Monday, November 30, 2009

Allt milli himins og jarðar


Rifum okkur upp snemma, eða svona allt að því, á laugardag. Stefnan sett á markað þar sem vonin var að finna spil. Þannig er að frænka mín heima á Íslandi safnar spilum af miklum móð og það kom uppúr dúrnum að hún á engin spil frá Brasilíu. Ótækt annað en reyna að bæta úr því.

Það má í raun segja að þetta hafi verið smá prófraun fyrir safnarann mig, ég er búinn að segja þeirri áráttu að sanka að mér misgáfulegu drasli stríð á hendur. Þarna rakst ég á ýmiskonar freistingar en skemmst er frá því að segja að ég stóð þær allar af mér og kom tómhentur heim - utan einn spilastokk, sem að sjálfsögðu er ekki handa mér. Ég staldraði lengi við torkennilega safnplötu með lögum Bítlanna sem framleidd er í suður-Ameríku og mögulega án leyfis. Lét mér á endanum nægja að taka af henni mynd en Ana keypti áttstrenda glerflösku sem hafði týnt tappanum einhvers staðar á leiðinni og hýsir nú blóm hér heima.

Við fengum hins vegar þau leiðu tíðindi eftir nokkrar fyrirspurnir að maður sem hafði sérhæft sig í spilum og verið fastagestur á markaðinum hefði látist nokkrum vikum áður. Það gengur svo en við rákumst í það minnsta á vin hans sem sagðist vera með eitthvað af spilum heima og bauðst til að koma með þau um næstu helgi. Eins komumst við á snoðir um annan markað sem einungis er haldinn fyrstu helgina í hverjum mánuði. Þannig að næsti laugardagur er að verða nokkuð planaður hjá okkur.

Sunday, November 29, 2009

Kallið mig Ísmael...


Fórum á bókamarkað um helgina, eitthvað sem henni var boðið á gegnum vinnutengingu. Eftir litlu að slægjast fyrir mig svo sem - allt á portúgölsku, ég ekki orðinn nógu 'portúgalinn' til að botna í þesslags bókum...
Hvað um það, svo sem hægt að skoða og flestir básarnir höfðu upp á eitthvað matarkyns að bjóða, manni leiddist ekki né leið skort.

Hún var að skoða einhverja voða fína útgáfu af Moby Dick, myndskreytingar og svaka læti. Nema hvað, framarlega í bókinni var að finna smá klausu þar sem orðið 'hvalur' kom fyrir á nokkrum tungumálum - þar á meðal íslensku...eða það var meiningin.
Ég tók fyrir þá fría próförk, hvalur var sagt 'whale' upp á íslensku.

Kona á básnum fékk mér bréfmiða og þar páraði ég skilmerkilega þetta ágæta orð, á eins skiljanlegan hátt og mér var unnt. Hún bauð okkur síðan 30% afslátt af skræðunni en stúlkan vildi ekki þiggja - enginn hvalreki fyrir bókasafn heimilisins þann daginn ;)

Thursday, November 26, 2009

Ahhh Sopranos


Það kom uppúr dúrnum að Ana hafði ekki séð neitt af þessum ágætu þáttum. Hana langaði hins vegar að kynnast þessari ágætu fjölskyldu og við höfum verið að taka einn þátt á kvöldi. Það er skemmst frá því að segja að þeir klikka ekki frekar en fyrri daginn - þetta verður mitt þriðja rennsli ef við klárum allar sex seríurnar.

Datt niður á þessa ágætu tilvitnun í David Chase, manninn á bakvið dæmið. Þetta skýrir kannski hvað ég hef alltaf fundið sterka og trúverðuga tengingu við persónurnar í þessum þáttum:

'I don't know very many writers who have been cops, doctors, judges, presidents, or any of that - and, yet, that's what everybody writes about: institutions. The courthouse, the schoolhouse, the precinct house, the White House. Even though it's a Mob show, The Sopranos is based on members of my family. It's about as personal as you can get.'

Monday, November 23, 2009

Hvar er Kristur (3ji hluti)


Plakat fyrir kvikmyndina 2012 sem við létum okkur hafa að sjá um helgina. Mæli ekki með henni :)

Úr dýraríkinu


Þessi skrapp með mér á klósettið á pöbb sem við heimsóttum fyrir nokkrum dögum. Ósköp lítil og krúttleg en hvekktist dálítið þegar ég fór að brasa við að ná mynd af henni, hafðist í þriðju tilraun.

