Monday, December 31, 2012

2013 byrjar í Brasilíu

Maður missir allan sans fyrir dagatalinu og árstíðum þegar sólin skín svona miskunnarlaust alla daga vikunnar. Verandi Íslendingur og búsettur þar mestan part ævinnar þá eru jól og áramót rækilega merkt af nánasta umhverfi; jólaseríum, fannfergi og allskyns hefðum og venjum sem tengjast þessum hátíðahöldum.

Þegar dvalið er í öðru landi fer allt á hvolf og ekki bara sakir veðursins, hefðir eru af mjög svo skornum skammti og ekki laust við að ég sakni ýmissa hluta sem ég á að venjast.

En kringum áramótin gengur mikið á og hér er hefðin sú að allir klæðast hvítu við þessi tímamót. Þetta setur mjög svo skemmtilegan svip á allt saman og hittir í mark hjá mér. Sumir ganga skrefinu lengra og kasta blómum í hafið og biðla til einhvers sjávarguðs sem ég kann ekki að nefna. Þetta er komið frá Afríkumönnum sem voru fluttir hingað yfir í stórum stíl forðum að þræla við námagröft og annað þesslegt.


Sem blómunum er kastað þá getur viðkomandi óskað sér og heitir á sjávarguðinn með að óskin rætist. Litur blómanna ku valinn með tilliti til þess undir hvað óskin fellur, rauður fyrir hjartans mál, hvítur fyrir hamingju og svo framvegis.
Eitthvað krúttlegt við þetta og engu vitlausara en margt það sem viðgengst í trúmálum heimsins.

Talandi um námagröft þá leggjum við í ferðalag með karli föður hennar þann 3. janúar og ætlum að keyra yfir í næsta fylki, Minas Gerais. Þar eru mestu námasvæði Brasilíu og Portúgalir og seinna heimamenn sjálfir búnir að moka upp gríðarlegum auðævum í allskyns góðmálmum og gimsteinum á þessu svæði. Portúgalir byggðu fallegar nýlenduborgir þarna sem við ætlum að þræða og eins er ég sífellt að bragða hitt og þetta matarkyns sem reynist vera frá Minas og ljóst að við sveltum ekki.

2013 leggst þannig séð ágætlega í mig. Gæti auðvitað velt mér uppúr því hve tíminn virðist fjúka frá manni en reyni að týna mér ekki í slíkum vangaveltum. Á komandi ári fylli ég 4 tugi og finnst það óneitanlega undarleg tilhugsun - verð ég loksins fullorðinn um miðjan júní?

Nú þegar er búið að raða hinu og þessu skemmtilegu inná dagatalið fyrir 2013 og ljóst að það verður nóg við að vera og við munum ferðast talsvert, bæði tengt leik og starfi. Ég stóð mig að því að sakna þess hve ég hef lítið sinnt 'listrænni sköpun' (úfff) og hef sett mér og nokkrum öðrum ákveðna áskorun í þeim efnum, vona að vel verði tekið í það allt saman.

Nú er líklega tímabært að yfirgefa kaldan faðm loftkælikassans á skrifstofu Alcio og skunda heim, smella sér í hvítan bol og athuga hvort við fáum inni á e-h veitingastað. Svo er það flugeldasýningin sem við ætlum að horfa á við vatnið (lagoa) og svo verður restin tekin eftir eyranu.

Saturday, December 22, 2012

Jól í Angra dos reis

Jæja, þessi heimsókn til Brasilíu fór nú ekkert sérstaklega vel af stað. Til að byrja með týndi flugfélagið töskunni okkar en hún blessunarlega skilaði sér þrem dögum síðar. Þá bilaði loftkælingin í herberginu sem við gistum í og það sem ég hélt að væri móskítóbit reyndist vera köngulóarbit og líkamleg viðbrögð helst til öfgafengin:


Eftir heita daga í Ríó þá keyrðum við suður til Angra dos Reis (flóa konunganna) föstudaginn 21. desember og ætlum að halda jólin hér á strandhóteli. Með í för eru s.s. pabbinn Alcio, systurnar þrjár og þrír tengdasynir.

Ég ætlaði nú alveg að bráðna í bílnum á leiðinni og loftkælingin í bílnum hafði engan vegin við - sáum 45 gráður á mæli á einum stað. En það rættist úr því þegar við komum á áfangastað, góður andvari niður við sjóinn og loftkæling í herberginu.

