Wednesday, February 3, 2010

Af með hjálpardekkin


Þrátt fyrir flækjur, vesen og óvissu í mínum málum þá hef ég ákveðið að halda mínum striki hvað varðar tungumálið og ná því á mitt vald. Hingað til hef ég mest verið að gaufa upp á eigin spýtur með aðstoð tölvuforrits en þó tekið einhverja tíma. Nú er búið að uppfæra námsskrána og ég heimsæki að lágmarki einu sinni í viku kennara og tek einkatíma. Hún býr í Ipanema þannig að það er líka ágætt fyrir mig að æfa mig í strætóferðum og víkka aðeins sjóndeildarhringinn með sjálfum mér. Carolina er svo passasöm að mér líður á köflum eins og ég sé ungabarn, sem er kannski að hluta til staðreynd þar sem ég er svo gott sem ómálga.

Kennarinn kvað strax uppúr með það að stelpurnar yrðu að hætta að tala við mig ensku, sem og aðrir í mínu nánasta umhverfi. Þegar ég hugsaði aðeins út í það þá hef ég náttúrulega sáralítið þurft að stauta á portúgölsku nema að eigin frumkvæði. Það tala nánast allir sem ég umgengst þessa fínu ensku, maður er búinn að hafa það allt of gott hvað þetta varðar.

Þannig að nú tökum við hjálpardekkin af. Þegar ég hugsa nánar út í það þá lærði ég nú samt ekki að hjóla með aðstoð slíkra. Man eins og gerst hefði í gær þegar þetta loksins hafðist hjá mér. Ég og Didda vorum að fara frá ömmu út í Brekku að færa langafa og ömmu mat. Hún með matinn, ég á hjólinu mínu að ýta mér með löppunum og reyna að halda jafnvægi þegar ég lyfti þeim frá gangstéttinni. Allt í einu small þetta og ég beygði beint út á götu og minnstu munaði að Gestur heitinn Hjörleifs þyrfti að spila yfir mér í kirkjunni. Hann kom keyrandi á gamla Willysnum, eflaust ekki sérlega hratt, en þurfti þó að nauðhemla til að aka ekki yfir mig...

1 comment:

  1. vona að þér gangi vel með að læra þetta fallega tungumál :) þegar ég byrjaði að hjóla gat ég ekki horft upp á tímabili og klessti einu sinni á bláa saabinn sem Jón Björns heitinn átti. Sé alltaf eftir að hafa ekki sagt frá því. En nú er það komið út í alheiminn :)

    ReplyDelete