. Þær systur þinguðu eitthvað en ég sofnaði bara aftur og vaknaði síðan um morguninn við ómstríðann söng keðjusagar. Þá kom uppúr dúrnum að tvö tré í garðinum mikla sem er við hliðina á götunni okkar höfðu fallið um nóttina og tekið niður rafmagnslínurnar - sjá mynd.

Það er held ég ekki blessuðum vindinum að kenna, hann hafði tiltölulega hægt um sig í gær. En það rigndi hins vegar alveg ótrúlega, líklega mesta rigning sem ég hef upplifað á ævinni. Manni dettur í hug að regnið hafi grafið undan trjánum.
Það kann að hljóma ótrúlega en rigningin sem var í gærkvöldi var með ólíkindum, ég hafði ekki upplifað ekta hitabeltisrigningu fyrr en ég kom hingað. Það er hin ágætasta skemmtun að sitja við gluggann og horfa á hana, sem og hlusta. Ótrúlegur kraftur í þessu og hávaði + síðan þrumurnar og eldingarnar sem stundum fylgja með í kaupbæti - alveg ókeypis!

Monday, December 7, 2009

Veðurskip Líma


Það er búið að vera mun þægilegra hitastig undanfarna daga. Föstudag og laugardag rigndi linnulítið, ekki að ég sé að kvarta. En af þeim sökum þurfti ég að fara í buxur, sokka og skó þegar við fórum í mat til vinafólks hennar á laugardaginn. Mér leið eins og Tarzan þegar hann var settur í jakkaföt og fluttur í siðmenninguna, ekki vel.

En það fór allt á besta veg og verður kannski ágætis æfing fyrir jólahaldið - nema maður fái bara að vera í stuttbuxum og sandölum þegar hátíðin brestur á, það kemur líklegast í ljós...

Sunday, December 6, 2009

Flamengo eru Brasilíumeistarar!


Síðasta umferð deildarkeppninnar var leikin í dag. Flamengo áttu leik heima og þurftu sigur til að landa titlinum. Eftir að hafa lent marki undir þá höfðu þeir sigur, 2-1.
Titillinn ku sögulegur og það fyrir margra hluta sakir, þetta er í tíunda skiptið sem klúbburinn vinnur en síðast titill kom fyrir 17 árum. Þetta er bara næstum eins og hjá Liverpool ;)

Ekki nóg með það, það gekk ekkert hjá þeim framan af og þjálfarinn var látinn fara - þegar ég kom hér í júní þá voru þeir rétt um miðja deild. En gamall jaxl sem spilaði með klúbbnum á sínum tíma og hefur starfað fyrir félagið æ síðan tók við taumunum og náði að lemja mannskapinn saman með þessum líka árangri. Hann er fyrsti svarti þjálfarinn sem vinnur meistaratitil í Brasilíu, gaman af því.

Fagnaðarlætin eru náttúrulega engu lík. Við ætluðum á völlinn en það var ekki séns að ná miðum - fólk beið í röð tveim dögum áður en þeir fóru í sölu og ég var ekki alveg til að leggja svo mikið á mig.
Þannig að við horfðum hérna heima og fórum svo út að upplifa lætin í leikslok. Allir strætisvagnar fullir af fólki í rauðum og svörtum treyjum, syngjandi og öskrandi. Bílar keyra um með blaktandi fána og flautandi og annar hver maður á götunni var í treyju og leiðin lá að stóru torgi sem er í göngufæri. Þar var verið að skjóta upp flugeldum og hvaðeina og ljóst að liðið verður að eitthvað frameftir nóttu.

Ana og Fernanda vinkona hennar hafa útnefnt mig lukkudýr klúbbsins og sú síðarnefnda krafðist þess áðan að ég yrði í Brasilíu um ókomna tíð. Ég vék mér undan því að lofa nokkru ;)

Thursday, December 3, 2009

Myndir...

