Thursday, January 28, 2010

Complicado

Það er útlit fyrir að ég verði að yfirgefa landið um tíma og líklega vera í burtu góða tvo mánuði. Ég er ennþá hér sem ferðamaður og okkur þykir orðið einsýnt að einfaldast sé að þreyja þorrann þar til í júlí að við getum gift okkur og ég í kjölfarið fengið dvalar- og atvinnuleyfi. En í millitíðinni þarf ég sem túristi að vera sex mánuði í burtu á hverju ári og þar sem ég var í burtu næstum fjóra mánuði eftir fyrstu heimsókn þá standa rúmir tveir eftir.

Að öðru leyti eru plönin óbreytt, ég vil ná tökum á tungumálinu og koma undir mig fótunum hér á landi. Sjá hvernig þetta virkar allt saman, þó svo að skrifræðið dragi á köflum aðeins úr manni, og skoða stöðuna eftir 1-2 ár.

Mig langar ekkert sérstaklega heim til Íslands nema bara sem gestur, þannig að ég er að gæla við að gera töf á Bretlandseyjum. Skoða hvort maður getur ekki fengið einhverja svarta vinnu að dútla á meðan tíminn líður. Sjáum hvað setur.

Sunday, January 24, 2010

Where the wild things are


Skelltum okkur í kvikmyndahús í vikunni og sáum þessa ansi hreint mögnuðu mynd. Þekktur indie kappi tók fyrir samnefnda barnabók og færði yfir á hvíta tjaldið. Persónulega man ég ekki til þess að hafa lesið þessa bók sem barn en það má vel vera að það sé bara fallið í gleymskunnar dá. Hún virðist í það minnsta til á íslensku, kallast Óli og ófreskjurnar.

Söguhetjan rífst heiftarlega við systur sína og móður og hleypst í kjölfarið að heiman. Hann býr til ímyndaða veröld þar sem hann hittir fyrir risavaxnar verur sem allar eiga sér stoð í hans veruleika; standa fyrir móður hans, systur, hann sjálfan og fleiri. Myndin er dálítið dimm, líklega myndu margir kalla þetta barnamynd fyrir fullorðna og sem slík virkaði hún afskaplega vel fyrir mig og hrærði upp allskyns minningum.

Því var alveg gjörsamlega stolið úr mér að ég sá fyrir langa löngu ekki önnur úrræði en fara að heiman. Ég á erfitt með að staðsetja þetta í tíma, við bjuggum í Sunnubrautinni og mér finnst ég hafi verið 8-9 ára gamall. Það var eitthvað vesen heima, rifrildi og tilheyrandi og ég var alveg endalaust reiður yfir því óréttlæti sem ég þóttist beittur. Reiðin beindist fyrst og fremst að mömmu og ég settist niður og skrifaði henni bréf og útskýrði ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun minni að fara að heiman. Bréfið lagði ég á rúmið hennar þegar ég hafði búið mig til ferðar. Man nú ekki mikið eftir útbúnaði nema jú að ég átti boga úr einangrunarröri og 1-2 örvar, það var tekið með.

Sem ég gekk út götuna þá rann upp fyrir mér að ég hafði kannski ekki hugsað dæmið alveg til enda en þó beygði ég upp Mímisveg og ég man að ég fór upp á Stórhól og eitthvað lengra. Reiðin rann jafnt og þétt af mér með hverju skrefinu og ráðleysið tók jafnt og þétt við. Skal ekki fullyrða um það hvað ég entist lengi í útlegðinni en það allavega tók enginn neitt sérstaklega eftir því þegar ég snéri heim aftur - líklega vegna þess að þau höfðu varla merkt það að ég færi farinn. En bréfið var hins vegar horfið af rúminu...

Á þeim árum var manni gjarnan rétt veskið hennar mömmu þegar ég var sendur í búð og í veskinu var þá líka með miði með því sem 'maður átti að fá'. Í einhverri ferðinni uppgötvaði ég að bréfið góða var í veskinu og það olli mér talsverðu hugarangri. Fyrir mér stóð þessi bréfsneypa sem sönnunargagn um gjörsamlega misheppnaða framkvæmd sem ég vildi fyrst og fremst gleyma. Það varð því úr að í einni ferðinni niður í Kjörbúð var bréfinu eytt, rifið í tætlur og hent í ruslið. Bjarmi var með í för og ég tók af honum loforð um halda kjafti um þennan verknað og ég veit ekki annað en hann hafi haldið það. Í það minnsta hefur mamma aldrei, hvorki fyrr né síðar, minnst orði á þetta bréf. En mikið óskaplega væri ég til í að lesa það í dag...