Sunday, November 22, 2009

Flamengo



Stúlkan er gallhörð stuðningskona? (Maður kann svo lítið með kvenkyn að fara í samhengi við fótbolta). Allavega, hún fílar fótbolta og styður Flamengo, sem er eitt fjögurra knattspyrnuliða hér í borg - hin eru Botafogo, Fluminense og Vasco da Gama.

Ég hef að sjálfsögðu verið innlimaður í áhangendahóp liðsins og nú er brostinn á geysispennandi endasprettur í deildinni. Eins og sjá má er Flamengo 2 stigum á eftir toppliðinu Sau Paulo þegar 3 umferðir eru eftir. Sem stendur er Sao Paulo að spila við Botafogo og staðan er 1-1 í hálfleik...

Flamengo hafa verið á mikilli siglingu, voru í 6. sæti þegar ég mætti til leiks og því er meðbyrinn heldur með þeim á lokasprettinum þar sem greinilega er kominn skjálfti í toppliðið. Þetta minnir ögn á ensku deildina í fyrra en fer vonandi betur hérna megin ;)

Það er sama hvort þú ert að horfa á Flamengo leikinn eða ekki, það fer ekkert framhjá þér ef liðið skorar því þú heyrir einhvern í næstu íbúð eða nágrenni orga. Það er alveg ljóst að menn eru eins fótboltabrjálaðir hér um slóðir og löngum hefur verið látið - eða verri jafnvel.

Flamengo spilar heima í dag en það var uppselt, þannig við ætlum að skella okkur á síðasta leik tímabilsins sem er hér heima. Það verður stemmning!

Friday, November 20, 2009

Ipanema


Í dag var frídagur þannig að við rifum okkur á ströndina eldsnemma...eða allt að því. Þegar maður sem er ekki sérlegur morgunhani byrjar með konu sem er engin sérstök morgunhæna þá vill reynast erfitt að taka daginn snemma.
Vekjarinn hringdi fyrst 8.30, við höfðum okkur af stað að verða 10. Fengum okkur morgunmat á frábærum stað þaðan sem maður horfði nánast beint niður á strönd.

Ég mætti til leiks með sólarvörn upp á 30 og fór fljótlega upp í 50...ég er að passa mig og vonast til að húðin gíri sig eitthvað upp í takt við aðstæðurnar. Það eru skiptar skoðanir um líkurnar á því en við sjáum hvað setur.

Hitinn var rosalegur þannig að ég var fljótlega kominn í sjóinn til kælingar. Hann var rólegri en ég hef upplifað hann áður við Ipanema en þetta var í fjórða skiptið sem við förum þangað. Stephen Merchant (The Office, Extras) beið næstum bana við það að ætla að bregða sér aðeins í sjóinn og kasta af sér vatni á þessum slóðum. Ég skil alveg hættuna á því miðað við aðstæðurnar sem ég hef upplifað þarna. Öldurnar verða ansi hreint hressilegar þó svo að það sé í raun blíðskaparveður.

Síðan eru lúmskir straumar í gangi. Það er alveg magnað að láta öldurnar rugga sér og skola sér til og frá. En það er álíka mikill kraftur í vatninu sem sogast út og því sem brotnar á ströndinni þegar aldan kemur inn. Þegar maður er kominn visst langt út þá magnast straumarnir og eru viðsjárverðir - það er dálítið búið að hamra á því við mig sem er náttúrulega bara eins og krakkavitleysingur þegar ég fer útí að busla :)

Það er skemmst frá því að segja að eftir 3 tíma dvöl á ströndinni þá eru axlir ansi hreint brunnar en annað í sæmilegu lagi. Semsagt: Næst verð ég með ullarjal yfir herðarnar...

Hér heima tóku við annir, við ætlum að smala liðinu saman á morgun; systrum hennar, föður og stjúpu og baka pizzu. Ég fann uppá þessu og var því leiðandi afl í framleiðslu á bæði sósu og deigi. Útkoman lofar helvíti góðu þó ég segi sjálfur frá.

E.s. Meðfylgjandi mynd telst tæknilega sögufölsun þar sem hún er tekin í annarri ferð. Ég er orðinn rúinn inn að skinni eða því sem næst, en blessunarlega bara um höfuðið.

Wednesday, November 18, 2009

Gone mentos...


Miðað við það hve margir hér eiga ekki neitt þá er mentos úrvalið alveg merkilega gott...

