Sunday, October 9, 2011

Brekkukotsannáll


Þar sem allt fram streymir linnulaust og alltof margt gufar upp mjög svo skömmu eftir að maður hefur meðtekið það þá ætla ég að taka mér tak. Taka mig til og upphefja aftur þann sið að skrifa dálitla klausu þegar ég lýk við að lesa bók, svo að ögn meira standi ef til vill eftir og þá hægt að rifja það upp aftur ef maður skyldi hafa einhverja list á því.

Ég strengdi áramótaheit með sjálfum mér þegar 2011 gekk í garð (auglýsti það reyndar á facebook líka) og sagðist ætla að lesa minnst 3 bækur eftir Laxness á þessu ári. Kristnihaldið er frá en með þeim herkjum að það dró heldur úr eldmóðinum. En Ana er löngu búin að lesa meiri HKL en ég og þar að auki ég nokkuð góður að standa við það sem ég ákveð - þannig að nú er Annállinn frá.

Það tók mig stund að komast af stað og bókin er lesin í 2 áföngum en þó ekki alfarið að mínu vali. Ég var byrjaður að lesa hana áður en við vorum kölluð til Rio að kveðja Marciu. Fyrst í stað hugðist ég bara kippa henni með yfir hafið en fór svo að hafa áhyggjur af raka, ég veit ekki betur en þetta sé fyrsta prentun sem ég og hvort heldur sem er, leiðinlegt að skemma fallega bók.
Þannig hún beið heima þennan rúma mánuð sem við vorum burtu.

Það er eitthvað alveg rammíslenskt í skrifum þessa manns, meira að segja útlendingurinn konan mín skynjar það. Vissulega er þetta nokkuð fornt allt saman og þessi bók til að mynda útgefin rúmum 15 árum áður en ég fæðist og þess vegna kannski ekki furða að mér varð mikið hugsað um afa og ömmur á sumum stigum lestursins.

Ég gæti skrifað lengi og mikið en hef ekki rónna í mér til að gera það eins vel og skipulega og ég vildi. Þannig ég ætla að ljúka þessu með að segja að þessi bók festi Kiljan enn betur í sessi hjá mér og gerði að verkum að ég hlakka til að taka upp þá næstu - þó ég sé reyndar að spá í að lesa Svartfugl Gunnars Gunnarssonar í millitíðinni og kannski klára 1 - 2 bækur sem liggja hálflesnar...