Friday, January 22, 2010

Draumfarir...


Var í útlöndum, einhverstaðar á Bretlandseyjum og Baldvin með mér og vinir okkar frá Edinborg - Malcom og Alasdair. Fyrst í stað fannst mér við vera á hóteli en man lítið hvað við vorum að gera þar. Síðan umbreytist allt og við erum í einbýlishúsi og það er verið að raða mönnum á herbergi til svefns. Einhver yfirtók herbergi sem ég hafði augastað á, þannig að ég ákvað að sofa í tjaldi úti í garði. Þegar ég kom út þá fór ég að hafa áhyggjur af búnaði sem ég hafði með mér, vildi ekki hafa það dót útivið yfir nóttina ef ske kynni því yrði stolið. Man að ég var með gítarmagnara og gítar + eitthvað fleira og held ég hafi komið því í hús.

Klippt og það er eins og ég sé búinn að sofa, ég er að ganga frá húsinu og fannst eins og ég væri í London. Það var komið kvöld, milt veður og fallegt. Hverfið var allt gróið og flott og húsið minnti mig á íslensk einbýlishús. Gunnlaugur Lárusson var að labba með mér og sem ég góndi upp í himininn og dáðist að stjörnunum þá spurði ég hvað væri nú hægt að gera skemmtilegt í London á miðvikudagskvöldi. 'Miðvikudagskvöldi?' Étur Gulli upp eftir mér, 'það er fimmtudagskvöld, þú svafst í meira en 24 tíma.' Hann horfði á mig með undarlegu glotti og ég var ekki viss hvort hann væri að hræra í mér, þannig að ég fiska farsímann uppúr vasanum til að skoða dagsetninguna. Þá erum við skyndilega að labba Asnastíginn heima á Dalvík, að koma að horninu á Asnastíg og Hafnarbraut.

Skyndilega rennur upp fyrir mér að ég er með farsímann sem var stolið af mér um áramótin (staðreynd) og ég þykist fatta hvað er á seyði. Ég segi Gulla að það passi ekki að ég geti verið með símann, þetta hljóti að vera draumur. Hann vill ekki bekena það. Þá tek ég sígarettuna sem hann er að reykja og tek í handlegginn á honum, munda mig til að brenna hann. Hvað gerist ef ég geri þetta? 'Ef þetta er ekki draumur þá meiði ég mig rosalega' svarar hann. Þetta einhvern veginn endar þar og við beygjum inn að Shellinu.

Þar sunnan við sjoppuna er búið að stilla upp 2-3 borðum og eitthvað fólk sem ég man ekki deili á bíður okkur sæti, hvort við viljum ekki fá okkur bjór með þeim. Við þiggjum það og ætlum inn í Shellið, sem selur þá bjór. Við erum að fara inn um 'aðaldyrnar' en þá kallar einhver að þeir selji ekki bjórinn þar. Við löbbum áfram meðfram húsinu, í átt að dyrunum að bensínafgreiðslunni. Á leiðinni sé ég að það er komin lúga á hina langhliðina og þar út er bjórinn afgreiddur og ekkert annað, þetta er bjórlúga.

Við komum að lúgunni og það var ábyggilega Fríða Magga sem var að afgreiða. Það var ekki mikið úrval en það var tilboð á jólabjór, 3 fyrir 2 og mér líst vel á það. Sem ég ætla að fara að hefja máls á því þá átta ég mig á því að ég hef fengið mér tyggjó. Dálítið mikið tyggjó að því er virðist, mér datt í hug það gæti verið heill pakki af hubba bubba - mér var lífsins ómögulegt að koma upp orði og fann meira að segja fyrir köfnunartilfinningu. Ég vék mér til hliðar og var að rekja einhverja risa tyggjóslummu útúr mér, reyndi að láta eins lítið á því bera og mögulegt var. Það virtist takast og ég fór aftur að lúgunni til að panta bjórinn. Þá var tungan á mér ennþá öll dofin og lét illa að stjórn. Klippt, næsta atriði.

Ég og Nökkvi erum allt í einu að labba suður Hafnarbrautina og mér finnst eins og við séum að fara heim til ömmu - Hafnarbraut 10. Hún er ennþá dáin og ég eitthvað að velta fyrir mér að eignast húsið en viðhald og fleira að vefjast fyrir mér.
Nökkvi bendir skyndilega niður að höfn, þar sem er búið að skipta út gömlu ljósunum sem blikkuðu á sitthvorum hafnargarðinum, annað rautt og hitt grænt, fyrir lasergeisla. Hann segir mér að það kosti 15 þúsund krónur á klukkustund að knýja þá og mér finnst það bruðl en skilst að Sparisjóðurinn borgi.

Við komum að Ýli/Sæluhúsinu og þar er opinn holræsisbrunnur. Við staðnæmumst og ég kíki ofan í. Þarna opnast ansi víð göng sem liggja eins og í sveig í átt til sjávar og ég sé ekki fyrir endann á þeim. Þau eru flísalögð með gulum flísum og op inn í hliðargöng eru á víð og dreif. Ég sé einhver dýr eða verur eða álíka, kom því ekki fyrir mig í draumnum, skjótast um - út úr einu opi og inn í annað.
Ég sný mér til Nökkva og segi með leikrænum tilburðum eitthvað á þá leið að sumir hlutir eiga að vera lokaðir og faldir. Við setjum því næst lokið á brunninn, eitthvað fleira drasl ofan á það og ég sópa síðan snjó yfir allt saman með fótunum.
THE END...

1 comment:

  1. Hann verður ekki hvorki krufinn eða þulin hér draumurinn minn en ég get þó látið það flakka að ég stóð sunnan við Shellið þegar að ég heyrði þessi líka viðurstyggilegu öskur frá höfninni, þá var þar mættur Foringinn úr neðra í líki flugeðlu af ljótu sortinni (hugsanlega hans rétta útlit).
    Í stuttu máli,.. bardagi við Kölska og ég vann, og hvernig fór ég að því? Jú ég var Jesús.

    Þetta verður að teljast nokkuð sérstakt sér í lagi þar sem að þetta er mér ekkert sérstaklega ofarlega í huga þó ávinningurinn sé augljós þ.e.a.s. fyrir hann að líkjast mér.
    Kv.JT

    ReplyDelete