Monday, May 14, 2012

Palermo og Cefalu - apríl 2012

               Kona á laxableikum buxum eltir skugga sinn (HDR)

Lifðum það að heimsækja fæðingarstað mafíunnar og flýja um stundarsakir fádæma þrúgandi vetur. Ekki kannski að frosthörkurnar hér í Hveragerði hafi verið svo miskunnarlausar, meira að umhleypingar og myrkur hafi keyrt um þverbak.

Ég hafði jú aldrei komið til Ítalíu og kannski hef ég ekki komið þar enn - veitingamaður hrópaði: 'Ég er ekki Ítali, ég er Sikileyingur!'. Verð að reyna að komast á stígvélið sjálft og vega og meta persónulega hverju munar á þessu liði. Manuela sem hýsti okkur í Palermo sagðist hafa verið í Milan og þar mætti fólk bara í vinnuna og færi svo heim, það þekkti ekki einu sinni nágrannana...því er nú eitthvað svipað farið hér í kringum mig.

En allavega, lengsta töfin var gerð í Cefalu, litlu þorpi um klukkustundar lestarferð frá Palermo. Himnaríki á jörð og nóg til af ljósmyndum því til sönnunar, ég sting einni í toppinn og læt það duga.
Þarna liðu dagarnir ögn hægar en gengur og gerist og það hentaði mér vel. Oftar en ekki á ferðum okkar um útlönd er ég genginn upp að hnjám, þreyttur og úrillur / úrillari. Kannski er lausnin að setja fókusinn á þorp frekar en borgir?

Þarna var mátulega mikið að hafa fyrir stafni, nóg af mjóum götum að þræða, glás af veitingastöðum, nóg af fólki og hægt að dást að hádramatískum talsmátanum. Stutt á ströndina en ekki orðið svo hlýtt að tæki þvi að flatmaga þar eða reyna að synda í sjónum.
Þessir sex dagar sem við dvöldum voru letilegir heilt yfir en það jú akkúrat það sem lagt var upp með.

Ómeðvitaður bragðaði ég Cannoli strax á fyrsta degi, sætt bakkelsi sem fer gríðarvel með bíksvörtu kaffinu, og það er gott fyrir Sopranos unnandann að hafa afrekað þetta. Síðan fannst mér eftirtektarvert að það voru 2 bakarí á flugvellinum kenndum við saksóknarann úr kolkrabba sjónvarpsþáttunum og vin hans sem líka var myrtur. Sem við stóðum í röð að bíða eftir að komast gegnum öryggiseftirlit þá var annar hver Sikileyingur með snyrtilega innpakkaðann böggul með bakkelsi undir hendinni. Afskaplega krúttlegt og eins merkilegt að þarna er fólk fjarri eins sílspikað og það er margt orðið hér um slóðir.

No comments:

Post a Comment