Thursday, October 11, 2012

Nikólína Kristjánsdóttir 2000 - 2012?

Uppfærsla 22.10.2012:
Ehemm, fékk sms skilaboð frá mömmu: 'Nikólína er komin heim.'
Hún ku vera grindhoruð og líklega lífi eða tveim fátækari en þessi merkisköttur er ekki búinn að segja sitt síðasta :)

Þetta merkilega kattardýr er líklega horfið á braut fyrir fullt og allt. Þar sem mogginn yrði líklega tregur til að prenta minningargrein þá datt mér í hug að setja inn nokkur orð hérna til minningar.

Kisa settist í helgan stein norður á Dalvík þegar ég flutti út árið 2009, í sveitasæluna hjá mömmu. Henni leist nú ekkert sérlega vel á pleisið þegar við komum þangað fyrst, var stressuð og vör um sig og margt nýtt bar fyrir glyrnur - gleymi til dæmis aldrei þegar hún sá hest í fyrsta skipti :)
En hún fann sig vel þarna, kunni vel við mömmu og mamma vel við hana þannig að þó ég kæmi heim aftur tæpu ári síðar þá ákváðum við Ana að vera ekkert að róta henni aftur. Gullnu árin líka brostin á og hún sló í 12 kattaár í sumar, skv netinu eru það um 70 ár á okkar skala.

Hún var alltaf söm við sig, tók sumu fólki og öðru alls ekki. Stundum fúl og alltaf mest til í að tala við mann 'one on one'.
Í sumar gerðist eitthvað stórundarlegt. Hún alveg steinhætti að éta matinn sinn og var úti allar nætur að veiða mest mýs og einhverja fugla og át svona nokkurn veginn með húð og hári - mamma fann stundum músaskott í þvottahúsinu þar sem hún hélt til. Mamma reyndar gómaði hana líka með hálfan andarunga úr heimaeldinu, en það er önnur saga...

Í kjölfarið á þessum aðgerðum hríðlagði daman af og hætti meira að segja að hrjóta þegar hún svaf. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég kom þarna í júlí, hún var í alveg toppformi blessunin. Nema hvað, þegar fór að kólna þá fór hún að vera meira inni á nóttunni og meira að segja hreyfa við mat sem lagður var fyrir hana. En svo allt í einu hvarf hún fyrir að verða mánuði. Það hafði svo sem gerst áður að hún legðist út um tíma en eftir 1-2 daga fór mamma að horfa eftir henni og kalla á hana, hún svaraði alltaf og kom þegar kallað var á hana. Það gerðist ekki í þetta skiptið og þrátt fyrir leit í útihúsum og næsta nágrenni þá finnst hún bara ekki.

Mér finnst það reyndar leiðinlegast. Vissi alltaf að þessi köttur yrði ekki eilífur frekar en við hin en sá alltaf fyrir mér að geta kvatt hana og komið henni fyrir e-h staðar þar sem ég vissi af hennar jarðnesku leifum. Því miður gekk það ekki eftir.

Þessi köttur fylgdi mér í gegnum marga góða daga og þónokkra slæma og það var svo sannarlega betra að hafa hana hjá sér en ekki. Hef kynnst þónokkrum kynjaköttum á lífsleiðinni en engum eins og þessum!