Wednesday, March 24, 2010

Gott útsýni af skrifstofunni


Ligg hér á nærhaldinu að kvöldi 3. dags hausts...ekki sérlega haustlegt um að litast í borginni né heldur hefur hitastigið lækkað mikið í kjölfar þess að einhver hvíslaði að mér að nú væri komið haust. Við fengum jú ansi hressilegan kafla í veðráttu fyrir eins og 2 vikum. Þrumur, eldingar og ausandi rigning 2 daga í röð og lætin þvílík. Kristsstyttan er umvafin vinnupöllum þessa dagana og viðhaldið ku mest tilkomið vegna þess hve karlgreyið verður fyrir mörgum eldingum. Tesla heitinn var víst búinn að komast að því hvernig mætti beisla kraftinn í eldingunum, ætti ekki að vera raforkuskortur ef farið yrði að hans ráðum.

Síðastliðin vika annasöm - allavega fyrir mann sem hefur lítið þurft að styðjast við vekjaraklukku undanfarna mánuði. Ég fékk gest alla leið frá London og við lögðumst í vinnu við verkefni sem er búið að vera í mótun hjá okkur undanfarna mánuði. Hann hélt til á dýrindis hóteli, ég tók myndina meðfylgjandi af svölunum þar. Í kaffitímunum var bara stokkið niður og tekinn sprettur í sjónum, helvíti hressandi verð ég að segja og ég stóð mig að því að hugsa að þetta væri nú líklega með skárri djobbum sem maður hefur haft um ævina ;)

Friday, March 19, 2010

Wednesday, March 17, 2010

Árið sem ég snéri á veturinn


Rann upp fyrir mér einn daginn í vikunni að þetta hopp milli heimsálfa hefur í för með sér að ég slepp alveg við að upplifa veturinn - ekki það að Brasilískur vetur geti talist harðneskjulegur. En samt sem áður, eitthvað skemmtilega ljóðrænt við þetta.

Annars er allt í besta hérna megin, að vísu vaknaði ég upp við það að hafa ekki skrifað nokkuð hér inn í dágóða stund. Ætli formlega skýringin yrði ekki svo að þetta væri vegna anna...eða stúlku sem heitir Ana - annað hvort...best að hætta þessu ;)

Dagarnir líða fyrirhafnarlítið. Ferðaplön nokkuð komin á hreint varðandi 'útlegðina' eins og mér hættir til að kalla það. Búin að kaupa flug til Evrópu og búin að fá inni í Bretlandi og ýmis heimboð og þessháttar sem vonandi verður hægt að þiggja. Ísland er óljósari kafli en við ætlum jú að taka vikurúnt eða svo með Jónínu systur og hennar manni, hinum norska Jan og hugsanlega vinkonu hennar frá Ameríku. Það yrði afskaplega alþjóðlegur bíltúr!

Hér var afmælispartý um helgina hjá samstarfskonu tengdó. Hún sá mig syngja í afmælinu hans og var svo hrifin að hún bað mig að gera það sama í afmælinu sínu - bað um sömu lögin þannig að það var fyrirhafnarlítið prógram. Síðan er tannkrónusmíði í fullum gangi og við bæði með talsverða vinnu á höndum þessa dagana, skilst að við þurfum að afþakka boð um að ferðast til Sao Paolo um páskana, Ana hefur ekki tíma. Ég er svo sem beggja blands með þá ferð, heimsóknin yrði þá til fjölskyldu stjúpu - hið ágætasta fólk en ég fékk ágætis skammt af þeim um jólin. Væri þá meira til í að fljóta með og stinga svo af til að hitta Manir vin minn sem ég kynntist á Íslandi. Sjáum hvað setur, aldrei að segja aldrei...

Monday, March 8, 2010

Óskar og John Hughes


Horfði á Óskarsverðlaunin í fyrsta skipti í mörg ár. Betra að gera það í þessu tímabelti, maður getur tekið þetta í beinni án þess að vaka framundir morgun. Hef svo sem aldrei verið að telja mig missa af neinu sérstöku en þetta var ágætt í gær og spillti ekki að hafa Steve Martin og Alec Baldwin í hlutverki kynna - fíla báða helvíti vel.

Ég gladdist yfir því að þunnildið Avatar skyldi ekki hafið til skýjanna, sjónarspilið var vissulega magnað á köflum en mér fannst gleymast að huga að handritinu. Hins vegar er Hurt Locker ekki mikið merkilegri mynd en hún átti hátíðina þetta árið, það þarf alltaf ein mynd að vera aðal.
Gladdist yfir að sjá Austurríska gaurinn úr stríðsmyndinni hans Tarantino taka óskar, nenni ekki að fletta nafninu hans upp en gestapo gaurinn hans hápunktur þeirrar myndar. Sömuleiðis var Jeff Bridges vel kominn að sinni styttu, við skelltum okkur á Crazy Heart í kvöld og hann var hreint út sagt frábær, myndin ekki alveg 100% en hann bætti upp fyrir það.