Friday, January 22, 2010

Draumfarir...


Var í útlöndum, einhverstaðar á Bretlandseyjum og Baldvin með mér og vinir okkar frá Edinborg - Malcom og Alasdair. Fyrst í stað fannst mér við vera á hóteli en man lítið hvað við vorum að gera þar. Síðan umbreytist allt og við erum í einbýlishúsi og það er verið að raða mönnum á herbergi til svefns. Einhver yfirtók herbergi sem ég hafði augastað á, þannig að ég ákvað að sofa í tjaldi úti í garði. Þegar ég kom út þá fór ég að hafa áhyggjur af búnaði sem ég hafði með mér, vildi ekki hafa það dót útivið yfir nóttina ef ske kynni því yrði stolið. Man að ég var með gítarmagnara og gítar + eitthvað fleira og held ég hafi komið því í hús.

Klippt og það er eins og ég sé búinn að sofa, ég er að ganga frá húsinu og fannst eins og ég væri í London. Það var komið kvöld, milt veður og fallegt. Hverfið var allt gróið og flott og húsið minnti mig á íslensk einbýlishús. Gunnlaugur Lárusson var að labba með mér og sem ég góndi upp í himininn og dáðist að stjörnunum þá spurði ég hvað væri nú hægt að gera skemmtilegt í London á miðvikudagskvöldi. 'Miðvikudagskvöldi?' Étur Gulli upp eftir mér, 'það er fimmtudagskvöld, þú svafst í meira en 24 tíma.' Hann horfði á mig með undarlegu glotti og ég var ekki viss hvort hann væri að hræra í mér, þannig að ég fiska farsímann uppúr vasanum til að skoða dagsetninguna. Þá erum við skyndilega að labba Asnastíginn heima á Dalvík, að koma að horninu á Asnastíg og Hafnarbraut.

Skyndilega rennur upp fyrir mér að ég er með farsímann sem var stolið af mér um áramótin (staðreynd) og ég þykist fatta hvað er á seyði. Ég segi Gulla að það passi ekki að ég geti verið með símann, þetta hljóti að vera draumur. Hann vill ekki bekena það. Þá tek ég sígarettuna sem hann er að reykja og tek í handlegginn á honum, munda mig til að brenna hann. Hvað gerist ef ég geri þetta? 'Ef þetta er ekki draumur þá meiði ég mig rosalega' svarar hann. Þetta einhvern veginn endar þar og við beygjum inn að Shellinu.

Þar sunnan við sjoppuna er búið að stilla upp 2-3 borðum og eitthvað fólk sem ég man ekki deili á bíður okkur sæti, hvort við viljum ekki fá okkur bjór með þeim. Við þiggjum það og ætlum inn í Shellið, sem selur þá bjór. Við erum að fara inn um 'aðaldyrnar' en þá kallar einhver að þeir selji ekki bjórinn þar. Við löbbum áfram meðfram húsinu, í átt að dyrunum að bensínafgreiðslunni. Á leiðinni sé ég að það er komin lúga á hina langhliðina og þar út er bjórinn afgreiddur og ekkert annað, þetta er bjórlúga.

Við komum að lúgunni og það var ábyggilega Fríða Magga sem var að afgreiða. Það var ekki mikið úrval en það var tilboð á jólabjór, 3 fyrir 2 og mér líst vel á það. Sem ég ætla að fara að hefja máls á því þá átta ég mig á því að ég hef fengið mér tyggjó. Dálítið mikið tyggjó að því er virðist, mér datt í hug það gæti verið heill pakki af hubba bubba - mér var lífsins ómögulegt að koma upp orði og fann meira að segja fyrir köfnunartilfinningu. Ég vék mér til hliðar og var að rekja einhverja risa tyggjóslummu útúr mér, reyndi að láta eins lítið á því bera og mögulegt var. Það virtist takast og ég fór aftur að lúgunni til að panta bjórinn. Þá var tungan á mér ennþá öll dofin og lét illa að stjórn. Klippt, næsta atriði.

