Monday, June 7, 2010

Allt í einu er liðinn mánuður!


Þó svo þessi síða hafi upphaflega verið tileinkuð ævintýrum í Brasilíu þá væri bull að loka henni bara og leggja niður þó ég dvelji ekki þar akkúrat núna. Það er heilmargt að gerast í lífinu, í það minnsta nóg til að mér leiðist ekki og dagarnir fljúga fyrirhafnarlítið hjá.

Það er jafngott að vakna við hliðina á þessari dökkeygu konu hvort heldur sem er í Evrópu eða S-Ameríku. Samvistir okkar voru nánar sunnanmegin en eru jafnvel nánari núna og ágætis próf fyrir varanleika okkar einingar - sem lætur ekki á sjá.
Mér finnst ég skulda sjálfum mér að halda aðeins til hafa því sem á daga okkar hefur drifið en hvar skal byrja þegar maður er búinn að trassa svona mikið?

London: Áttum 4 fremur hraðskreiða daga þar niðurfrá. Dýr borg, það verður ekki annað sagt - heimsóttum söfn þar sem aðgangur var ókeypis, versluðum mat í stórmörkuðum og ferðuðumst eingöngu með lestum og strætó + versluðum ekkert. Samt mjög dýrt en tvímælalaust borg óendanlegra möguleika og gaman að koma - mér fannst líka gaman að fara! Við erum sammála um að við viljum hvorki búa í Ríó né Lundúnum, alltof mikill hraði, fólksfjöldi og umferð.

Sumarið skilaði sér á endanum en hefur þó verið gloppótt. Þá daga sem ekkert er á döfinnni hjá hvorugu hvað varðar vinnu höfum við þvælst talsvert um Harworth og nágrenni. Nærliggjandi eru nokkur þorp og við höfum gengið til Bawtry og Tickhill. Ljúft að setjast niður og drekka eina kollu eftir slíkan túr, sleikja sólina og einbeita sér að því að vera til.
Reyndar hafa áhyggjur af peningum aðeins skotið upp kollinum við og við, þó svo að mér hafi svo gott sem tekist að láta sparifé ósnert það sem af er. Held að rót sé líka að aukast í höfðinu á mér vegna þess að ég hef ekki verið að hugleiða. Merkilegt að maður skuli dirfast að trassa það sem vitað er fyrir víst að gerir manni gott! Verð að gera yfirbót en finn hvað það er erfitt að viðhalda rútínu þegar við erum svona á ferð og flugi.

Talandi um, við vorum í Glasgow í viku hjá Balla og Svandísi. Það virtist reyndar meira eins og 3-4 dagar! Mun afslappaðri höfuðborg held en hjá Englendingum og yfirvegaðra fólk. Ana fékk að smakka skonsur og plokkfisk - ekki í sömu andrá þó - og geðjaðist hvort tveggja vel. Ég held að hún eigi eftir að kunna afskaplega vel að meta íslenska matseld og hlakka til þess að vitna það (og auðvitað iða í skinninu að komast sjálfur í ýmsan mat heima fyrir).
Baldvin og Svandís hafa búið sér mikið fyrirmyndar heimili og eiga orðið 2 börn. Hann er á fullu við að skapa sér orðspor sem listamaður og ánægjulegt að finna til þess að honum hefur orðið heilmikið ágengt. Ég styð hann auðvitað 100% og trúi á hann en það dugir víst afskaplega skammt og ljóst að hæfileikarnir einir duga ekki til að fleyta mönnum áfram. Merkilegt að fá innsýn í þennan heim og mín tilfinning er sú að Balli muni slá í gegn fyrr en síðar.

Náðum líka að troða okkur með í brúðkaupsveislu sem þeim skötuhjúum var boðið til, heimsækja hina gullfallegu Edinborg og fara í skemmtilegan bíltúr með Malcolm vini mínum. Hann er alveg einstakur náungi. Kom til Íslands 2006 með Balla til að spila á Airwaves og ég reyndi auðvitað að vera almennilegur og gestrisin, fór meðal annars með hann og vin hans í bíltúr út fyrir borgina svo þeir sæju ögn meira en malbikið. Malcolm hafði sumsé beðið færis til að endurgjalda þennan greiða og fór með okkur í bíltúr til Loch Lomond - þar sem myndin sem fylgir blogginu er tekin - og kenndi okkur að taka góðar panorama myndir. Á köflum sem við þvældumst kringum þetta vatn fannst mér við allt eins geta verið við Skorradalsvatn!

Jæja nú er nóg komið af gaspri. Á sunnudag fljúgum við til Spánar, nánar tiltekið Barcelona og verðum í 5 daga. Fögnum meðal annars afmælinu mínu (enn eitt árið á mælinn) og auðvitað 17. júní. Ég er nokkuð spenntur, fólk heldur ekki vatni yfir þessari borg og ég hef þar að auki aldrei komið til Spánar!

No comments:

Post a Comment