Monday, January 11, 2010

Grumari, eða næstum því


Vöknuðum snemma, að okkur fannst, á laugardagsmorgni og rifum okkur á ströndina. Vekjarinn hringdi uppúr 8 og tengdó og stjúpa voru mætt að pikka okkur upp rétt fyrir kl. 9. Við tökum allajafna strætó til að fara á ströndina en hún heldur sérstaklega upp á strönd sem kallast Grumari og þangað er um 45 mínútna akstur í bíl. Við búum náttúrulega ekki svo vel að eiga slíkt tæki en eigum aftur á móti góða að.

Við keyrðum með strandlengjunni í suður en á endanum fórum við ekki til Grumari, það var komið upp skilti þar sem tilkynnt var að vegurinn væri lokaður - ströndin orðin stappfull. En við fórum þá bara á næstu strönd og ég sá ekki að það munaði svo miklu, en er líkast til langt því frá sérfræðingur í þessum efnum.

Sem ég baðaði mig í geislum sólarinnar á stuttbuxunum einum fata, og klukkan rétt orðin 10 að morgni, þá byrjaði hugurinn dálítið að reika. Þær fréttir sem ég fæ að heima og úr Evrópu eru mestmegnis af veðri sem er svo fjarri því sem ég bý við hér að þessar fregnir gætu allt eins verið frá annarri plánetu.
Á sama tíma gat ég ekki annað prísað mig sælan með að þó svo ég sé á ókunnum og fjarlægum slóðum, þá er ég samt umkringdur fólki sem ber hag minn fyrir brjósti. Ana passaði að ég setti á mig sólarvörn, stjúpan skipaði mér undir sólhlíf og tengdó fór með mér í sjóinn, brýndi fyrir mér að fara varlega og sagði mér til með hvernig væri best að lesa öldurnar, sem voru í miklum ham þennan daginn.

Það mátti sjá mikið af spýtnarusli og braki sem var að skola upp á ströndina og tengdó leiddi að því líkur að þetta væri úr hótelinu sem varð aurskriðu að bráð á gamlárskvöld. Þau feðginin gengu síðan fram á hluta úr rúmstæði og einmana hvítan skó sem líklegast rennir styrkari stoðum undir þessa kenningu. Ég sat bara á sandinum í minni litlu sápukúlu og hugsaði um hvað þetta er allt saman miklum tilviljunum háð, milli þess sem ég gluggaði í Dagbók frá Diafani eftir Jökul Jakobsson. Enginn bömmer í gangi, eiginlega meira þakklæti og gleði yfir því sem maður hefur og á. Það er svo auðvelt að gleyma því á stundum.

No comments:

Post a Comment