Monday, January 28, 2013

Bækur lesnar yfir jól -> janúar 2012/2013


Það er líklega ekki seinna vænna en að hlaða inn á tölvutæka minjasafnið, svona rétt áður en þetta gufar allt saman upp.

Ég var staðráðinn í að kúpla mig frá þungum bókmenntum og lesningu tengdri minni vinnu og stóð rækilega við það, auk þess að ná að lesa alveg helling.

1. On Chesil Beach e. Ian McEwan

Því fer fjarri að söguþráðurinn heltaki mann þegar rennt er yfir bakið á þessari. En þessi náungi fer svo listavel með stílvopnið að eftir nokkrar síður var erfitt að leggja hana frá sér. Sögusviðið er England rétt fyrir 1960 og þrátt fyrir að það virðist óralangt í burtu og mér með öllu ótengt þá þori ég að fullyrða að allir geta lesið þessa sögu og samsamað sig eða tekið til sín eitthvað úr bókinni.

2. No Country For Old Men e. Cormac McCarthy

The Road eftir sama höfund heltók mig alveg og áður hafði ég séð hina frábæru kvikmynd Cohen bræðra eftir þessari skræðu. Mér fannst eins og litlu væri við bætandi en sakir skorts á lesefni þá greip ég þessa úr safni Carolinu. Eins og gengur þá gefur bókin meiri innsýn í hvern karakter og þetta var unaðsleg lesning, sem auk þess staðfesti að bræðurnir skiluðu efninu gríðarvel frá sér yfir á kvikmyndaformið.

3-4 Cosmopolis e. Don DeLillo

Var forvitinn um kvikmynd Cronenberg eftir þessari, þrátt fyrir vafasamt val á aðalleikara. Held ég sé ekki forvitinn lengur... Fer frábærlega af stað, sogar mann inn um leið og stíllinn flottur - minnir á Bret Easton Ellis og J.G. Ballard - en jafnt og þétt þá fjarar þetta út og ég lagði hana frá mér með 'bleh' hljóði þegar ég hafði tvílesið síðustu síðuna.

3-4 Nemesis e. Jo Nesbo

Hef hunsað þennan norska frænda eins og svo margar af þessum nútímahetjum reyfaramenningarinnar. En við sáum nýskeð norska mynd byggða á bók eftir hann, Manhunters ef ég man rétt, og höfðum bara gaman af. Þannig að ég greip þessa í búð hér í Ríó þegar Ana var á leið í tíma hjá næringarfræðingi og ég sá fram á sitja auðum höndum um stund. Dugði vel til að drepa tímann en heilt yfir situr lítið eftir; snúningar fram og tilbaka í tilraun til að dýpka fléttu sem er ekki nógu merkileg til að byrja með. Betra en Arnaldur samt :)

e.s. Á myndina / listann vantar Maximum Bob e. Elmore Leonard en það skiptir ekki miklu máli, sú færi aldrei að velta þeim tveim efstu. Leonard kann alveg að negla saman reyfara og gerir það án þessa harðlífisrembings sem til dæmis Nesbo bókin þjáist af.

Síðan er ég að byrja á bók eftir Japanskan gaur sem ber eftirnafnið Murakami en heitir ekki Haruki...nenni ekki inní herbergi að tékka á nafninu, Irene er að laga þar til. Allavega, sögusviðið er Tokyo og hetjan þénar peninga með því að leiða túrista um klámklúbba borgarinnar. Fer vel af stað.

No comments:

Post a Comment