Tuesday, May 11, 2010

Enskt vor

Sit hér og sýg upp í nefið, hálf kaldhæðnislegt að íslendingurinn skuli vera kvefaður en ekki sú brasilíska. Við erum í það minnsta samstíga í því að finnast heldur kuldalegt hér bretlandsmegin eftir þetta líka fína vorveður fyrstu dagana. Í nótt fór víst niður fyrir frostmark og maður fann alveg fyrir því hvað einangrun er lítil í þessu húsi sem við höldum til í.

Í fyrradag tókum við okkur til með litlum fyrirvara og ókum til Bradford og fórum á tónleika með hljómsveitinni Doves. Frumkvæðið var alfarið hennar en ég er búinn að fylgjast með þessari sveit frá upphafi, held það séu að verða 10 ár. Það rann upp fyrir mér á tónleikunum hvað tónlistin þeirra hefur spilað stóra rullu á köflum í mínu lífi - sumt kann ég algjörlega utanaf.
Skemmtileg ferð og Bradford snotur borg.

Á fimmtudaginn förum við svo til London og verðum fram á mánudag. Þar stendur til að hitta skólafélaga, skoða söfn og þar fram eftir götunum. Verður varla mikið mál að stytta sér stundir þarna niðurfrá og blessunarlega þá hefur vinur minn boðist til að skjóta yfir okkur skjólshúsi - mér leist satt best að segja ekkert á verðið á gistingu!

Nú er verið að reka á eftir mér að skrölta út í búð og ná í eitthvað í kvöldmatinn. Maður verður jú að borða, stundum væri ósköp gott að geta sleppt því.

No comments:

Post a Comment