Thursday, June 17, 2010

Barcelona


Það tók mig langan tíma að komast til Spánar fyrsta sinni en hafðist á endanum og vonandi verður þetta bara fyrsta ferð af mörgum.
Þeir sem hafa komið til Barcelona halda ekki vatni og ég tilheyri orðið þeim hópi. Að sumu leyti minnir hún mikið á Ríó; Hér er fjalllendi á víð og dreif sem vefast inn í borgarmyndina og trjágróður setur mikinn svip. Arkitektúrinn er líka alveg magnaður, mikið af ótrúlega fallegum byggingum og síðan einstakir hlutir eins og húsin hans Gaudi - sjá kirkjuna hér á myndinni. Frábært dæmi um hvað verður til þegar menn leyfa sér að vera aðeins öðruvísi. Þessi snillingur var víst hæddur þegar hann var að stíga sín fyrstu skref sem arkitekt fyrir um 100 árum en í dag eru verkin hans virt sem gersemar.

Dagarnir líða hratt og við förum heim á morgun - eða s.s. til Englands. Maður veit vart hvað á að kalla 'heim' orðið.
Erum búin að fara víða og sjá margt í bland við að fylgjast með fótboltanum. Heimamenn töpuðu í gær í bragðdaufum leik, við létum okkur hverfa í hálfleik þar sem við töldum tímanum betur varið í annað. Brassarnir allavega unnu sinn leik og það á afmælisdaginn minn.
Það er heldur betur farið að síga á seinni hlutann á þrítugsaldrinum og kannski endar með því að maður þurfi að fara að haga sér eins og fullorðinn maður. En ég merkti enga sérstaka breytingu að morgni þessa afmælisdags, ekki frekar en í hin skiptin sem hann hefur borið upp á.

Sluppum með skrekkinn í gær þegar við vorum á leið upp á hótel með neðanjarðarlestinni. Þegar við vorum nýstigin um borð þá verður mér eitthvað hugsað til kortaveskisins míns. Ég er bara á stuttbuxum hér og þreifaði í vasann þar sem ég vænti þess að veskið væri en greip í tómt. Hjartað tók kipp en veskið var þá í hinum vasanum ásamt myndavélinni. Ana sá að mér brá og ég útskýrði hvað var á seyði.
Nema hvað, við komum á stöðina okkar í þéttpakkaðri lest - svo margt var fólkið að við stóðum ásamt fjölda annarra. Þegar við mjökum okkur að hurðinni stendur þar maður með stóran bakpoka. Hann opnar hurðina en ætlar ekki út, bakkar þess í stað inn í okkur og var dálítið vesen að troðast framhjá honum og út. Mér verður aftur hugsað til veskisins þegar við komum út og í það skiptið er það farið!

Ég kalla í Önu og við hoppum aftur um borð í lestina og mér verður starsýnt á lítinn, illilegan mann sem stendur til vinstri við hurðina sem við gengum út um - þeim megin sem vasinn með veskinu er á stuttbuxunum. Ég hef líklega ekki verið fallegur á svipinn heldur en allt í einu beygir annar sem stendur á bakvið og til hliðar við þann stutta sig niður og réttir mér kortaveskið. Það fór ekkert á milli mála að við vorum að leita að einhverju og sá sem kom auga á veskið fljótur að rétta okkur það.

Við sluppum frá borði áður en lestin lagði af stað og sem við gengum í burtu þá var ekki flókið að leggja dæmið saman. Gaurinn með bakpokann truflar og skapar snertinguna sem villir fyrir á meðan sá stutti fer í vasana. Síðan bruna þeir í burtu með lestinni og eru víðsfjarri þegar fórnarlambið fattar hvað er að ske. Nema í okkar tilfelli þá gekk það ekki upp og þess vegna hefur sá stutti ákveðið að láta veskið frekar detta í gólfið en lenda í veseni.

Við sögðum starfsmanni á stöðinni frá atvikinu og hann tjáði okkur að þetta væri mikið vandamál í lestunum og sagði okkur afar heppin. Ég verð að taka í sama streng en hef mikið verið að furða mig á því hvers vegna mér var svona mikið hugsað til veskisins þarna. Mér dettur helst í hug að kenna ömmu Hrönn um...

No comments:

Post a Comment