Monday, May 3, 2010

Komin til Doncaster...

...og meira að segja búin að vera í 6 daga! Tíminn s.s. líður síst hægar á Bretlandseyjum :)
Það væsir ekki um okkur þó svo að hitastigið hafi lækkað talsvert nokkrum dögum eftir að við tylltum niður fæti á vorskrýddum Bretlandseyjum. Við fengum úthlutað herbergi á efri hæð á kránni hans Peters og það er meira að segja talsvert stærra en það sem við vorum að yfirgefa. Að auki fylgdi sjónvarp með og mér hefur ekki þótt leiðinlegt að endurnýja kynnin við enskt sjónvarp, síðustu daga höfum við verið allt að því límd yfir snóker - heimsmeistarkeppnin í fullum gangi og úrslitin ráðast á morgun.

Þegar ég segi Doncaster þá er það í raun eins og að segja að við séum í Dalvíkurbyggð. Nánar tiltekið þá erum við á Árskógssandi, eða þorpi sem heitir Harworth og státar af íbúafjölda Akureyrar; c.a. 15 þúsund manns.
Mér telst svo til að þetta sé sjötta heimsókn mín, sú fyrsta var 1997.

Það breytist ýmislegt samhliða búsetunni. Ég er farinn að ganga með farsíma aftur, kostaði heil 4 pund og 95 pens og kortaveskið sem lá alveg á hillunni í Brasilíu er komið aftur í buxnavasa. Það er fínt, Ana sá alfarið um peningamálin hennar megin - ég sá bara um að éta, drekka og þar frameftir - hún æfði korta- og reiðufés vöðvana til skiptis.

Nú er mikið pælt og planað varðandi hvað skuli haft fyrir stafni í frístundum. Nóg af hugmyndum á sveimi en fjármagn til framkvæmda heldur naumara og ég er oftast sá sem reyni að vera raunsær og halda fótunum á jörðinni - hver hefði trúað?
Vikuferð til Glasgow allavega komin á koppinn, þar sem við fáum að gista hjá Ringsted klaninu og væntalega tökum við langa helgi í London fljótlega. Lífið er gott.

No comments:

Post a Comment