Tuesday, December 13, 2011

My fair lady

http://www.imdb.com/title/tt0058385/

Mér leist ekki vel á Pygmalion þegar hún var á lestrarlista í ensku áfanga forðum. En á endanum hafði ég mjög gaman af henni og var þess vegna alveg tilkippilegur að horfa á myndina. Ana var að klára stórmerkilega lesningu, dagbækur Cecils nokkurs Beaton og eitt af því fjölmarga sem sá maður afrekaði um ævina var að hanna útlit og annað tengt myndinni. Hún stakk þess vegna uppá að horfa á myndina.

Stykkið slagar í 3 tíma og er hlaðið söngatriðum...það er helsti gallinn og til viðbótar má nefna hvellan róm og pirrandi hreim Audrey Hepburn sem götustelpunnar. En leikur er í góðu lagi og textinn vel fyndinn að mörgu leyti, eins og til að mynda karlremban sem viðgengst, absúrd og fornaldarlegur.

Var orðinn mjög þreyttur þegar yfir lauk og fullsaddur en eins og áður sagði þá er sagan góð og margt vel gert. 3 / 5.

Saturday, November 12, 2011

Kisufólkið frá 1982

http://www.imdb.com/title/tt0083722/

Einhverra hluta vegna sá aldrei Cat People á unglingsárum og saknaði þess aldrei sérstaklega. En hinn helmingurinn (nákvæmlega skipt í miðju - jafnrétti kynjanna ;) lagði til að við yrðum okkur úti um þessa mynd og hún liggur nú í valnum, best að hripa nokkur orð meðan eitthvað stendur eftir.

Mér dettur í hug að draga upp líkingu við titillagið, sem David Bowie lagði til texta við og söng og enginn komst hjá því að heyra ótal sinnum. Þrátt fyrir að vera mikill Bowie aðdáandi fannst mér alltaf eitthvað trukk vanta þegar viðlagið kikkar inn og þykir enn. Sama má segja um myndina; vissulega athyglisverð grunnpæling og tvímælalaust metnaður til staðar en það er eins að reynt sé að stoppa í holur í handriti með að skrúfa aðeins upp furðulegheitin - og plokka fleiri spjarir af N. Kinski. Hún flaggar bæði brjóstum og brúsk og McDowell er skemmtilega geðveikur að venju en útkoman er óttaleg meðalmennska. 2.5 / 5

e.s. 'Putting out fire with gasoline' er og verður afar töff textalína.

Wednesday, November 9, 2011

Tinni í 3D eins og hálfri ævi seinna

http://www.imdb.com/title/tt0983193/

Fórum að sjá hvernig Spielbergur og hringadrottnarinn gerðu Tinna blessaðan úr garði. Stikla lofaði góðu en mér fannst þó andlitin ögn skrítin og svo var spurning hvort byssur vékju fyrir talstöðvum og þaðan af verra. Einfalt sagt þá var þetta frábær skemmtun og minnti á Indiana Jones stemmninguna þegar maður var yngri og...saklausari? Ævintýrið lifnaði heldur betur við á skjánum og skáldaleyfi hér og þar voru til forfrömunar frekar en hitt. Þýðandi klikkaði á einhverjum atriðum, eins og til að mynda nafni Valíu Veinólínó. 4.5 af 5 mögulegum.

Sunday, October 9, 2011

Brekkukotsannáll


Þar sem allt fram streymir linnulaust og alltof margt gufar upp mjög svo skömmu eftir að maður hefur meðtekið það þá ætla ég að taka mér tak. Taka mig til og upphefja aftur þann sið að skrifa dálitla klausu þegar ég lýk við að lesa bók, svo að ögn meira standi ef til vill eftir og þá hægt að rifja það upp aftur ef maður skyldi hafa einhverja list á því.

Ég strengdi áramótaheit með sjálfum mér þegar 2011 gekk í garð (auglýsti það reyndar á facebook líka) og sagðist ætla að lesa minnst 3 bækur eftir Laxness á þessu ári. Kristnihaldið er frá en með þeim herkjum að það dró heldur úr eldmóðinum. En Ana er löngu búin að lesa meiri HKL en ég og þar að auki ég nokkuð góður að standa við það sem ég ákveð - þannig að nú er Annállinn frá.

