Saturday, April 17, 2010

Helstu fréttir

Það má liggur við segja að þær hrannist upp fréttirnar þegar maður er svona eindæma latur við að 'drepa niður penna'. Ísland er búið að vera á forsíðu Globo, stærsta dagblaðsins hér um slóðir, tvo daga í röð, það er ögn skrítið en þó kannski ekki miðað við ósköpin sem ganga á undir jarðskorpunni.

Hvað varðar hræringar ofan jarðskorpunnar; icesave, skýrluna góðu og 'ég gerði ekki neitt rangt' grátkórinn þá hef ég sem minnst lagt mig eftir því að pæla í þeim málum.

Fór í síðustu viku og lét smella krónu yfir handónýtan endajaxl og skundaði glaðbeittur inní helgina. Hittum Manir nokkurn Fadel, náunga sem vinnur hjá TBWA í Sao Paulo og dúkkaði upp á stofunni hjá okkur heima á Íslandi nokkrum vikum fyrir mína brottför til Brazil. Það er búið að standa til að hitta hann nokkurn veginn síðan ég kom út en við höfum verið passasöm og ferð til Sao Paulo ekki sloppið í gegnum fjárlaganefnd. Svo skemmtilega vildi til að hann og hans spússa áttu leið hingað og við náðum að leiða saman hesta. Svo vikið sé aftur að tönninni þá sat ég með þeim og gæddi mér í makindum á Pastel - dúnmjúku brauðhorni fylltu kjöhakki - og átti mér einskis ills von. Þegar ég renni tungu yfir tanngarðinn brá mér þá heldur í brún og ég hrópa 'andskotinn, ég er búinn að éta krónuna!'. Það fyndnasta var þó að Manir sagði á móti: 'Engar áhyggjur, ég hef gert þetta líka.'

Þannig að við fórum aftur til tönnsu og hún tók á móti okkur í bróderuðum sloppi með blúndum og á háu hælunum - held ég bara ánægð að fá okkur aftur. Það er miklu skemmtilegra að fara til tanna í Brasilíu, allavega til hennar Claudiu.
Krónan reyndist brotin og helgaðist líkast til af því að sú sem var smíðuð var helst til há og þurfti að sverfa hana talsvert niður þegar hún var komin í.

Það voru engar vífillengjur, hún hreinlega leiddi mig niður til smiðsins og heimtaði að sú tæki nákvæm mál til að næsta yrði betur úr garði gjörð. Í sömu heimsókn réði hún Carolinu í vinnu og ég mun líklega verða shanghæjaður inní það verk líka til að sinna vefmálum - já og krónan verður sett í á þriðjudaginn! Ekta manneskja þarna á ferð og mér að skapi :)

Vikan annars verið helguð tilfæringum tengdum brottför - ef Katla blessunin blundar áfram þá verðum við í Englandi eftir 9 daga. Amma hennar í föðurætt bauð okkur út að borða í vikunni og gaf okkur farareyri - minni óneitanlega á ömmu Hrönn og ekki bara hvað þetta varðar. En meira af Mariu síðar, hún stendur held ég alveg undir heilli færslu!

No comments:

Post a Comment