Tuesday, November 17, 2009

Cadastro de pessoas físicas


Hóf hina löngu vegferð í átt að innlimun í brasilískt samfélag í dag, með því að sækja um þetta ágæta kort sem allajafna er bara kallað CPF. Það gegnir mikilvægu hlutverki í daglegu lífi, gagnast sem skilríki, er nauðsynlegt til að opna bankareikning, kaupa bíl, sjónvarp o.þ.h.

Maður sækir nú bara um þetta á pósthúsinu og það er eins og svo margt í þessu ágæta hverfi staðsett rétt handan hornsins. Á göngunni þangað magnaði ég hins vegar upp allskyns vitleysu í hausnum á mér og var farinn að sjá frammá að við yrðum afgreidd af einhverskonar norn sem myndi heimta mútugreiðslu og ég veit ekki hvað...

Ég dundaði mér við það meðan við biðum í röð að ráða í andlit afgreiðslufólksins, hvert þeirra væri nú viðmótsþýðast. Ég var fljótur að komast að því að rúmlega helmingur þjáðist af lífsleiða á háu stigi og búinn að velja konu sem mér leist best á að erindast við. Á endanum skeiðaði nýtt andlit í salinn, líklega fersk úr kaffipásu eða álíka, og kallaði okkur til sín. Hún reyndist fjarri því að vera norn, kallaði skilmerkilega eftir ýmsum plöggum, sem ég fiskaði hikstalaust uppúr umslagi sem ég hafði í farteskinu og allt gekk mjög svo smurt fyrir sig.

Mér fannst merkilegt þegar hún var að rýna í fæðingarvottorðið og bað mig að benda á nafn móður. Ég gerði það og benti henni síðan á nafn föður en hún sagði það algjöran óþarfa - það væri móðirin sem skipti máli. Með því var þetta afgreitt, að vísu þurfum við að fara með kvittunina á annan stað til að ná í kortið en fyrsti þröskuldurinn af þónokkrum er í það minnsta yfirstiginn.

Monday, November 16, 2009

Nýlenduvörur


Mér finnst gaman að fara í matvöruverslanir í útlöndum, sem og apótek. Er áhugamaður um framandi vörur ef svo má að orði komast.
Í heimsókn minni hér fyrr á árinu bragðaði ég fyrst Guarana gosdrykkinn og kneifa nú af miklum móð þegar þorsti sækir að. Margir þekkja guarana líklega úr magic orkudrykknum, það er stór hluti af bragðmynd þess drykks. Guarana gos er hins vegar mun betra og í raun furða að þessu hafi ekki skolað uppá íslandsstrendur, coca-cola company framleiðir týpuna sem ég drekk oftast.

Sunday, November 15, 2009

Friburgo

Fórum í bíltúr upp til fjalla á þennan líka frábæra stað með tengdaföður og stjúpu og fundum þar fyrir hóteleigandann Reiner sem iðkar zen búddisma líkt og tengdó. Læt myndirnar tala sínu máli - eins og klisjan segir ;)










Friday, November 13, 2009

Strætó



Minn helsti samgöngumáti eru strætisvagnar, eða sem stendur er það í raun bara einn vagn sem ég tek á eigin spýtur, 409.
Það eru engar tímatöflur og ekkert kjaftæði, bara einfalt skilti sem gefur til kynna að vagninn stoppi þarna. Ég hef lengst beðið um 4 mínútur eftir vagni...kannski er það ein af ástæðum þess hvað umferðin er stífluð hérna á köflum - of mikið af strætisvögnum á ferðinni.



Í hverjum vagni er síðan tveggja manna áhöfn, bílstjóri og miðadýr. Vagnarnir eru beinskiptir og um leið og síðasti farþeginn er kominn innúr hurðinni þá er rekið í fyrsta og tætt af stað. Tók mig nokkrar ferðir að venjast þessu en þetta er fínn og tiltölulega ódýr ferðamáti. Ef vagninn er loftkældur þá er miðinn ögn dýrari en allajafna er það nú alveg peninganna virði...

Thursday, November 12, 2009

Michel Platini....

Rakst á þetta fley á förnum vegi, hlýtur að vera rosalegt aflaskip þó það rúmi reyndar ekki nema svona tveggja manna áhöfn :)

Wednesday, November 11, 2009

Blackout


Skelltum okkur í bíó í gær og náðum að sjá hina ágætu District 9 áður en hún rennur sitt skeið. Vorum rétt lögð af stað heim þegar rafmagnið fer... Það er ekki kvikmyndahús í okkar hverfi, þannig að fórum í Botafogo hverfið og það sem meira er, okkur vantaði að komast í hraðbanka til að taka út pening. Það var náttúrulega ekki möguleiki í stöðunni.