Ég og Nökkvi erum allt í einu að labba suður Hafnarbrautina og mér finnst eins og við séum að fara heim til ömmu - Hafnarbraut 10. Hún er ennþá dáin og ég eitthvað að velta fyrir mér að eignast húsið en viðhald og fleira að vefjast fyrir mér.
Nökkvi bendir skyndilega niður að höfn, þar sem er búið að skipta út gömlu ljósunum sem blikkuðu á sitthvorum hafnargarðinum, annað rautt og hitt grænt, fyrir lasergeisla. Hann segir mér að það kosti 15 þúsund krónur á klukkustund að knýja þá og mér finnst það bruðl en skilst að Sparisjóðurinn borgi.

Við komum að Ýli/Sæluhúsinu og þar er opinn holræsisbrunnur. Við staðnæmumst og ég kíki ofan í. Þarna opnast ansi víð göng sem liggja eins og í sveig í átt til sjávar og ég sé ekki fyrir endann á þeim. Þau eru flísalögð með gulum flísum og op inn í hliðargöng eru á víð og dreif. Ég sé einhver dýr eða verur eða álíka, kom því ekki fyrir mig í draumnum, skjótast um - út úr einu opi og inn í annað.
Ég sný mér til Nökkva og segi með leikrænum tilburðum eitthvað á þá leið að sumir hlutir eiga að vera lokaðir og faldir. Við setjum því næst lokið á brunninn, eitthvað fleira drasl ofan á það og ég sópa síðan snjó yfir allt saman með fótunum.
THE END...

Thursday, January 21, 2010

Ekki alveg gefins


Nú skal taka sér tak og fara að hreyfa sig aftur, slíkt hefur alveg legið í dvala síðan ég flutti. Það er ekki svo einfalt að maður reimi á sig skó og hlaupi út um dyrnar; þegar 30-40 stiga hiti tekur á móti þá fer meðal íslendingurinn ekkert óskaplega langt. Persónulega þá á ég ennþá fullt í fangi með að vera á lallinu útivið lengur en klukkutíma í senn og því til viðbótar þá er hnéið á mér ekki í hlaupastandi.

Heimsótti þess vegna líkamsræktarstöð hvar tengdó kennir hugleiðslu. Sú er í göngufæri, rétt um 10 mínútna röskur gangur og þegar komið var í hús reyndist allavega eitt lykilatriði í góðu lagi, blessuð loftkælingin. Að öðru leyti var þetta svo og svo, ég fór í hugleiðslutíma tengdó og sá fór fram í mjög litlum sal en þó bara nokkuð notalegum. Síðan tókum við rúnt og skoðuðum tæki og annað og við getum sagt sem svo að þarna sé nokkurn vegin allt til alls. Hins vegar er sumt orðið ansi lúið og tvímælalaust skref niðurávið þegar maður hefur látið sig hafa það að splæsa í World Class.

Tengdó bauðst til að bjarga mér um afslátt og ég auðvitað fúlsaði ekki við því en kellingin sem sér um batteríið var ekki við þann daginn. Við gerðum okkur þess vegna ferð í morgun skötuhjúin og hittum á dömuna sem bauð 50% afslátt. Hljómaði barasta helvíti vel og talan sem ég þóttist heyra hana segja sömuleiðis. En þar kom tungumálamisferlið í ljós, eða hrein og klár óskhyggja af minni hálfu kannski ;)
Ég heyrði hana segja 45 reais en þá var það víst 145 + 12 í skráningargjald... Á gengi dagsins gerir það um $88 sem eru eins og 11 þúsund af okkar ónýtu krónum. Þetta er fyrir mánuð, svo það sé á hreinu, og svo öllu sé haldið til haga þá borga ég skráningargjaldið bara einu sinni...en árið gerir þá s.s. 120 þúsund kall.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Ríó kemur mér rækilega á óvart með kaup á vörum eða þjónustu. Einhver rök má færa fyrir því að stöðin er í góðu hverfi og svo framvegis en það breytir því ekki að það verður að finna aðrar leiðir til að slást við kólesterólið!

