Tuesday, January 5, 2010

Jæja...


Nú verður maður að fara að vakna af dvalanum, síðasti dagurinn hennar í fríi er í dag og þá skulum við segja að eins sé farið með mig. Við höfum að megninu til legið í leti síðan við komum heim frá Sao Paulo, þar sem að við náðum eiginlega ekki að taka út jólaleti í stífu prógrammi tengdu þeirri ferð.

Áramótin voru eftirminnileg, vægast sagt. Við fylgdum hefðinni, klæddumst hvítu og fórum niður á Copacabana að horfa á flugeldasýninguna. Endalaust af fólki og meirihlutinn klæddur í ljósan fatnað, sem setur sterkan svip þegar svona mannfjöldi kemur saman. Mér var sagt að þetta yrðu um 2 milljónir en síðan segir í myndbandi sem ég ætla að reyna að hengja við þessa færslu að þær hafi verið tvær og hálf, gildir einu.

Þetta fór allt vel fram nema að ég var rændur farsímanum. Ég hef farið nokkuð víða og verið í fjarlægum deildum jarðar, eins og Megas sagði, en aldrei verið rændur áður. Eftir á að hyggja þá veit ég nákvæmlega hvar þetta átti sér stað. Við vorum á leið í gegnum hálfgerðan tappa í mannhafinu og ég fann hvernig einhver þrýstist þétt upp að síðunni á mér og alveg niður eftir lærinu. Þótti það óþægilegt en hugsaði sem svo að við kæmumst áfram fyrr en varði, sem og gerðist en ég var símanum blankari.

Enginn stórskaði þó hann hafi reynst mér vel í á þriðja ár. Slæmt að missa öll símanúmerin og eins myndavélina sem hefur lagt til flestar myndirnar sem prýða þetta mikla blogg. En um leið hugleiddi ég talsvert að leggja farsímanum alveg þegar ég flutti og nú held ég að það verði raunin í bili.

Að öðru leyti var kvöldið hin ágætasta skemmtun, ég ákvað að velta mér ekkert uppúr þessum símaleiðindum - enda bara dauður hlutur þegar öllu er á botninn hvolft. Flugeldasýningin var frábær og eftir hana kíktum við í snarl til vinkonu hennar sem býr skammt frá. Sú vildi draga okkur með sér í eitthvað partý en okkur skorti bæði nennu og það var úr að við lögðum af stað heim að ganga 3. Ég kveið aðeins heimferðinni því ég þóttist vita að við yrðum ekki ein á ferðinni. Þetta var á endanum dálítið kaos en lögreglan hins vegar mjög sýnileg og ekkert vesen. Við löbbuðum ásamt talsverðum hópi gegnum bílagöng til að sleppa úr öngþveitinu og Ana hélt slíku dauðahaldi í mig að mér hætti alveg að standa á sama. En það var ljós fyrir enda ganganna, eða nánar tiltekið strætisvagn, og við vorum sátt og sæl þegar við komumst í bólið í fyrsta skipti á nýju ári :)

E.s. Áramótin á youtube: http://www.youtube.com/watch?v=x5gfIGmWnVw

No comments:

Post a Comment