Thursday, January 21, 2010

Ekki alveg gefins


Nú skal taka sér tak og fara að hreyfa sig aftur, slíkt hefur alveg legið í dvala síðan ég flutti. Það er ekki svo einfalt að maður reimi á sig skó og hlaupi út um dyrnar; þegar 30-40 stiga hiti tekur á móti þá fer meðal íslendingurinn ekkert óskaplega langt. Persónulega þá á ég ennþá fullt í fangi með að vera á lallinu útivið lengur en klukkutíma í senn og því til viðbótar þá er hnéið á mér ekki í hlaupastandi.

Heimsótti þess vegna líkamsræktarstöð hvar tengdó kennir hugleiðslu. Sú er í göngufæri, rétt um 10 mínútna röskur gangur og þegar komið var í hús reyndist allavega eitt lykilatriði í góðu lagi, blessuð loftkælingin. Að öðru leyti var þetta svo og svo, ég fór í hugleiðslutíma tengdó og sá fór fram í mjög litlum sal en þó bara nokkuð notalegum. Síðan tókum við rúnt og skoðuðum tæki og annað og við getum sagt sem svo að þarna sé nokkurn vegin allt til alls. Hins vegar er sumt orðið ansi lúið og tvímælalaust skref niðurávið þegar maður hefur látið sig hafa það að splæsa í World Class.

Tengdó bauðst til að bjarga mér um afslátt og ég auðvitað fúlsaði ekki við því en kellingin sem sér um batteríið var ekki við þann daginn. Við gerðum okkur þess vegna ferð í morgun skötuhjúin og hittum á dömuna sem bauð 50% afslátt. Hljómaði barasta helvíti vel og talan sem ég þóttist heyra hana segja sömuleiðis. En þar kom tungumálamisferlið í ljós, eða hrein og klár óskhyggja af minni hálfu kannski ;)
Ég heyrði hana segja 45 reais en þá var það víst 145 + 12 í skráningargjald... Á gengi dagsins gerir það um $88 sem eru eins og 11 þúsund af okkar ónýtu krónum. Þetta er fyrir mánuð, svo það sé á hreinu, og svo öllu sé haldið til haga þá borga ég skráningargjaldið bara einu sinni...en árið gerir þá s.s. 120 þúsund kall.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Ríó kemur mér rækilega á óvart með kaup á vörum eða þjónustu. Einhver rök má færa fyrir því að stöðin er í góðu hverfi og svo framvegis en það breytir því ekki að það verður að finna aðrar leiðir til að slást við kólesterólið!

No comments:

Post a Comment