Við ráðfærðum okkur við pabba hennar og stjúpu og ráfuðum aðeins um í myrkrinu. Það var ekki alveg málið, hún var hrædd og ég skil það svo sem vel - maður greindi fólk ekki nema sem skugga fyrr en það var svo gott sem komið í fangið á manni. Mikið af fólki á ferðinni og aldrei að vita nema einhverjir hefðu hugmyndir um að notfæra sér ástandið. Það varð því úr að við stukkum upp í leigubíl og fórum heim, þar sem við áttum smá pening.

Umferðin gekk merkilega greiðlega miðað við aðstæður. Marcia stjúpa hennar sagðist aldrei hafa verið svona fljót að komast leiðar sinnar, það er kannski til marks um glundroðann sem ríkir í umferðinni í Ríó...

Þegar heim var komið kveiktum við bara á kertum og höfðum það notalegt. Manni varð hugsað heim til Dalvíkur þar sem maður sat nú í þónokkur skipti við kertaljós í rafmagnsleysi fyrir langalöngu síðan, á meðan veturinn hamaðist fyrir utan. Hér var um 30 stiga hiti og logn um miðnættið, þannig að það er ólíku saman að jafna. Maður saknaði enda loftkælingarinnar og vorkenndi liðinu sem sat fast í lyftum og þessháttar... Ég er nú ekki með innilokunarkennd en gæti örugglega komið mér henni upp við slíkar aðstæður.

Tuesday, November 10, 2009

Kvöldstund með listamönnum


Fórum á tónleika í gær, að sjá choro grúbbu Zé Paulo Becker - þeir eru á myndinni hér fyrir ofan. Alveg mergjað band, ótrúlegir spilarar að gera ótrúlega hluti.
Lenti einnig í skemmtilegu kynjamisrétti, það kostaði 16 reais inn fyrir konur, en 18 fyrir karla...

Hvað um það, eins og gengur á nýjum stað þá er afskaplega gaman að skoða fólkið - það er af ýmsum gerðum hér um slóðir. Þegar nokkuð var á liðið þá kom innúr hurðinni frekar óhrjálegur náungi, allt að því rónalegur að mér fannst. Hann heilsaði öðrum hvorum manni þarna og þegar Ana sá hann hvíslaði hún að mér: 'Þetta er Yamandu, besti gítarleikari Brasilíu'. Þá rámaði mig í myndband sem hún hafði einhvern tíma sent mér með gaurnum.


Hann var auðvitað drifinn á svið fyrr en síðar og við skulum bara orða það sem svo að hann hafi staðið undir hinum mjög svo veglega titli. Maðurinn er hreint ótrúlegur spilari! Vinkona Önu sagðist aldrei hafa búist við að sjá Yamandu spila á einhhverjum bar, ég sagði að mér sýndist nú sem hann verði talsverðum tíma á börum, hún fattaði ekki djókinn.

Hann og þessi sakleysislegi nikkari, Alessandro Kramer, sem sést hér á lélegri mynd spiluðu 3 lög í beit og ég hef sjaldan séð eins góða tengingu milli tveggja spilara - gæsahúðardót.


Ég tók upp 2 laganna á farsímann minn, þetta eru ekki merkileg gæði en allavega nóg til að gefa smá tilfinningu fyrir þessu - síðan er auðvitað heilmikið úrval á youtube ;)

Monday, November 9, 2009

Hvar er Kristur? (2. hluti)


Út um stofugluggann heima.

Tinni til bjargar portúgölskunámi!

Við höfum um skeið háð baráttu við termíta sem tekið hafa sér bólfestu í skáp hér í herberginu. Mikið af bókum sem þeir mega síður narta í, að ógleymdum gítarnum mínum og svoleiðis, þannig að það er talsvert á sig leggjandi til að losna við þetta. Að auki er ég alveg til í að losna við þetta dót skríðandi á mér sem ég ligg og þykist sofa...