Tunglið var risastórt og veðrið milt og gott, þannig að við skelltum okkur í göngutúr með Biu niður að vatninu sem er hér ekki langt frá. Myndavélin mín er ekki sú ljósnæmasta en með smá fikti í stillingum fengust nokkuð áhugaverðar myndir útúr þessu.








5 vikur að baki


Tíminn flýgur hvort sem maður er á Íslandi eða í Brasilíu, svo mikið er víst. Settumst niður í gær og tókum stöðu á fjármálunum. Ég var mjög forvitinn að fá einhverja tilfinningu fyrir kostnaði við daglegt líf hér um slóðir.
Ólíkt því sem margir halda þá er Brasilía ekkert ódýr hvað margt varðar. Allur innflutningur er til dæmis skattlagður alveg svakalega og þegar maður reiknar til baka yfir í krónur þá er það með viðkomu í gengi bandaríkjadollars, sem er fjarri því að vera hagstæður í innkaupum þessa dagana. Enn sem komið er og líklega um hríð til viðbótar er ég að nota peninga sem eru upprunnir á Íslandi.

Hvað um það, við höfum nú lifað tiltölulega frjálslega síðan ég kom án þess að hafa verið í einhverju rugli. Borðum gjarnan úti en engin ógurlega fínheit endilega á því, ég hef verslað dálítið af fötum - aðallega stuttbuxur og stuttermaboli og við vorum helgi í Buzios með tilheyrandi kostnaði.

Eyðslan er um 25.000 krónur á viku fyrir okkur bæði og það finnst mér vel sloppið. Við eigum síðan auðveldlega að geta sparað með því að elda meira heima og þar sem við höfum sett stefnuna á að skreppa til Buenos Aires í janúar þá ætlum við að herða ólina í samræmi. Argentína ku vera allavega 50% ódýrari en Brasilía...

Wednesday, December 2, 2009

Áfangasigur - CPF í höfn


Jæja, ég hef orðið rétt til að:

- Stofna bankareikning
- Kaupa bíl
- Kaupa sjónvarp
- Borga skatta...

Gerðum okkur ferð í síðustu viku til að ljúka umsóknarferlinu um þetta ágæta kort. Kann ekki að nefna batteríið sem við heimsóttum en það er s.s. undir hatti hins opinbera. Skröltum í strætó niður í miðbæ og römbuðum inn í risavaxna byggingu sem virkaði eins og hún væri teiknuð af Albert Speer. Manneskjan fær sko virkilega að finna til smæðar sinnar innan slíkra veggja.

Þarna var margt um manninn og við byrjuðum á að fara í röð þar sem okkur var úthlutað númeri - handskrifað á blaðsnifsi. Síðan áttum við bara að mæna á bláan skjá eins og restin af hjörðinni og bíða þess að okkar númer kæmi upp. Skv. miðanum áttum við tíma 10.50 en þegar klukkan tók að síga að þeirri tölu og enn var löng leið í okkar númber, ákváðum við að hverfa frá og reyna aftur síðar.

Þannig að í gær fórum við aftur á stúfana og heimsóttum útibúið í Ipanema, styttra ferðalag og mögulega minni gestagangur. Það stóð heima, örfáar hræður á staðnum þegar við mættum og miðinn með númerinu útprentaður í þetta skiptið. Sami blái skjárinn að mæna á en allt gekk greiðar fyrir sig og fyrr en varði sátum við fyrir framan skrifborð og tíndum pappíra í embættismann. Hann bað mig að gaumgæfa að nafnið mitt og móður minnar væri rétt stafað - spurði sérstaklega hvort það væru tvö 't' í dóttir. Þegar það var allt vottað prentaði hann út plagg með CPF númerinu mínu og sagði ég gæti brúkað það til bráðabirgða, kortið yrði tilbúið eftir að giska 30 daga. Það var ekki flóknara en svo.