Það tók mig stund að komast af stað og bókin er lesin í 2 áföngum en þó ekki alfarið að mínu vali. Ég var byrjaður að lesa hana áður en við vorum kölluð til Rio að kveðja Marciu. Fyrst í stað hugðist ég bara kippa henni með yfir hafið en fór svo að hafa áhyggjur af raka, ég veit ekki betur en þetta sé fyrsta prentun sem ég og hvort heldur sem er, leiðinlegt að skemma fallega bók.
Þannig hún beið heima þennan rúma mánuð sem við vorum burtu.

Það er eitthvað alveg rammíslenskt í skrifum þessa manns, meira að segja útlendingurinn konan mín skynjar það. Vissulega er þetta nokkuð fornt allt saman og þessi bók til að mynda útgefin rúmum 15 árum áður en ég fæðist og þess vegna kannski ekki furða að mér varð mikið hugsað um afa og ömmur á sumum stigum lestursins.

Ég gæti skrifað lengi og mikið en hef ekki rónna í mér til að gera það eins vel og skipulega og ég vildi. Þannig ég ætla að ljúka þessu með að segja að þessi bók festi Kiljan enn betur í sessi hjá mér og gerði að verkum að ég hlakka til að taka upp þá næstu - þó ég sé reyndar að spá í að lesa Svartfugl Gunnars Gunnarssonar í millitíðinni og kannski klára 1 - 2 bækur sem liggja hálflesnar...


Sunday, March 13, 2011

Áfanga er náð - ótakmarkað dvalarleyfi í Brasilíu


Þessi myglulega og mjög svo óskýra mynd er s.s. af innlegginu sem Brasilíska sendiráðið límdi inní vegabréfið mitt. Þessi sneypa tryggir mér inngöngu í landið og þegar ég er síðan búinn að heimsækja lögreglustöð og ganga frá einhverri skráningu þá hef ég ótakmarkað dvalarleyfi og ferðafrelsi inn og útúr landinu - svo fremi sem ég passa það að koma á minnst 2 ára fresti í heimsókn. Það er auðvitað að því gefnu að við kjósum að búa einhverstaðar annarstaðar en í þessu nýja 'heimalandi' mínu, framtíðarbúseta er mjög óráðin en við ætlum jú að vera á Íslandi í það minnsta næstu 18 mánuði.

Það var dálítið kúnstugt fannst mér að ein af kvöðum þessa dvalarleyfis er sú að ef við eignumst son og búum í Brasilíu þá er hann skyldugur til að gegna herþjónustu. En lausnin á því máli er einföld, ef hann á annað borð vill sniðganga þetta, við þurfum bara að búa annarstaðar...

Þessi síða verður líkast til áfram í hálfgerðum dvala. En það var ótækt annað en punkta niður þessi stórtíðindi!

Tuesday, January 4, 2011

Dvalinn...

Ég var að fara á fætur í Hveragerði, klukkan er rétt rúmlega níu og vindurinn hamast svo fyrir utan að réttast væri að fara aftur í rúmið. Ana er að rumska á sínum eigin hraða og ekkert vit að ætla að raska því tempói.

Verkefni dagsins eru næg. Meiningin er að skreppa til Reykjavíkur - það er að segja ef bíllinn nær úr sér hrollinum og dettur í gang með sín ónýtu glóðarkerti. Ef það gerist ekki þá er svo sem af nógu að taka hér heima fyrir og víst að manni þarf aldrei að leiðast.

Við duttum í samræðu í gær um það hvar við vildum helst vera. Ég áttaði mig á því að ég á mér þannig séð engar sértækar þrár. Stundum finnst mér rokið og kuldinn hér jú helst til bítandi en um leið hef ég líka komist að því að of mikill hiti er mér áþján. En þegar hér er komið við sögu þá hef ég ótakmarkað dvalarleyfi í Brasilíu sem og atvinnuleyfi. Það er ósköp gott að eiga möguleika, svo mikið er víst.

Nýtt ár brostið á eina ferðina enn og mér líður vel með það.