Thursday, June 17, 2010

Barcelona


Það tók mig langan tíma að komast til Spánar fyrsta sinni en hafðist á endanum og vonandi verður þetta bara fyrsta ferð af mörgum.
Þeir sem hafa komið til Barcelona halda ekki vatni og ég tilheyri orðið þeim hópi. Að sumu leyti minnir hún mikið á Ríó; Hér er fjalllendi á víð og dreif sem vefast inn í borgarmyndina og trjágróður setur mikinn svip. Arkitektúrinn er líka alveg magnaður, mikið af ótrúlega fallegum byggingum og síðan einstakir hlutir eins og húsin hans Gaudi - sjá kirkjuna hér á myndinni. Frábært dæmi um hvað verður til þegar menn leyfa sér að vera aðeins öðruvísi. Þessi snillingur var víst hæddur þegar hann var að stíga sín fyrstu skref sem arkitekt fyrir um 100 árum en í dag eru verkin hans virt sem gersemar.

Dagarnir líða hratt og við förum heim á morgun - eða s.s. til Englands. Maður veit vart hvað á að kalla 'heim' orðið.
Erum búin að fara víða og sjá margt í bland við að fylgjast með fótboltanum. Heimamenn töpuðu í gær í bragðdaufum leik, við létum okkur hverfa í hálfleik þar sem við töldum tímanum betur varið í annað. Brassarnir allavega unnu sinn leik og það á afmælisdaginn minn.
Það er heldur betur farið að síga á seinni hlutann á þrítugsaldrinum og kannski endar með því að maður þurfi að fara að haga sér eins og fullorðinn maður. En ég merkti enga sérstaka breytingu að morgni þessa afmælisdags, ekki frekar en í hin skiptin sem hann hefur borið upp á.

Sluppum með skrekkinn í gær þegar við vorum á leið upp á hótel með neðanjarðarlestinni. Þegar við vorum nýstigin um borð þá verður mér eitthvað hugsað til kortaveskisins míns. Ég er bara á stuttbuxum hér og þreifaði í vasann þar sem ég vænti þess að veskið væri en greip í tómt. Hjartað tók kipp en veskið var þá í hinum vasanum ásamt myndavélinni. Ana sá að mér brá og ég útskýrði hvað var á seyði.
Nema hvað, við komum á stöðina okkar í þéttpakkaðri lest - svo margt var fólkið að við stóðum ásamt fjölda annarra. Þegar við mjökum okkur að hurðinni stendur þar maður með stóran bakpoka. Hann opnar hurðina en ætlar ekki út, bakkar þess í stað inn í okkur og var dálítið vesen að troðast framhjá honum og út. Mér verður aftur hugsað til veskisins þegar við komum út og í það skiptið er það farið!

Ég kalla í Önu og við hoppum aftur um borð í lestina og mér verður starsýnt á lítinn, illilegan mann sem stendur til vinstri við hurðina sem við gengum út um - þeim megin sem vasinn með veskinu er á stuttbuxunum. Ég hef líklega ekki verið fallegur á svipinn heldur en allt í einu beygir annar sem stendur á bakvið og til hliðar við þann stutta sig niður og réttir mér kortaveskið. Það fór ekkert á milli mála að við vorum að leita að einhverju og sá sem kom auga á veskið fljótur að rétta okkur það.

Við sluppum frá borði áður en lestin lagði af stað og sem við gengum í burtu þá var ekki flókið að leggja dæmið saman. Gaurinn með bakpokann truflar og skapar snertinguna sem villir fyrir á meðan sá stutti fer í vasana. Síðan bruna þeir í burtu með lestinni og eru víðsfjarri þegar fórnarlambið fattar hvað er að ske. Nema í okkar tilfelli þá gekk það ekki upp og þess vegna hefur sá stutti ákveðið að láta veskið frekar detta í gólfið en lenda í veseni.

Við sögðum starfsmanni á stöðinni frá atvikinu og hann tjáði okkur að þetta væri mikið vandamál í lestunum og sagði okkur afar heppin. Ég verð að taka í sama streng en hef mikið verið að furða mig á því hvers vegna mér var svona mikið hugsað til veskisins þarna. Mér dettur helst í hug að kenna ömmu Hrönn um...

Monday, June 7, 2010

Allt í einu er liðinn mánuður!


