Thursday, December 3, 2009

5 vikur að baki


Tíminn flýgur hvort sem maður er á Íslandi eða í Brasilíu, svo mikið er víst. Settumst niður í gær og tókum stöðu á fjármálunum. Ég var mjög forvitinn að fá einhverja tilfinningu fyrir kostnaði við daglegt líf hér um slóðir.
Ólíkt því sem margir halda þá er Brasilía ekkert ódýr hvað margt varðar. Allur innflutningur er til dæmis skattlagður alveg svakalega og þegar maður reiknar til baka yfir í krónur þá er það með viðkomu í gengi bandaríkjadollars, sem er fjarri því að vera hagstæður í innkaupum þessa dagana. Enn sem komið er og líklega um hríð til viðbótar er ég að nota peninga sem eru upprunnir á Íslandi.

Hvað um það, við höfum nú lifað tiltölulega frjálslega síðan ég kom án þess að hafa verið í einhverju rugli. Borðum gjarnan úti en engin ógurlega fínheit endilega á því, ég hef verslað dálítið af fötum - aðallega stuttbuxur og stuttermaboli og við vorum helgi í Buzios með tilheyrandi kostnaði.

Eyðslan er um 25.000 krónur á viku fyrir okkur bæði og það finnst mér vel sloppið. Við eigum síðan auðveldlega að geta sparað með því að elda meira heima og þar sem við höfum sett stefnuna á að skreppa til Buenos Aires í janúar þá ætlum við að herða ólina í samræmi. Argentína ku vera allavega 50% ódýrari en Brasilía...

No comments:

Post a Comment