Altént, í baráttunni fórum við í að rýma skápinn sem um ræðir og fundum þá Tinna safnið hennar og pöruðum saman 2 titla við íslensku bækurnar sem ég hafði í farteskinu. Ég reikna með að þetta geti orðið dýrmæt námsgögn, minnugur þess að danskur Andrés Önd lagði hornsteininn að minni kunnáttu í því tungumáli. Við fyrstu sýn þá botna ég nú ekki bofs í portúgölskum Tinna en það verður vonandi fljótt bót á :)

Sunday, November 8, 2009

Buzios




Vorum að koma í hús eftir að hafa varið helginni í Buzios - algjörum dýrðarbæ hér norður af borginni. Þetta er í annað skiptið sem við gerum okkur ferð og þær eiga eflaust eftir að verða fleiri. Set inn almennilegar myndir seinna, þetta er bara úr farsímanum eins og flestar þær myndir sem ég tek dags daglega.


Thursday, November 5, 2009

40,2 gráður...

...á Celsíus. Í Ríó. Í dag.

Að vísu ekki í mínu hverfi en mér er sama.
Ég var lítið á ferðinni en göngutúr sem ég fór í uppúr hádegi var ansi hreint erfiður. Man að þegar ég gekk fram á hitamæli sem á stóð 32 gráður þá hugsaði ég hvernig í ósköpunum verða þá 40 gráðurnar sem er búið að lofa mér... Þannig að þetta er viss léttir, að vera búinn að upplifa efstu mörkin.

Carolina sagði mér síðan að þessir hitamælar á götunum væru lítt áreiðanlegir.

Tikal

Vorum að þvælast í bókabúð, tilgangurinn að finna kort af Ríó fyrir nýliðann mig. Fundum ekki kort en rákumst á ýmislegt annað fróðlegt og skemmtilegt.

Rakst á risavaxna bók sem fjallar um 25 undur heimsins sem vert er að heimsækja. Sagði eitthvað á þá leið að við þyrftum að heimsækja þann stað sem kæmi upp ef ég opnaði bókina blindandi.
Fyrst kom upp forboðna borgin í Peking, sem ég er búinn að heimsækja, þannig að það var kallað ógilt.
Við næstu flettingu var það Jerúsalem, okkur þótti það ekki áfangastaður við hæfi í ljósi ástands og ýmissa hluta annarra sem óþarft er að tíunda.

Í þriðju tilraun duttum við niður á staðinn:



Tikal í Guatemala...rétt smáspöl norður af Brasilíu eða svo....í mið-Ameríku og virkar alveg þrælspennandi: http://en.wikipedia.org/wiki/Tikal
Nú er bara að byrja að safna ;)

Skóbúnaður

Áður en ég flaug til Ríó í júní þá sendi hún Carolina mín mér par af sandölum - þeir eru kallaðir Havaianas. Mér leist nú ekki nema svo á, sagði henni að þetta væri ekki alveg minn stíll en hún hvatti mig til að taka þá með. Ég endaði auðvitað á að ganga á þeim allan tímann sem ég var hér úti og saknaði þeirra mikið þegar heim var komið...

Ég kynntist síðan fyrir tilviljun Manir, náunga frá Sao Paulo sem kom til Íslands til að fara á Airwaves. Hann vinnur hjá TBWA stofu hér og hafði samband við okkur á Íslandi áður en hann kom. Þar sem ég hafði þessa sterku Brasilíutengingu þá var mér falið að vera í samskiptum við kappann. Það fór strax vel á með okkur og hann spurði hvort mig vantaði eitthvað frá Brasilíu. Þó svo ég segði nei þá færði hann mér þessa fínu Havaiana skó sem sjá má hér á meðfylgjandi mynd.

Wednesday, November 4, 2009

Hvar er Kristur? (1sti hluti)

Nafni minn vakir hér yfir öllu sjóvinu og sést frá flestum stöðum í borginni. Ég tók þessa mynd af honum úr strætó. Var að spá að sennilega erum við tveir einu gaurarnir í Ríó sem ekki taka lit, sama hvað sólin skín...

Gatan mín

Til að byrja með bý ég við þessa ágætu götu í hverfi sem kallast Jardim Botanico. Það er margt flott í Ríó og þar á meðal eru götumerkin.
Nafn hverfisins er annars dregið af grasagarðinum sem er hér handan götunnar. Þar má finna allt frá pálmatrjám niður í einiberjarunna (eða álíka) og ég er búinn að valsa eitthvað þarna um og njóta vel.

Tuesday, November 3, 2009

Nature boy

Þetta lag klingdi í hausnum á mér á leiðinni til Ríó...

There was a boy
A very strange enchanted boy
They say he wandered very far, very far
Over land and sea
A little shy
And sad of eye
But very wise
Was he

And then one day
A magic day he passed my way
And while we spoke of many things, fools and kings
This he said to me
"The greatest thing
You'll ever learn
Is just to love
And be loved
In return"