Þó svo þessi síða hafi upphaflega verið tileinkuð ævintýrum í Brasilíu þá væri bull að loka henni bara og leggja niður þó ég dvelji ekki þar akkúrat núna. Það er heilmargt að gerast í lífinu, í það minnsta nóg til að mér leiðist ekki og dagarnir fljúga fyrirhafnarlítið hjá.

Það er jafngott að vakna við hliðina á þessari dökkeygu konu hvort heldur sem er í Evrópu eða S-Ameríku. Samvistir okkar voru nánar sunnanmegin en eru jafnvel nánari núna og ágætis próf fyrir varanleika okkar einingar - sem lætur ekki á sjá.
Mér finnst ég skulda sjálfum mér að halda aðeins til hafa því sem á daga okkar hefur drifið en hvar skal byrja þegar maður er búinn að trassa svona mikið?

London: Áttum 4 fremur hraðskreiða daga þar niðurfrá. Dýr borg, það verður ekki annað sagt - heimsóttum söfn þar sem aðgangur var ókeypis, versluðum mat í stórmörkuðum og ferðuðumst eingöngu með lestum og strætó + versluðum ekkert. Samt mjög dýrt en tvímælalaust borg óendanlegra möguleika og gaman að koma - mér fannst líka gaman að fara! Við erum sammála um að við viljum hvorki búa í Ríó né Lundúnum, alltof mikill hraði, fólksfjöldi og umferð.

Sumarið skilaði sér á endanum en hefur þó verið gloppótt. Þá daga sem ekkert er á döfinnni hjá hvorugu hvað varðar vinnu höfum við þvælst talsvert um Harworth og nágrenni. Nærliggjandi eru nokkur þorp og við höfum gengið til Bawtry og Tickhill. Ljúft að setjast niður og drekka eina kollu eftir slíkan túr, sleikja sólina og einbeita sér að því að vera til.
Reyndar hafa áhyggjur af peningum aðeins skotið upp kollinum við og við, þó svo að mér hafi svo gott sem tekist að láta sparifé ósnert það sem af er. Held að rót sé líka að aukast í höfðinu á mér vegna þess að ég hef ekki verið að hugleiða. Merkilegt að maður skuli dirfast að trassa það sem vitað er fyrir víst að gerir manni gott! Verð að gera yfirbót en finn hvað það er erfitt að viðhalda rútínu þegar við erum svona á ferð og flugi.

Talandi um, við vorum í Glasgow í viku hjá Balla og Svandísi. Það virtist reyndar meira eins og 3-4 dagar! Mun afslappaðri höfuðborg held en hjá Englendingum og yfirvegaðra fólk. Ana fékk að smakka skonsur og plokkfisk - ekki í sömu andrá þó - og geðjaðist hvort tveggja vel. Ég held að hún eigi eftir að kunna afskaplega vel að meta íslenska matseld og hlakka til þess að vitna það (og auðvitað iða í skinninu að komast sjálfur í ýmsan mat heima fyrir).
Baldvin og Svandís hafa búið sér mikið fyrirmyndar heimili og eiga orðið 2 börn. Hann er á fullu við að skapa sér orðspor sem listamaður og ánægjulegt að finna til þess að honum hefur orðið heilmikið ágengt. Ég styð hann auðvitað 100% og trúi á hann en það dugir víst afskaplega skammt og ljóst að hæfileikarnir einir duga ekki til að fleyta mönnum áfram. Merkilegt að fá innsýn í þennan heim og mín tilfinning er sú að Balli muni slá í gegn fyrr en síðar.

Náðum líka að troða okkur með í brúðkaupsveislu sem þeim skötuhjúum var boðið til, heimsækja hina gullfallegu Edinborg og fara í skemmtilegan bíltúr með Malcolm vini mínum. Hann er alveg einstakur náungi. Kom til Íslands 2006 með Balla til að spila á Airwaves og ég reyndi auðvitað að vera almennilegur og gestrisin, fór meðal annars með hann og vin hans í bíltúr út fyrir borgina svo þeir sæju ögn meira en malbikið. Malcolm hafði sumsé beðið færis til að endurgjalda þennan greiða og fór með okkur í bíltúr til Loch Lomond - þar sem myndin sem fylgir blogginu er tekin - og kenndi okkur að taka góðar panorama myndir. Á köflum sem við þvældumst kringum þetta vatn fannst mér við allt eins geta verið við Skorradalsvatn!

