Monday, December 31, 2012

2013 byrjar í Brasilíu

Maður missir allan sans fyrir dagatalinu og árstíðum þegar sólin skín svona miskunnarlaust alla daga vikunnar. Verandi Íslendingur og búsettur þar mestan part ævinnar þá eru jól og áramót rækilega merkt af nánasta umhverfi; jólaseríum, fannfergi og allskyns hefðum og venjum sem tengjast þessum hátíðahöldum.

Þegar dvalið er í öðru landi fer allt á hvolf og ekki bara sakir veðursins, hefðir eru af mjög svo skornum skammti og ekki laust við að ég sakni ýmissa hluta sem ég á að venjast.

En kringum áramótin gengur mikið á og hér er hefðin sú að allir klæðast hvítu við þessi tímamót. Þetta setur mjög svo skemmtilegan svip á allt saman og hittir í mark hjá mér. Sumir ganga skrefinu lengra og kasta blómum í hafið og biðla til einhvers sjávarguðs sem ég kann ekki að nefna. Þetta er komið frá Afríkumönnum sem voru fluttir hingað yfir í stórum stíl forðum að þræla við námagröft og annað þesslegt.


Sem blómunum er kastað þá getur viðkomandi óskað sér og heitir á sjávarguðinn með að óskin rætist. Litur blómanna ku valinn með tilliti til þess undir hvað óskin fellur, rauður fyrir hjartans mál, hvítur fyrir hamingju og svo framvegis.
Eitthvað krúttlegt við þetta og engu vitlausara en margt það sem viðgengst í trúmálum heimsins.

Talandi um námagröft þá leggjum við í ferðalag með karli föður hennar þann 3. janúar og ætlum að keyra yfir í næsta fylki, Minas Gerais. Þar eru mestu námasvæði Brasilíu og Portúgalir og seinna heimamenn sjálfir búnir að moka upp gríðarlegum auðævum í allskyns góðmálmum og gimsteinum á þessu svæði. Portúgalir byggðu fallegar nýlenduborgir þarna sem við ætlum að þræða og eins er ég sífellt að bragða hitt og þetta matarkyns sem reynist vera frá Minas og ljóst að við sveltum ekki.

2013 leggst þannig séð ágætlega í mig. Gæti auðvitað velt mér uppúr því hve tíminn virðist fjúka frá manni en reyni að týna mér ekki í slíkum vangaveltum. Á komandi ári fylli ég 4 tugi og finnst það óneitanlega undarleg tilhugsun - verð ég loksins fullorðinn um miðjan júní?

Nú þegar er búið að raða hinu og þessu skemmtilegu inná dagatalið fyrir 2013 og ljóst að það verður nóg við að vera og við munum ferðast talsvert, bæði tengt leik og starfi. Ég stóð mig að því að sakna þess hve ég hef lítið sinnt 'listrænni sköpun' (úfff) og hef sett mér og nokkrum öðrum ákveðna áskorun í þeim efnum, vona að vel verði tekið í það allt saman.

Nú er líklega tímabært að yfirgefa kaldan faðm loftkælikassans á skrifstofu Alcio og skunda heim, smella sér í hvítan bol og athuga hvort við fáum inni á e-h veitingastað. Svo er það flugeldasýningin sem við ætlum að horfa á við vatnið (lagoa) og svo verður restin tekin eftir eyranu.

1 comment:

  1. Gleðilegt nýtt ár elsku hjón :* Söknum ykkar hér á Akureyrinni :)

    KV
    Klara

    ReplyDelete