Sunday, January 24, 2010

Where the wild things are


Skelltum okkur í kvikmyndahús í vikunni og sáum þessa ansi hreint mögnuðu mynd. Þekktur indie kappi tók fyrir samnefnda barnabók og færði yfir á hvíta tjaldið. Persónulega man ég ekki til þess að hafa lesið þessa bók sem barn en það má vel vera að það sé bara fallið í gleymskunnar dá. Hún virðist í það minnsta til á íslensku, kallast Óli og ófreskjurnar.

Söguhetjan rífst heiftarlega við systur sína og móður og hleypst í kjölfarið að heiman. Hann býr til ímyndaða veröld þar sem hann hittir fyrir risavaxnar verur sem allar eiga sér stoð í hans veruleika; standa fyrir móður hans, systur, hann sjálfan og fleiri. Myndin er dálítið dimm, líklega myndu margir kalla þetta barnamynd fyrir fullorðna og sem slík virkaði hún afskaplega vel fyrir mig og hrærði upp allskyns minningum.

Því var alveg gjörsamlega stolið úr mér að ég sá fyrir langa löngu ekki önnur úrræði en fara að heiman. Ég á erfitt með að staðsetja þetta í tíma, við bjuggum í Sunnubrautinni og mér finnst ég hafi verið 8-9 ára gamall. Það var eitthvað vesen heima, rifrildi og tilheyrandi og ég var alveg endalaust reiður yfir því óréttlæti sem ég þóttist beittur. Reiðin beindist fyrst og fremst að mömmu og ég settist niður og skrifaði henni bréf og útskýrði ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun minni að fara að heiman. Bréfið lagði ég á rúmið hennar þegar ég hafði búið mig til ferðar. Man nú ekki mikið eftir útbúnaði nema jú að ég átti boga úr einangrunarröri og 1-2 örvar, það var tekið með.

Sem ég gekk út götuna þá rann upp fyrir mér að ég hafði kannski ekki hugsað dæmið alveg til enda en þó beygði ég upp Mímisveg og ég man að ég fór upp á Stórhól og eitthvað lengra. Reiðin rann jafnt og þétt af mér með hverju skrefinu og ráðleysið tók jafnt og þétt við. Skal ekki fullyrða um það hvað ég entist lengi í útlegðinni en það allavega tók enginn neitt sérstaklega eftir því þegar ég snéri heim aftur - líklega vegna þess að þau höfðu varla merkt það að ég færi farinn. En bréfið var hins vegar horfið af rúminu...

Á þeim árum var manni gjarnan rétt veskið hennar mömmu þegar ég var sendur í búð og í veskinu var þá líka með miði með því sem 'maður átti að fá'. Í einhverri ferðinni uppgötvaði ég að bréfið góða var í veskinu og það olli mér talsverðu hugarangri. Fyrir mér stóð þessi bréfsneypa sem sönnunargagn um gjörsamlega misheppnaða framkvæmd sem ég vildi fyrst og fremst gleyma. Það varð því úr að í einni ferðinni niður í Kjörbúð var bréfinu eytt, rifið í tætlur og hent í ruslið. Bjarmi var með í för og ég tók af honum loforð um halda kjafti um þennan verknað og ég veit ekki annað en hann hafi haldið það. Í það minnsta hefur mamma aldrei, hvorki fyrr né síðar, minnst orði á þetta bréf. En mikið óskaplega væri ég til í að lesa það í dag...

No comments:

Post a Comment