Sunday, February 28, 2010

Línan fína


Ögn skrítinn dagur í gær. Vorum hér heima í rólegheitum og stúlkan eitthvað að gramsa á facebook, fer inn á síðu vinkonu sinnar sem hún kynntist í þýskunámi. Þar eru allskyns undarleg skilaboð að henni fannst þannig að hún hefur samband við sameiginlegan vin og fær illan grun staðfestan - vinkonan er dáin.

Hún hafði verið í sturtu á heimili sínu og einfaldlega dottið og rekið höfuðið í. Rétt rúmlega 20 ára gömul, bráðmyndarleg, dugnaðarforkur á kafi í námi í læknisfræði. Ótrúlega skrítið hvað það er stutt milli lífs og dauða. Þær höfðu talað saman 2 dögum áður en slysið varð og sammælst um að reyna að hittast fljótlega. Línan er svo sannarlega fín og um leið og ég hef verið að finna til samkenndar með stúlkunni, fjölskyldu hennar og fólkinu í Chile, þá hef ég verið að eflast í þeirri sannfæringu minni að halda áfram á minni hlykkjóttu braut. Halda áfram að gera það sem mig langar að gera hverju sinni, svo fremi sem það fellur innan minna eigin skynsemismarka, og einbeita mér að því að lifa þessu lífi í sátt við sjálfan mig.

Wednesday, February 24, 2010

The road e. Cormac McCarthy


Ég er orðinn langt á eftir í þessum bókaklúbbi mínum líkt og flestu öðru bloggtengdu :) Á sama tíma les ég af miklum krafti og bækurnar sem liggja í valnum hlaðast upp.
Las þessa bók um jólin, byrjaði á henni í bílnum á leið til Sao Paolo og rétt náði að treina mér hana framyfir heimkomu - þrátt fyrir stífa dagskrá þessa 5 daga!
Þetta er ein af þessum sem grípur mann heljartökum, mér dettur fyrst Misery eftir Stephen King í hug sem dæmi um aðra bók sem ég týndi mér svona gjörsamlega í.

Hún er dimm og drungaleg og líklega ekki við hæfi hvers sem er, en það skín bjartur ljósgeisli í gegnum allt saman. Ég er ennþá að hugsa um brot úr henni annað slagið og það verður nú að teljast merkilegt þegar ég á í hlut - finnst sumt sem ég les bara gufa upp jafnóðum.

Nú er komin mynd með Viggo Mortensen í aðalhlutverki og mér líst vel á að hann tækli það. Sýnist á stiklu sem ég sá að það sé síður en svo tónaður niður drunginn og hlakka mikið til að sjá hana hér í þriðja heiminum.

Sunday, February 21, 2010

Saturday, February 20, 2010

Karnival

Þetta merkilega fyrirbæri er semsé afstaðið og lífið að færast í hefðbundnar skorður hérna megin. Karnival stendur víst formlega yfir frá föstudegi til miðvikudags en stemmningin var tekin að byggjast upp löngu fyrr. Sem íslendingur þá þekki ég karnival sem skrúðgöngu sem maður sér myndir frá á hverju ári; íburðarmiklir búningar, samba tónlist og mikið líf og fjör. Sú skrúðganga er merkilegt fyrirbæri sem mikið er lagt í.

Þannig er að víða um borgina eru starfræktir samba-skólar - eins furðulega og það hljómar. Þessir skólar undirbúa sig allt árið fyrir stóru skrúðgönguna. Semja tónlist og dansa, búa til búninga og æfa linnulaust vegna þess að skrúðgangan er síðan innbyrðiskeppni milli skólanna. Eins og þegar eru lið í fótbolta þá eru deildir, þær eru reyndar bara 2 í þessu tilfelli. Þeir 3 skólar í A deild sem skora lægst á hverju ári falla í B deild á meðan 3 lið þaðan komast upp í A deild. Þetta er kannski eitthvað sem fróðari einstaklingar eru með á hreinu en ekki hafði ég glóru um þetta.

Hin hliðin á þessu dæmi eru svonefnd götukarnivöl. Við gerðum okkur ferð í hverfi sem nefnist Santa Teresa til að 'taka þátt' í einu slíku. Byrjaði reyndar á ókristilegum tíma, 6 að morgni, en við létum okkur hafa það þó ég vissi vart í þennan heim né annan þegar klukkan hringdi um 5.
Þar var um að ræða skrúðgöngu sem er mynduð í kringum hljómsveit sem fer um göturnar. Fólkið er síðan misjafnlega uppstrílað, sumir leggja mikið í búninga á meðan aðrir bara setja upp hatt. Algengt er að sjá vinahópa klædda í sitt þema, allt í einu birtist hópur af flugfreyjum eða álfum o.s.frv. Margir eru síðan með litlar trommur og önnur ásláttarhljóðfæri að lemja á og síðan er sungið af krafti. Mér þótti líka mikið til þess koma hve megnið af liðinu gat drukkið af miklum krafti svo snemma morguns...

Sjón er sögu ríkari, við tókum fullt af myndum sem ég set inn í dag eða á morgun - við erum á leiðinni í brúðkaup þannig að það er verið að reka á eftir mér!
Niðurstaðan er sú að þetta fyrsta karnival verður líklega mitt síðasta. Ríó er afar fjölmenn borg dags daglega, mér finnst allajafna nóg um. Þegar það eru síðan götukarnivöl út um allt þá verður þetta hreinlega of mikið. Strætisvagnar og lestar eru oftar en ekki þéttsetin samgöngutæki og það versnar til muna. Við hreinlega snérum við á sunnudeginum þegar við ætluðum að taka lestina niður í bæ, stöðin var svo smekkfull af fólki.
Það vill svo til að Ana er lítið spennt fyrir þessum látum líka, þannig að næsta ár förum við líkast til að dæmi föður hennar og flýjum til fjalla :)

Thursday, February 18, 2010

Lífsmark


Jæja, karnival yfirstaðið og aldrei þessu vant þá var rigning þegar ég dró frá í morgun. Því var tekið með allt að því fögnuði af minni hálfu sem og þeirrar innfæddu - það kólnar og verður þægilegra að athafna sig utandyra, svo fremi sem það ekki hellirignir.

Annars hefur leti verið allsráðandi hér á bæ, held það sé eina útskýringin sem ég hef á takteinum. Er reyndar búinn að vera að skrifa dálítið í atvinnuskyni og þó svo að það ætti nú að vera öllum mun skemmtilegra að skrifa fyrir sjálfan sig þá er ég ekki frá því að þetta sé allt dregið úr sama brunni - ef svo má að orði komast.

Hef verið að velta fyrir mér hvort umpólun hafi orðið á minnisstöðvum í heila eða einhver bilun í öðrum búnaði þarna uppi. Hef verið að vakna með hreint út hræðileg lög á heilanum sí og æ. Til dæmis má nefna Frystikistulagið með Greifunum og Return to innocence með hinni mjög svo morknu Enigma - lagið með indjánagaulinu. Það var allavega eitt til en ég var svo hneykslaður að yfirsjálfið hefur kosið að afmá minninguna.

Tek mig til og gera karnival upplifun skil á næstunni, lofa því :Ð

Tuesday, February 9, 2010