Jæja nú er nóg komið af gaspri. Á sunnudag fljúgum við til Spánar, nánar tiltekið Barcelona og verðum í 5 daga. Fögnum meðal annars afmælinu mínu (enn eitt árið á mælinn) og auðvitað 17. júní. Ég er nokkuð spenntur, fólk heldur ekki vatni yfir þessari borg og ég hef þar að auki aldrei komið til Spánar!

Tuesday, May 11, 2010

Enskt vor

Sit hér og sýg upp í nefið, hálf kaldhæðnislegt að íslendingurinn skuli vera kvefaður en ekki sú brasilíska. Við erum í það minnsta samstíga í því að finnast heldur kuldalegt hér bretlandsmegin eftir þetta líka fína vorveður fyrstu dagana. Í nótt fór víst niður fyrir frostmark og maður fann alveg fyrir því hvað einangrun er lítil í þessu húsi sem við höldum til í.

Í fyrradag tókum við okkur til með litlum fyrirvara og ókum til Bradford og fórum á tónleika með hljómsveitinni Doves. Frumkvæðið var alfarið hennar en ég er búinn að fylgjast með þessari sveit frá upphafi, held það séu að verða 10 ár. Það rann upp fyrir mér á tónleikunum hvað tónlistin þeirra hefur spilað stóra rullu á köflum í mínu lífi - sumt kann ég algjörlega utanaf.
Skemmtileg ferð og Bradford snotur borg.

Á fimmtudaginn förum við svo til London og verðum fram á mánudag. Þar stendur til að hitta skólafélaga, skoða söfn og þar fram eftir götunum. Verður varla mikið mál að stytta sér stundir þarna niðurfrá og blessunarlega þá hefur vinur minn boðist til að skjóta yfir okkur skjólshúsi - mér leist satt best að segja ekkert á verðið á gistingu!

Nú er verið að reka á eftir mér að skrölta út í búð og ná í eitthvað í kvöldmatinn. Maður verður jú að borða, stundum væri ósköp gott að geta sleppt því.

Monday, May 3, 2010

Komin til Doncaster...

...og meira að segja búin að vera í 6 daga! Tíminn s.s. líður síst hægar á Bretlandseyjum :)
Það væsir ekki um okkur þó svo að hitastigið hafi lækkað talsvert nokkrum dögum eftir að við tylltum niður fæti á vorskrýddum Bretlandseyjum. Við fengum úthlutað herbergi á efri hæð á kránni hans Peters og það er meira að segja talsvert stærra en það sem við vorum að yfirgefa. Að auki fylgdi sjónvarp með og mér hefur ekki þótt leiðinlegt að endurnýja kynnin við enskt sjónvarp, síðustu daga höfum við verið allt að því límd yfir snóker - heimsmeistarkeppnin í fullum gangi og úrslitin ráðast á morgun.

Þegar ég segi Doncaster þá er það í raun eins og að segja að við séum í Dalvíkurbyggð. Nánar tiltekið þá erum við á Árskógssandi, eða þorpi sem heitir Harworth og státar af íbúafjölda Akureyrar; c.a. 15 þúsund manns.
Mér telst svo til að þetta sé sjötta heimsókn mín, sú fyrsta var 1997.

Það breytist ýmislegt samhliða búsetunni. Ég er farinn að ganga með farsíma aftur, kostaði heil 4 pund og 95 pens og kortaveskið sem lá alveg á hillunni í Brasilíu er komið aftur í buxnavasa. Það er fínt, Ana sá alfarið um peningamálin hennar megin - ég sá bara um að éta, drekka og þar frameftir - hún æfði korta- og reiðufés vöðvana til skiptis.

Nú er mikið pælt og planað varðandi hvað skuli haft fyrir stafni í frístundum. Nóg af hugmyndum á sveimi en fjármagn til framkvæmda heldur naumara og ég er oftast sá sem reyni að vera raunsær og halda fótunum á jörðinni - hver hefði trúað?
Vikuferð til Glasgow allavega komin á koppinn, þar sem við fáum að gista hjá Ringsted klaninu og væntalega tökum við langa helgi í London fljótlega. Lífið er gott.

