Tuesday, January 4, 2011

Dvalinn...

Ég var að fara á fætur í Hveragerði, klukkan er rétt rúmlega níu og vindurinn hamast svo fyrir utan að réttast væri að fara aftur í rúmið. Ana er að rumska á sínum eigin hraða og ekkert vit að ætla að raska því tempói.

Verkefni dagsins eru næg. Meiningin er að skreppa til Reykjavíkur - það er að segja ef bíllinn nær úr sér hrollinum og dettur í gang með sín ónýtu glóðarkerti. Ef það gerist ekki þá er svo sem af nógu að taka hér heima fyrir og víst að manni þarf aldrei að leiðast.

Við duttum í samræðu í gær um það hvar við vildum helst vera. Ég áttaði mig á því að ég á mér þannig séð engar sértækar þrár. Stundum finnst mér rokið og kuldinn hér jú helst til bítandi en um leið hef ég líka komist að því að of mikill hiti er mér áþján. En þegar hér er komið við sögu þá hef ég ótakmarkað dvalarleyfi í Brasilíu sem og atvinnuleyfi. Það er ósköp gott að eiga möguleika, svo mikið er víst.

Nýtt ár brostið á eina ferðina enn og mér líður vel með það.