Tuesday, March 2, 2010

Dagur í lífi


Nei, þetta er ekki skolturinn á mér...

Brasilískir tannlæknar eru fjarri eins hátt skrifaðir og fótboltamenn af sama stofni - í það minnsta hef ég aldrei heyrt því fleygt. En ég held svei mér að sú sem ég heimsótti í dag sé hér með uppáhalds tannlæknirinn minn :)
Þannig er að heima á skeri þurfti að fara í svaka aðgerð þegar fylling brotnaði. Tannsi bauð einhverja möguleika og mælti af þeim með postulínskrónu. Verðmiðinn var 80 þúsund og þegar ég bað hann að rökstyðja valið þá vildi hann meina að þetta væri aðallega fagurfræði - hreinlega fallegra á að líta en silfrið.
Hins vegar var um að ræða jaxl lengst aftur í skolti og mér nokk sama hvað blasir við þeim sem eru að glápa svo langt upp í mig. Silfrið varð semsagt ofaná.

Síðan þegar hann er að gaufa við að ganga frá þessu þá fer hann að kvarta undan að sér gangi illa við að teygja silfrið svo að bilið við næstu tönn lokist sæmilega. Það kemur svo á daginn að þarna varð til hinn ágætasti safnhaugur og moltukassi, ég að moka úr þessu eftir hverja máltíð og síður en svo skemmt. Þegar ég heimsæki aulann aftur og legg fram kvörtun þá segir hann einfaldlega að við verðum þá að setja krónu...

Ekki vildi ég una honum fjárins og ræddi þetta við Carolinu og það varð úr að hún bæri þetta undir sinn tannlækni. Sú sagðist myndu gera þetta fyrir 1/4 af upphæðinni sem sá íslenski nefndi og þess vegna heimsóttum við hana í dag. Hress og skemmtileg kona sem dreif mig í panorama myndatöku því hún vildi skoða endajaxlana - já helvítin eru á sínum stað - því ef þeir fara af stað þá eyðileggja þér meðal annars krónuna sem verið er að fara að smíða. Mín bíður s.s. feldlega með það hvort ég vil láta tæta úr mér jaxlana. Síður en svo spennandi en um leið gætu aðstæður verið verri; ég ekki bundinn af vinnu þannig séð og verðlag skaplegra en 'heima' fyrir.

Tókum síðan göngutúr um Copacabana ströndina eftir allt tann standið. Hér er skýjað og rigningarkennt þriðja daginn í röð og það var himneskt að labba þarna í fámenninu og vera ekki að drepast úr hita. Sú innfædda var ekki eins sátt við 21 gráðu og líkast til ekki heldur túristarnir sem norpuðu hafandi greitt stórfé til að komast í sól en það verður bara að hafa það.

No comments:

Post a Comment