Saturday, January 16, 2010

Mr. T-bolur


Ef maður hefði nú einhvern tíma tekið sig til og gert tæmandi lista yfir alla þá kosti sem prýða eiga góða konu - og þá meina ég ALLA - þá hefði hæfileikinn til að prenta á t-boli eflaust komið við sögu :)

Listinn hefur ekki verið gerður og verður aldrei gerður en viti menn, ég er búinn að eignast konu sem getur hannað og prentað á t-boli handa mér! Hvílíkt undur.

Þessi beið eftir mér þegar ég flutti yfir. Eftir að ég horfði á stórmerkilega heimildamynd um menn sem sofa hjá dúkkum þá fann ég ennþá merkilegra línurit sem útskýrði á grafískan hátt hvers vegna mér hryllir við tilhugsuninni. Ég þjáist af því sem kallast 'uncanny valley syndrome'. Þeir sem vilja fræðast geta flett upp á wikipedia, ég læt nægja að smella með mynd af bolnum góða.

Monday, January 11, 2010

Grumari, eða næstum því


Vöknuðum snemma, að okkur fannst, á laugardagsmorgni og rifum okkur á ströndina. Vekjarinn hringdi uppúr 8 og tengdó og stjúpa voru mætt að pikka okkur upp rétt fyrir kl. 9. Við tökum allajafna strætó til að fara á ströndina en hún heldur sérstaklega upp á strönd sem kallast Grumari og þangað er um 45 mínútna akstur í bíl. Við búum náttúrulega ekki svo vel að eiga slíkt tæki en eigum aftur á móti góða að.

Við keyrðum með strandlengjunni í suður en á endanum fórum við ekki til Grumari, það var komið upp skilti þar sem tilkynnt var að vegurinn væri lokaður - ströndin orðin stappfull. En við fórum þá bara á næstu strönd og ég sá ekki að það munaði svo miklu, en er líkast til langt því frá sérfræðingur í þessum efnum.

Sem ég baðaði mig í geislum sólarinnar á stuttbuxunum einum fata, og klukkan rétt orðin 10 að morgni, þá byrjaði hugurinn dálítið að reika. Þær fréttir sem ég fæ að heima og úr Evrópu eru mestmegnis af veðri sem er svo fjarri því sem ég bý við hér að þessar fregnir gætu allt eins verið frá annarri plánetu.
Á sama tíma gat ég ekki annað prísað mig sælan með að þó svo ég sé á ókunnum og fjarlægum slóðum, þá er ég samt umkringdur fólki sem ber hag minn fyrir brjósti. Ana passaði að ég setti á mig sólarvörn, stjúpan skipaði mér undir sólhlíf og tengdó fór með mér í sjóinn, brýndi fyrir mér að fara varlega og sagði mér til með hvernig væri best að lesa öldurnar, sem voru í miklum ham þennan daginn.

Það mátti sjá mikið af spýtnarusli og braki sem var að skola upp á ströndina og tengdó leiddi að því líkur að þetta væri úr hótelinu sem varð aurskriðu að bráð á gamlárskvöld. Þau feðginin gengu síðan fram á hluta úr rúmstæði og einmana hvítan skó sem líklegast rennir styrkari stoðum undir þessa kenningu. Ég sat bara á sandinum í minni litlu sápukúlu og hugsaði um hvað þetta er allt saman miklum tilviljunum háð, milli þess sem ég gluggaði í Dagbók frá Diafani eftir Jökul Jakobsson. Enginn bömmer í gangi, eiginlega meira þakklæti og gleði yfir því sem maður hefur og á. Það er svo auðvelt að gleyma því á stundum.

Thursday, January 7, 2010

The Martian Chronicles e. Ray Bradbury


Önnur bók sem hún rétti mér og ég svo gott sem hrifsaði til mín. Hef áður lesið mjög gott smásagnasafn eftir þennan gaur og líkaði vel. Hér er þungamiðjan Mars og mannkynið s.s. farið að fljúga þangað yfir í leit að nýju lífi og ævintýrum.

Þetta er fyrst prentað 1950 og eldist á heildina litið alveg merkilega vel. Enda er ekki verið að einblína á tækniatriði, þó svo að vissulega séu ýmsar magnaðar hugmyndir settar fram í þeirri deild. Það sem ber safnið uppi er hins vegar frásagnargáfa og hugmyndaauðgi sem skilar sér í skemmtilegum sögum sem tendruðu vel upp í mínu ímyndunarafli.