Monday, November 30, 2009

Allt milli himins og jarðar


Rifum okkur upp snemma, eða svona allt að því, á laugardag. Stefnan sett á markað þar sem vonin var að finna spil. Þannig er að frænka mín heima á Íslandi safnar spilum af miklum móð og það kom uppúr dúrnum að hún á engin spil frá Brasilíu. Ótækt annað en reyna að bæta úr því.

Það má í raun segja að þetta hafi verið smá prófraun fyrir safnarann mig, ég er búinn að segja þeirri áráttu að sanka að mér misgáfulegu drasli stríð á hendur. Þarna rakst ég á ýmiskonar freistingar en skemmst er frá því að segja að ég stóð þær allar af mér og kom tómhentur heim - utan einn spilastokk, sem að sjálfsögðu er ekki handa mér. Ég staldraði lengi við torkennilega safnplötu með lögum Bítlanna sem framleidd er í suður-Ameríku og mögulega án leyfis. Lét mér á endanum nægja að taka af henni mynd en Ana keypti áttstrenda glerflösku sem hafði týnt tappanum einhvers staðar á leiðinni og hýsir nú blóm hér heima.

Við fengum hins vegar þau leiðu tíðindi eftir nokkrar fyrirspurnir að maður sem hafði sérhæft sig í spilum og verið fastagestur á markaðinum hefði látist nokkrum vikum áður. Það gengur svo en við rákumst í það minnsta á vin hans sem sagðist vera með eitthvað af spilum heima og bauðst til að koma með þau um næstu helgi. Eins komumst við á snoðir um annan markað sem einungis er haldinn fyrstu helgina í hverjum mánuði. Þannig að næsti laugardagur er að verða nokkuð planaður hjá okkur.

Sunday, November 29, 2009

Kallið mig Ísmael...


Fórum á bókamarkað um helgina, eitthvað sem henni var boðið á gegnum vinnutengingu. Eftir litlu að slægjast fyrir mig svo sem - allt á portúgölsku, ég ekki orðinn nógu 'portúgalinn' til að botna í þesslags bókum...
Hvað um það, svo sem hægt að skoða og flestir básarnir höfðu upp á eitthvað matarkyns að bjóða, manni leiddist ekki né leið skort.

Hún var að skoða einhverja voða fína útgáfu af Moby Dick, myndskreytingar og svaka læti. Nema hvað, framarlega í bókinni var að finna smá klausu þar sem orðið 'hvalur' kom fyrir á nokkrum tungumálum - þar á meðal íslensku...eða það var meiningin.
Ég tók fyrir þá fría próförk, hvalur var sagt 'whale' upp á íslensku.

Kona á básnum fékk mér bréfmiða og þar páraði ég skilmerkilega þetta ágæta orð, á eins skiljanlegan hátt og mér var unnt. Hún bauð okkur síðan 30% afslátt af skræðunni en stúlkan vildi ekki þiggja - enginn hvalreki fyrir bókasafn heimilisins þann daginn ;)

Thursday, November 26, 2009

Ahhh Sopranos


Það kom uppúr dúrnum að Ana hafði ekki séð neitt af þessum ágætu þáttum. Hana langaði hins vegar að kynnast þessari ágætu fjölskyldu og við höfum verið að taka einn þátt á kvöldi. Það er skemmst frá því að segja að þeir klikka ekki frekar en fyrri daginn - þetta verður mitt þriðja rennsli ef við klárum allar sex seríurnar.

Datt niður á þessa ágætu tilvitnun í David Chase, manninn á bakvið dæmið. Þetta skýrir kannski hvað ég hef alltaf fundið sterka og trúverðuga tengingu við persónurnar í þessum þáttum:

'I don't know very many writers who have been cops, doctors, judges, presidents, or any of that - and, yet, that's what everybody writes about: institutions. The courthouse, the schoolhouse, the precinct house, the White House. Even though it's a Mob show, The Sopranos is based on members of my family. It's about as personal as you can get.'