Ég hef ekki lifað að vera á svona stað áður en þetta er til víðsvegar um heiminn, resort þar sem þú ert í rauninni með allt til alls innan veggja hótelsins. Ströndin er voða fín en ég er að berjast við að fá þetta bit til að gróa og hef þess vegna ekkert farið í sjóinn ennþá. Í staðinn hef ég þurft að horfa upp á hina leika sér en það væsir svo sem ekkert rosalega um mig á sólbekknum.













Sé reyndar að lunginn af þessum myndum er af Juan að æfa sig á bretti, var svo ánægður með mig að ná seríu af honum klöngrast upp á brettið, nokkurn veginn rétta úr sér og byrja að róa og fara svo á bólakaf. Það er mikil pressa á mig að spreyta mig á þessu og vonandi að ég geti farið í vatnið fljótlega.

Reyndi að telja fb notendum trú um að neðsta myndin sé af fljúgandi diski í smíðum en þessu mannvirki er víst ætlað að hýsa okkur þegar kvöldmatur verður borinn fram að kvöldi 24. desember.

Ótrúlegt að í þessari órafjarlægð að heiman tókst mér nú samt að rekast á íslendinga. Vorum að borða hádegismat og ég heyri að einhver slær fram orðinu 'Iceland' í setningu á næsta borði. Fer að gefa borðinu gaum og sé að þarna eru 3 bláeyg og ljóshærð börn ásamt foreldrum og fylgdarfólki sem er greinilega frá Brasilíu. Eftir smá stund heyri ég eitt barnanna segja 'prófaðu að smakka þetta' og gat ekki annað en brosað.

Þó það sé ekki sérlega jólalegt um að litast þá reynir maður nú að setja sig í tilheyrandi stellingar. Er með bók í farteskinu og mjög svo til í að taka nokkra daga í slökun. Ég tengi jólin mest við rólegheit, át og samvistir með fjölskyldu. Þó sú nánasta sé víðsfjarri í þetta skiptið þá get ég stólað á þessa fjölskyldu sem ég hef eignast hérna hinumegin.

Þetta verður samt að mörgu leyti öðruvísi og þannig erum við að fara í siglingu til Isla grande (stóru eyju) á aðfangadag! Síðan er hér í grenndinni náttúruleg sundlaug og það er auðvitað ótækt annað en að prófa að baða sig þar. Sú ferð verður líklega farin á öðrum degi jóla og svo tygjum við okkur til Ríó og þá þurfum við líklega að ákveða hvar við ætlum að eyða áramótum. Ég er til í næstum hvað sem er, nema 2 milljón manna partíið á Ipanema strönd...


Thursday, October 11, 2012

Nikólína Kristjánsdóttir 2000 - 2012?

Uppfærsla 22.10.2012:
Ehemm, fékk sms skilaboð frá mömmu: 'Nikólína er komin heim.'
Hún ku vera grindhoruð og líklega lífi eða tveim fátækari en þessi merkisköttur er ekki búinn að segja sitt síðasta :)

Þetta merkilega kattardýr er líklega horfið á braut fyrir fullt og allt. Þar sem mogginn yrði líklega tregur til að prenta minningargrein þá datt mér í hug að setja inn nokkur orð hérna til minningar.

Kisa settist í helgan stein norður á Dalvík þegar ég flutti út árið 2009, í sveitasæluna hjá mömmu. Henni leist nú ekkert sérlega vel á pleisið þegar við komum þangað fyrst, var stressuð og vör um sig og margt nýtt bar fyrir glyrnur - gleymi til dæmis aldrei þegar hún sá hest í fyrsta skipti :)
En hún fann sig vel þarna, kunni vel við mömmu og mamma vel við hana þannig að þó ég kæmi heim aftur tæpu ári síðar þá ákváðum við Ana að vera ekkert að róta henni aftur. Gullnu árin líka brostin á og hún sló í 12 kattaár í sumar, skv netinu eru það um 70 ár á okkar skala.

Hún var alltaf söm við sig, tók sumu fólki og öðru alls ekki. Stundum fúl og alltaf mest til í að tala við mann 'one on one'.
Í sumar gerðist eitthvað stórundarlegt. Hún alveg steinhætti að éta matinn sinn og var úti allar nætur að veiða mest mýs og einhverja fugla og át svona nokkurn veginn með húð og hári - mamma fann stundum músaskott í þvottahúsinu þar sem hún hélt til. Mamma reyndar gómaði hana líka með hálfan andarunga úr heimaeldinu, en það er önnur saga...