Sem ég var að strauja í gegnum þetta þá vakti ein sagan upp minningar frá geimmynd sem ég og Svenni horfðum á í Dalvíkurbíó fyrir eins og 25 árum - Destination Moonbase-Alpha. Hann mundi síðan eftir annarri geimmynd þegar ég ráðfærði mig við hann, Mission Mars, við horfðum á hana í Hafnarbrautinni á Beta tækinu hennar ömmu.
Heillandi efniviður geimurinn og endalaus uppspretta hugmynda, jafnt fyrir rithöfunda sem strákhvolpa.

Tuesday, January 5, 2010

Last.fm: ncrln81 shared Something To Look Forward To by Spoon


Þetta er í efrimörkum míns væmnisþols, en ég læt þetta flakka enda ágætt til áminningar að skjalfesta svona lagað. Vorum að fatta að við eigum 'afmæli' í dag.
5. janúar 2009 þá mælti Ana með laginu sem ég nafngreini í titli færslunnar. Skrítið, ári síðar þá sit ég við hliðina á henni - eins og 10 þúsund kílómetra í burtu frá heimalandinu...Það ferðalag byrjaði á mjög svo sakleysislegu skrefi.

Jæja...


Nú verður maður að fara að vakna af dvalanum, síðasti dagurinn hennar í fríi er í dag og þá skulum við segja að eins sé farið með mig. Við höfum að megninu til legið í leti síðan við komum heim frá Sao Paulo, þar sem að við náðum eiginlega ekki að taka út jólaleti í stífu prógrammi tengdu þeirri ferð.

Áramótin voru eftirminnileg, vægast sagt. Við fylgdum hefðinni, klæddumst hvítu og fórum niður á Copacabana að horfa á flugeldasýninguna. Endalaust af fólki og meirihlutinn klæddur í ljósan fatnað, sem setur sterkan svip þegar svona mannfjöldi kemur saman. Mér var sagt að þetta yrðu um 2 milljónir en síðan segir í myndbandi sem ég ætla að reyna að hengja við þessa færslu að þær hafi verið tvær og hálf, gildir einu.

Þetta fór allt vel fram nema að ég var rændur farsímanum. Ég hef farið nokkuð víða og verið í fjarlægum deildum jarðar, eins og Megas sagði, en aldrei verið rændur áður. Eftir á að hyggja þá veit ég nákvæmlega hvar þetta átti sér stað. Við vorum á leið í gegnum hálfgerðan tappa í mannhafinu og ég fann hvernig einhver þrýstist þétt upp að síðunni á mér og alveg niður eftir lærinu. Þótti það óþægilegt en hugsaði sem svo að við kæmumst áfram fyrr en varði, sem og gerðist en ég var símanum blankari.

Enginn stórskaði þó hann hafi reynst mér vel í á þriðja ár. Slæmt að missa öll símanúmerin og eins myndavélina sem hefur lagt til flestar myndirnar sem prýða þetta mikla blogg. En um leið hugleiddi ég talsvert að leggja farsímanum alveg þegar ég flutti og nú held ég að það verði raunin í bili.

Að öðru leyti var kvöldið hin ágætasta skemmtun, ég ákvað að velta mér ekkert uppúr þessum símaleiðindum - enda bara dauður hlutur þegar öllu er á botninn hvolft. Flugeldasýningin var frábær og eftir hana kíktum við í snarl til vinkonu hennar sem býr skammt frá. Sú vildi draga okkur með sér í eitthvað partý en okkur skorti bæði nennu og það var úr að við lögðum af stað heim að ganga 3. Ég kveið aðeins heimferðinni því ég þóttist vita að við yrðum ekki ein á ferðinni. Þetta var á endanum dálítið kaos en lögreglan hins vegar mjög sýnileg og ekkert vesen. Við löbbuðum ásamt talsverðum hópi gegnum bílagöng til að sleppa úr öngþveitinu og Ana hélt slíku dauðahaldi í mig að mér hætti alveg að standa á sama. En það var ljós fyrir enda ganganna, eða nánar tiltekið strætisvagn, og við vorum sátt og sæl þegar við komumst í bólið í fyrsta skipti á nýju ári :)

E.s. Áramótin á youtube: http://www.youtube.com/watch?v=x5gfIGmWnVw