Monday, November 23, 2009

Hvar er Kristur (3ji hluti)


Plakat fyrir kvikmyndina 2012 sem við létum okkur hafa að sjá um helgina. Mæli ekki með henni :)

Úr dýraríkinu


Þessi skrapp með mér á klósettið á pöbb sem við heimsóttum fyrir nokkrum dögum. Ósköp lítil og krúttleg en hvekktist dálítið þegar ég fór að brasa við að ná mynd af henni, hafðist í þriðju tilraun.

Sunday, November 22, 2009

Flamengo



Stúlkan er gallhörð stuðningskona? (Maður kann svo lítið með kvenkyn að fara í samhengi við fótbolta). Allavega, hún fílar fótbolta og styður Flamengo, sem er eitt fjögurra knattspyrnuliða hér í borg - hin eru Botafogo, Fluminense og Vasco da Gama.

Ég hef að sjálfsögðu verið innlimaður í áhangendahóp liðsins og nú er brostinn á geysispennandi endasprettur í deildinni. Eins og sjá má er Flamengo 2 stigum á eftir toppliðinu Sau Paulo þegar 3 umferðir eru eftir. Sem stendur er Sao Paulo að spila við Botafogo og staðan er 1-1 í hálfleik...

Flamengo hafa verið á mikilli siglingu, voru í 6. sæti þegar ég mætti til leiks og því er meðbyrinn heldur með þeim á lokasprettinum þar sem greinilega er kominn skjálfti í toppliðið. Þetta minnir ögn á ensku deildina í fyrra en fer vonandi betur hérna megin ;)

Það er sama hvort þú ert að horfa á Flamengo leikinn eða ekki, það fer ekkert framhjá þér ef liðið skorar því þú heyrir einhvern í næstu íbúð eða nágrenni orga. Það er alveg ljóst að menn eru eins fótboltabrjálaðir hér um slóðir og löngum hefur verið látið - eða verri jafnvel.

Flamengo spilar heima í dag en það var uppselt, þannig við ætlum að skella okkur á síðasta leik tímabilsins sem er hér heima. Það verður stemmning!

Friday, November 20, 2009

Ipanema


Í dag var frídagur þannig að við rifum okkur á ströndina eldsnemma...eða allt að því. Þegar maður sem er ekki sérlegur morgunhani byrjar með konu sem er engin sérstök morgunhæna þá vill reynast erfitt að taka daginn snemma.
Vekjarinn hringdi fyrst 8.30, við höfðum okkur af stað að verða 10. Fengum okkur morgunmat á frábærum stað þaðan sem maður horfði nánast beint niður á strönd.

Ég mætti til leiks með sólarvörn upp á 30 og fór fljótlega upp í 50...ég er að passa mig og vonast til að húðin gíri sig eitthvað upp í takt við aðstæðurnar. Það eru skiptar skoðanir um líkurnar á því en við sjáum hvað setur.

Hitinn var rosalegur þannig að ég var fljótlega kominn í sjóinn til kælingar. Hann var rólegri en ég hef upplifað hann áður við Ipanema en þetta var í fjórða skiptið sem við förum þangað. Stephen Merchant (The Office, Extras) beið næstum bana við það að ætla að bregða sér aðeins í sjóinn og kasta af sér vatni á þessum slóðum. Ég skil alveg hættuna á því miðað við aðstæðurnar sem ég hef upplifað þarna. Öldurnar verða ansi hreint hressilegar þó svo að það sé í raun blíðskaparveður.

Síðan eru lúmskir straumar í gangi. Það er alveg magnað að láta öldurnar rugga sér og skola sér til og frá. En það er álíka mikill kraftur í vatninu sem sogast út og því sem brotnar á ströndinni þegar aldan kemur inn. Þegar maður er kominn visst langt út þá magnast straumarnir og eru viðsjárverðir - það er dálítið búið að hamra á því við mig sem er náttúrulega bara eins og krakkavitleysingur þegar ég fer útí að busla :)

Það er skemmst frá því að segja að eftir 3 tíma dvöl á ströndinni þá eru axlir ansi hreint brunnar en annað í sæmilegu lagi. Semsagt: Næst verð ég með ullarjal yfir herðarnar...