Monday, April 26, 2010

Síðustu línur frá Brasilíu

Jæja þá er farið að styttast í að við rennum út á flugvöll. Dagurinn farið í að pakka, kveðja hinn og þennan og taka síðasta hitt og þetta; snúa litlu gröðu skjaldbökunni við í síðasta sinn, fara í síðustu sturtuna á núll þrýstingi, éta Feijoda í síðasta sinn og svo framvegis. Endinginn á öllu saman ætti auðvitað að vera 'í bili', því það er fjarri verið að skjóta loku fyrir að við komum aftur. Þvert á móti þá munum við tvímælalaust koma aftur í haust en hitt, hvað við ílengjumst, það er á huldu.

Búnir að vera góðir sex mánuðir, mér er afskaplega hollt að kynnast nýjum hlutum, það nærir mig og lyftir mér upp.
Þó svo bloggið sé helgað Brasilíuævintýrinu þá reikna ég nú með að berja hér inn einhverjar línur af og til, óháð staðsetningu. Látum það vera lokaorðin og ég tek upp þráðinn á hinum endanum - eða réttara sagt - á Englandsströndum.

Kveðjuferð um Santa Teresa




































Saturday, April 17, 2010

Helstu fréttir

Það má liggur við segja að þær hrannist upp fréttirnar þegar maður er svona eindæma latur við að 'drepa niður penna'. Ísland er búið að vera á forsíðu Globo, stærsta dagblaðsins hér um slóðir, tvo daga í röð, það er ögn skrítið en þó kannski ekki miðað við ósköpin sem ganga á undir jarðskorpunni.

Hvað varðar hræringar ofan jarðskorpunnar; icesave, skýrluna góðu og 'ég gerði ekki neitt rangt' grátkórinn þá hef ég sem minnst lagt mig eftir því að pæla í þeim málum.

Fór í síðustu viku og lét smella krónu yfir handónýtan endajaxl og skundaði glaðbeittur inní helgina. Hittum Manir nokkurn Fadel, náunga sem vinnur hjá TBWA í Sao Paulo og dúkkaði upp á stofunni hjá okkur heima á Íslandi nokkrum vikum fyrir mína brottför til Brazil. Það er búið að standa til að hitta hann nokkurn veginn síðan ég kom út en við höfum verið passasöm og ferð til Sao Paulo ekki sloppið í gegnum fjárlaganefnd. Svo skemmtilega vildi til að hann og hans spússa áttu leið hingað og við náðum að leiða saman hesta. Svo vikið sé aftur að tönninni þá sat ég með þeim og gæddi mér í makindum á Pastel - dúnmjúku brauðhorni fylltu kjöhakki - og átti mér einskis ills von. Þegar ég renni tungu yfir tanngarðinn brá mér þá heldur í brún og ég hrópa 'andskotinn, ég er búinn að éta krónuna!'. Það fyndnasta var þó að Manir sagði á móti: 'Engar áhyggjur, ég hef gert þetta líka.'

Þannig að við fórum aftur til tönnsu og hún tók á móti okkur í bróderuðum sloppi með blúndum og á háu hælunum - held ég bara ánægð að fá okkur aftur. Það er miklu skemmtilegra að fara til tanna í Brasilíu, allavega til hennar Claudiu.
Krónan reyndist brotin og helgaðist líkast til af því að sú sem var smíðuð var helst til há og þurfti að sverfa hana talsvert niður þegar hún var komin í.

Það voru engar vífillengjur, hún hreinlega leiddi mig niður til smiðsins og heimtaði að sú tæki nákvæm mál til að næsta yrði betur úr garði gjörð. Í sömu heimsókn réði hún Carolinu í vinnu og ég mun líklega verða shanghæjaður inní það verk líka til að sinna vefmálum - já og krónan verður sett í á þriðjudaginn! Ekta manneskja þarna á ferð og mér að skapi :)

Vikan annars verið helguð tilfæringum tengdum brottför - ef Katla blessunin blundar áfram þá verðum við í Englandi eftir 9 daga. Amma hennar í föðurætt bauð okkur út að borða í vikunni og gaf okkur farareyri - minni óneitanlega á ömmu Hrönn og ekki bara hvað þetta varðar. En meira af Mariu síðar, hún stendur held ég alveg undir heilli færslu!

Tuesday, April 6, 2010

Smá göngutúr í rigningunni

Hasarblaðamaðurinn sem við gómuðum vaðandi um allt og talandi í eigin myndavél stelur alveg senunni - til að kóróna allt þá er hann í stretch buxum.