Monday, November 30, 2009

Allt milli himins og jarðar


Rifum okkur upp snemma, eða svona allt að því, á laugardag. Stefnan sett á markað þar sem vonin var að finna spil. Þannig er að frænka mín heima á Íslandi safnar spilum af miklum móð og það kom uppúr dúrnum að hún á engin spil frá Brasilíu. Ótækt annað en reyna að bæta úr því.

Það má í raun segja að þetta hafi verið smá prófraun fyrir safnarann mig, ég er búinn að segja þeirri áráttu að sanka að mér misgáfulegu drasli stríð á hendur. Þarna rakst ég á ýmiskonar freistingar en skemmst er frá því að segja að ég stóð þær allar af mér og kom tómhentur heim - utan einn spilastokk, sem að sjálfsögðu er ekki handa mér. Ég staldraði lengi við torkennilega safnplötu með lögum Bítlanna sem framleidd er í suður-Ameríku og mögulega án leyfis. Lét mér á endanum nægja að taka af henni mynd en Ana keypti áttstrenda glerflösku sem hafði týnt tappanum einhvers staðar á leiðinni og hýsir nú blóm hér heima.

Við fengum hins vegar þau leiðu tíðindi eftir nokkrar fyrirspurnir að maður sem hafði sérhæft sig í spilum og verið fastagestur á markaðinum hefði látist nokkrum vikum áður. Það gengur svo en við rákumst í það minnsta á vin hans sem sagðist vera með eitthvað af spilum heima og bauðst til að koma með þau um næstu helgi. Eins komumst við á snoðir um annan markað sem einungis er haldinn fyrstu helgina í hverjum mánuði. Þannig að næsti laugardagur er að verða nokkuð planaður hjá okkur.

2 comments:

  1. Flottir símar! Er enn að hugsa um svona síma sem ég henti úr ruslinu hérna í einhverju tiltektaræðinu ;)
    Didda :)

    ReplyDelete
  2. Það er nostalgíu hlýja í kringum þessa síma - engin spurning. Var dálítið föndur að hringja, þó svo númerin væru bara 5 stafa ;)

    ReplyDelete