Wednesday, March 17, 2010

Árið sem ég snéri á veturinn


Rann upp fyrir mér einn daginn í vikunni að þetta hopp milli heimsálfa hefur í för með sér að ég slepp alveg við að upplifa veturinn - ekki það að Brasilískur vetur geti talist harðneskjulegur. En samt sem áður, eitthvað skemmtilega ljóðrænt við þetta.

Annars er allt í besta hérna megin, að vísu vaknaði ég upp við það að hafa ekki skrifað nokkuð hér inn í dágóða stund. Ætli formlega skýringin yrði ekki svo að þetta væri vegna anna...eða stúlku sem heitir Ana - annað hvort...best að hætta þessu ;)

Dagarnir líða fyrirhafnarlítið. Ferðaplön nokkuð komin á hreint varðandi 'útlegðina' eins og mér hættir til að kalla það. Búin að kaupa flug til Evrópu og búin að fá inni í Bretlandi og ýmis heimboð og þessháttar sem vonandi verður hægt að þiggja. Ísland er óljósari kafli en við ætlum jú að taka vikurúnt eða svo með Jónínu systur og hennar manni, hinum norska Jan og hugsanlega vinkonu hennar frá Ameríku. Það yrði afskaplega alþjóðlegur bíltúr!

Hér var afmælispartý um helgina hjá samstarfskonu tengdó. Hún sá mig syngja í afmælinu hans og var svo hrifin að hún bað mig að gera það sama í afmælinu sínu - bað um sömu lögin þannig að það var fyrirhafnarlítið prógram. Síðan er tannkrónusmíði í fullum gangi og við bæði með talsverða vinnu á höndum þessa dagana, skilst að við þurfum að afþakka boð um að ferðast til Sao Paolo um páskana, Ana hefur ekki tíma. Ég er svo sem beggja blands með þá ferð, heimsóknin yrði þá til fjölskyldu stjúpu - hið ágætasta fólk en ég fékk ágætis skammt af þeim um jólin. Væri þá meira til í að fljóta með og stinga svo af til að hitta Manir vin minn sem ég kynntist á Íslandi. Sjáum hvað setur, aldrei að segja aldrei...

No comments:

Post a Comment