Saturday, February 20, 2010

Karnival

Þetta merkilega fyrirbæri er semsé afstaðið og lífið að færast í hefðbundnar skorður hérna megin. Karnival stendur víst formlega yfir frá föstudegi til miðvikudags en stemmningin var tekin að byggjast upp löngu fyrr. Sem íslendingur þá þekki ég karnival sem skrúðgöngu sem maður sér myndir frá á hverju ári; íburðarmiklir búningar, samba tónlist og mikið líf og fjör. Sú skrúðganga er merkilegt fyrirbæri sem mikið er lagt í.

Þannig er að víða um borgina eru starfræktir samba-skólar - eins furðulega og það hljómar. Þessir skólar undirbúa sig allt árið fyrir stóru skrúðgönguna. Semja tónlist og dansa, búa til búninga og æfa linnulaust vegna þess að skrúðgangan er síðan innbyrðiskeppni milli skólanna. Eins og þegar eru lið í fótbolta þá eru deildir, þær eru reyndar bara 2 í þessu tilfelli. Þeir 3 skólar í A deild sem skora lægst á hverju ári falla í B deild á meðan 3 lið þaðan komast upp í A deild. Þetta er kannski eitthvað sem fróðari einstaklingar eru með á hreinu en ekki hafði ég glóru um þetta.

Hin hliðin á þessu dæmi eru svonefnd götukarnivöl. Við gerðum okkur ferð í hverfi sem nefnist Santa Teresa til að 'taka þátt' í einu slíku. Byrjaði reyndar á ókristilegum tíma, 6 að morgni, en við létum okkur hafa það þó ég vissi vart í þennan heim né annan þegar klukkan hringdi um 5.
Þar var um að ræða skrúðgöngu sem er mynduð í kringum hljómsveit sem fer um göturnar. Fólkið er síðan misjafnlega uppstrílað, sumir leggja mikið í búninga á meðan aðrir bara setja upp hatt. Algengt er að sjá vinahópa klædda í sitt þema, allt í einu birtist hópur af flugfreyjum eða álfum o.s.frv. Margir eru síðan með litlar trommur og önnur ásláttarhljóðfæri að lemja á og síðan er sungið af krafti. Mér þótti líka mikið til þess koma hve megnið af liðinu gat drukkið af miklum krafti svo snemma morguns...

Sjón er sögu ríkari, við tókum fullt af myndum sem ég set inn í dag eða á morgun - við erum á leiðinni í brúðkaup þannig að það er verið að reka á eftir mér!
Niðurstaðan er sú að þetta fyrsta karnival verður líklega mitt síðasta. Ríó er afar fjölmenn borg dags daglega, mér finnst allajafna nóg um. Þegar það eru síðan götukarnivöl út um allt þá verður þetta hreinlega of mikið. Strætisvagnar og lestar eru oftar en ekki þéttsetin samgöngutæki og það versnar til muna. Við hreinlega snérum við á sunnudeginum þegar við ætluðum að taka lestina niður í bæ, stöðin var svo smekkfull af fólki.
Það vill svo til að Ana er lítið spennt fyrir þessum látum líka, þannig að næsta ár förum við líkast til að dæmi föður hennar og flýjum til fjalla :)

No comments:

Post a Comment