Hér heima tóku við annir, við ætlum að smala liðinu saman á morgun; systrum hennar, föður og stjúpu og baka pizzu. Ég fann uppá þessu og var því leiðandi afl í framleiðslu á bæði sósu og deigi. Útkoman lofar helvíti góðu þó ég segi sjálfur frá.

E.s. Meðfylgjandi mynd telst tæknilega sögufölsun þar sem hún er tekin í annarri ferð. Ég er orðinn rúinn inn að skinni eða því sem næst, en blessunarlega bara um höfuðið.

Wednesday, November 18, 2009

Gone mentos...


Miðað við það hve margir hér eiga ekki neitt þá er mentos úrvalið alveg merkilega gott...

Tuesday, November 17, 2009

Cadastro de pessoas físicas


Hóf hina löngu vegferð í átt að innlimun í brasilískt samfélag í dag, með því að sækja um þetta ágæta kort sem allajafna er bara kallað CPF. Það gegnir mikilvægu hlutverki í daglegu lífi, gagnast sem skilríki, er nauðsynlegt til að opna bankareikning, kaupa bíl, sjónvarp o.þ.h.

Maður sækir nú bara um þetta á pósthúsinu og það er eins og svo margt í þessu ágæta hverfi staðsett rétt handan hornsins. Á göngunni þangað magnaði ég hins vegar upp allskyns vitleysu í hausnum á mér og var farinn að sjá frammá að við yrðum afgreidd af einhverskonar norn sem myndi heimta mútugreiðslu og ég veit ekki hvað...

Ég dundaði mér við það meðan við biðum í röð að ráða í andlit afgreiðslufólksins, hvert þeirra væri nú viðmótsþýðast. Ég var fljótur að komast að því að rúmlega helmingur þjáðist af lífsleiða á háu stigi og búinn að velja konu sem mér leist best á að erindast við. Á endanum skeiðaði nýtt andlit í salinn, líklega fersk úr kaffipásu eða álíka, og kallaði okkur til sín. Hún reyndist fjarri því að vera norn, kallaði skilmerkilega eftir ýmsum plöggum, sem ég fiskaði hikstalaust uppúr umslagi sem ég hafði í farteskinu og allt gekk mjög svo smurt fyrir sig.

Mér fannst merkilegt þegar hún var að rýna í fæðingarvottorðið og bað mig að benda á nafn móður. Ég gerði það og benti henni síðan á nafn föður en hún sagði það algjöran óþarfa - það væri móðirin sem skipti máli. Með því var þetta afgreitt, að vísu þurfum við að fara með kvittunina á annan stað til að ná í kortið en fyrsti þröskuldurinn af þónokkrum er í það minnsta yfirstiginn.

Monday, November 16, 2009

Nýlenduvörur


Mér finnst gaman að fara í matvöruverslanir í útlöndum, sem og apótek. Er áhugamaður um framandi vörur ef svo má að orði komast.
Í heimsókn minni hér fyrr á árinu bragðaði ég fyrst Guarana gosdrykkinn og kneifa nú af miklum móð þegar þorsti sækir að. Margir þekkja guarana líklega úr magic orkudrykknum, það er stór hluti af bragðmynd þess drykks. Guarana gos er hins vegar mun betra og í raun furða að þessu hafi ekki skolað uppá íslandsstrendur, coca-cola company framleiðir týpuna sem ég drekk oftast.

Sunday, November 15, 2009

Friburgo

Fórum í bíltúr upp til fjalla á þennan líka frábæra stað með tengdaföður og stjúpu og fundum þar fyrir hóteleigandann Reiner sem iðkar zen búddisma líkt og tengdó. Læt myndirnar tala sínu máli - eins og klisjan segir ;)