Thursday, December 31, 2009

Nú árið er liðið...


Þegar horft er um öxl þá hefði ég aldrei trúað því í byrjun ársins að ég myndi kveðja það í Ríó de Janeiro. Enn á ný sannast hið forkveðna að enginn veit sína ævi fyrr en öll er og hvað mig varðar þá líður mér vel á nýjum stað og hlakka til að halda áfram að festa hér rætur og ná áttum. Á Íslandi á ég auðvitað fjölskyldu og vini sem ég elska og alltaf verð ég Íslendingur. En um leið var ég orðinn þreyttur á allri óvissunni og þar sem ég var erlendis lungann af góðæris fylleríinu, þá langaði mig ekki mikið til að taka á mig timburmennina.

En hvað um það, þessar línur áttu ekki að sveigja inná blúsaða braut. Ég og kötturinn káti sem sést hér á mynd dauðskelkaður í sínu flutningsferli ætluðum nú bara að senda kveðjur á liðið. Hún treysti sér ekki alla leið til suður Ameríku en flutti þess í stað norður til mömmu og pabba og unir hag sínum vel. Ég er persónulega bjartsýnn á 2010 og vona að svo sé um sem flesta sem ég þekki.

Ég hefði mögulega skrifað meira en það er mikið verið að reka á eftir mér að tygja mig af stað. Við ætlum að fá okkur bita í gogginn áður en við leggjum af stað niður á strönd þar sem árið verður hvatt með kunnuglegum hætti - flugeldasýningu.

1 comment:

  1. Hæ hæ :)
    Gleðilegt ár :)
    Það hefur sennilega verið öðruvísi upplifun að fagna áramótum í Brasilíu :)
    Knús á ykkur
    Didda

    ReplyDelete