Tuesday, April 6, 2010

Allt í floti allsstaðar...

Það rigndi talsvert í gær og maður sofnaði við niðinn og í þau skipti sem ég rumskaði í nótt þá heyrði ég alltaf í rigningu. Þegar við vöknum í morgun þá kíkir hún inná vefmiðil á fréttir og þá er gjörsamlega allt á hvolfi; 25 látnir í Ríó, flóð um alla borg, samgöngur nánast í lamasessi, aurskriður og víða rafmagnslaust.

Við ákváðum nú samt að drífa okkur út og labba í hugleiðslutímann okkar, enda ekki nema rétt smá úði þá stundina. Sem við löbbum út götuna okkar þá er allt í aur vegna þess að síkisskurður sem liggur samhliða grasagarðinum hefur flætt yfir bakka sína og borið eðju um allt.

Þegar við komum niður á aðalumferðaræðina þá er bara allt stopp, strætisvagnar bara stopp í löngum röðum vegna þess að það er allt á floti á löngum kafla á veginum sem þeir þurfa að komast. Okkar leið liggur í gagnstæða átt og það eru bílar en þó mestmegnis strætisvagnar bara eins og augað eygir. Borgarstjóri ráðlagði víst fólki að vera heima en enginn hefur haft rænu á að stoppa vagnana. Við höfðum nú á orði að það hefði aldrei verið friðsælla að ganga þessa leið, þarna er allajafna linnulaus umferð en nú sváfu málmskrímslin bara í snyrtilegri röð.

Það var allur gangur á því hvort verslanir og veitingastaðir á leið okkar voru opnir, þannig að mig grunaði nú að hugleiðslutíminn yrði líka veðrinu að bráð. Það kom á daginn og við fórum þess vegna bara heim og náðum í myndavélina. Vatnið sem er hér rétt fyrir neðan okkur hefur flætt yfir bakka sína líka og allt teppt á því svæði. Ana sagði við mig: 'Hugsaðu þér ef það væru Ólympíuleikar núna.' Það er ekki beint skemmtileg tilhugsun. Þegar við komum í hús sáum við að 52 eru staðfestir látnir og það á að rigna út vikuna.

No comments:

Post a Comment