Hápunkturinn fyrir mér var virðingarvottur við John Hughes sem féll frá á síðasta ári. Þegar ég fletti upp ferlinum hans á imdb þá á hann ansi margar myndir sem lituðu uppvaxtar árin og maður horfði á oftar en einu sinni og oftar en tvisvar - ekki síst ef Bjarmi fílaði þær. Inn á milli er mismerkilegt stöff eins og gengur en Ferris Bueller er auðvitað klassík - ekki tímalaus þegar horft er til fatnaðar og hárgreiðslna en handritið og skilaboðin sem í því eru fólgin munu standast tímans tönn. Hann gerði reyndar miklu meira af því að skrifa en leikstýra en ég ætla ekki endursegja ferilinn, það ættu allir að kunna að nýta imdb. Hins vegar fannst mér við hæfi að eyða á karlinn nokkrum orðum, hann á það inni hjá mér ;)

Sunday, March 7, 2010

Home, home again...


Þá eru línur teknar að skýrast varðandi útlegðina frá Brasilíu, leiðinda vesen sem búið er að snúa upp í hálfgert ævintýri. Við fljúgum sumsé saman til Bretlands í lok apríl og stöldrum þar við í góða 2 mánuði. Peter vinur minn ætlar að bjarga okkur um einhverja atvinnu sem og þak yfir höfuðið en hann rekur 2 pöbba í grennd við Doncaster. Þarna dvaldi ég í góðu yfirlæti í næstum 6 vikur fyrir ansi löngu síðan...líklega kringum 1997. Hef síðan reynt að staldra við reglulega og er alltaf vel tekið.

Í júlíbyrjun tökum við svo flugið heim til Íslands og þar er stefnan á að vera mestmegnis í fríi, leyfa stúlkunni að upplifa land og þjóð, hitti vini og fjölskyldu og þar frameftir götunum. Hvað við getum leyft okkur að dinglast lengi þar er óráðið ennþá en Carolina á allavega bókað flug heim í lok ágúst. Þannig er útlitið næstu sex mánuðina og þegar öllu er á botninn hvolft er ég bara nokkuð sáttur með þetta.

Væri gaman ef það yrði búið að kveða niður þennan icesave draug áður en við mætum á klakann, að segja að ég sé orðinn leiður á því þvargi er fjarri því að rista nógu djúpt. En það gátu aldrei orðið nein önnur úrslit í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu í gær, bara vonandi að sá farsi allur skili einhverju á endanum.

Tuesday, March 2, 2010

Dagur í lífi


Nei, þetta er ekki skolturinn á mér...

Brasilískir tannlæknar eru fjarri eins hátt skrifaðir og fótboltamenn af sama stofni - í það minnsta hef ég aldrei heyrt því fleygt. En ég held svei mér að sú sem ég heimsótti í dag sé hér með uppáhalds tannlæknirinn minn :)
Þannig er að heima á skeri þurfti að fara í svaka aðgerð þegar fylling brotnaði. Tannsi bauð einhverja möguleika og mælti af þeim með postulínskrónu. Verðmiðinn var 80 þúsund og þegar ég bað hann að rökstyðja valið þá vildi hann meina að þetta væri aðallega fagurfræði - hreinlega fallegra á að líta en silfrið.
Hins vegar var um að ræða jaxl lengst aftur í skolti og mér nokk sama hvað blasir við þeim sem eru að glápa svo langt upp í mig. Silfrið varð semsagt ofaná.

Síðan þegar hann er að gaufa við að ganga frá þessu þá fer hann að kvarta undan að sér gangi illa við að teygja silfrið svo að bilið við næstu tönn lokist sæmilega. Það kemur svo á daginn að þarna varð til hinn ágætasti safnhaugur og moltukassi, ég að moka úr þessu eftir hverja máltíð og síður en svo skemmt. Þegar ég heimsæki aulann aftur og legg fram kvörtun þá segir hann einfaldlega að við verðum þá að setja krónu...

Ekki vildi ég una honum fjárins og ræddi þetta við Carolinu og það varð úr að hún bæri þetta undir sinn tannlækni. Sú sagðist myndu gera þetta fyrir 1/4 af upphæðinni sem sá íslenski nefndi og þess vegna heimsóttum við hana í dag. Hress og skemmtileg kona sem dreif mig í panorama myndatöku því hún vildi skoða endajaxlana - já helvítin eru á sínum stað - því ef þeir fara af stað þá eyðileggja þér meðal annars krónuna sem verið er að fara að smíða. Mín bíður s.s. feldlega með það hvort ég vil láta tæta úr mér jaxlana. Síður en svo spennandi en um leið gætu aðstæður verið verri; ég ekki bundinn af vinnu þannig séð og verðlag skaplegra en 'heima' fyrir.

Tókum síðan göngutúr um Copacabana ströndina eftir allt tann standið. Hér er skýjað og rigningarkennt þriðja daginn í röð og það var himneskt að labba þarna í fámenninu og vera ekki að drepast úr hita. Sú innfædda var ekki eins sátt við 21 gráðu og líkast til ekki heldur túristarnir sem norpuðu hafandi greitt stórfé til að komast í sól en það verður bara að hafa það.