Í kjölfarið á þessum aðgerðum hríðlagði daman af og hætti meira að segja að hrjóta þegar hún svaf. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég kom þarna í júlí, hún var í alveg toppformi blessunin. Nema hvað, þegar fór að kólna þá fór hún að vera meira inni á nóttunni og meira að segja hreyfa við mat sem lagður var fyrir hana. En svo allt í einu hvarf hún fyrir að verða mánuði. Það hafði svo sem gerst áður að hún legðist út um tíma en eftir 1-2 daga fór mamma að horfa eftir henni og kalla á hana, hún svaraði alltaf og kom þegar kallað var á hana. Það gerðist ekki í þetta skiptið og þrátt fyrir leit í útihúsum og næsta nágrenni þá finnst hún bara ekki.

Mér finnst það reyndar leiðinlegast. Vissi alltaf að þessi köttur yrði ekki eilífur frekar en við hin en sá alltaf fyrir mér að geta kvatt hana og komið henni fyrir e-h staðar þar sem ég vissi af hennar jarðnesku leifum. Því miður gekk það ekki eftir.

Þessi köttur fylgdi mér í gegnum marga góða daga og þónokkra slæma og það var svo sannarlega betra að hafa hana hjá sér en ekki. Hef kynnst þónokkrum kynjaköttum á lífsleiðinni en engum eins og þessum!





Monday, May 14, 2012

Palermo og Cefalu - apríl 2012

               Kona á laxableikum buxum eltir skugga sinn (HDR)

Lifðum það að heimsækja fæðingarstað mafíunnar og flýja um stundarsakir fádæma þrúgandi vetur. Ekki kannski að frosthörkurnar hér í Hveragerði hafi verið svo miskunnarlausar, meira að umhleypingar og myrkur hafi keyrt um þverbak.

Ég hafði jú aldrei komið til Ítalíu og kannski hef ég ekki komið þar enn - veitingamaður hrópaði: 'Ég er ekki Ítali, ég er Sikileyingur!'. Verð að reyna að komast á stígvélið sjálft og vega og meta persónulega hverju munar á þessu liði. Manuela sem hýsti okkur í Palermo sagðist hafa verið í Milan og þar mætti fólk bara í vinnuna og færi svo heim, það þekkti ekki einu sinni nágrannana...því er nú eitthvað svipað farið hér í kringum mig.

En allavega, lengsta töfin var gerð í Cefalu, litlu þorpi um klukkustundar lestarferð frá Palermo. Himnaríki á jörð og nóg til af ljósmyndum því til sönnunar, ég sting einni í toppinn og læt það duga.
Þarna liðu dagarnir ögn hægar en gengur og gerist og það hentaði mér vel. Oftar en ekki á ferðum okkar um útlönd er ég genginn upp að hnjám, þreyttur og úrillur / úrillari. Kannski er lausnin að setja fókusinn á þorp frekar en borgir?

Þarna var mátulega mikið að hafa fyrir stafni, nóg af mjóum götum að þræða, glás af veitingastöðum, nóg af fólki og hægt að dást að hádramatískum talsmátanum. Stutt á ströndina en ekki orðið svo hlýtt að tæki þvi að flatmaga þar eða reyna að synda í sjónum.
Þessir sex dagar sem við dvöldum voru letilegir heilt yfir en það jú akkúrat það sem lagt var upp með.

Ómeðvitaður bragðaði ég Cannoli strax á fyrsta degi, sætt bakkelsi sem fer gríðarvel með bíksvörtu kaffinu, og það er gott fyrir Sopranos unnandann að hafa afrekað þetta. Síðan fannst mér eftirtektarvert að það voru 2 bakarí á flugvellinum kenndum við saksóknarann úr kolkrabba sjónvarpsþáttunum og vin hans sem líka var myrtur. Sem við stóðum í röð að bíða eftir að komast gegnum öryggiseftirlit þá var annar hver Sikileyingur með snyrtilega innpakkaðann böggul með bakkelsi undir hendinni. Afskaplega krúttlegt og eins merkilegt að þarna er fólk fjarri eins sílspikað og það er margt orðið hér um slóðir.