Friday, November 20, 2009

Ipanema


Í dag var frídagur þannig að við rifum okkur á ströndina eldsnemma...eða allt að því. Þegar maður sem er ekki sérlegur morgunhani byrjar með konu sem er engin sérstök morgunhæna þá vill reynast erfitt að taka daginn snemma.
Vekjarinn hringdi fyrst 8.30, við höfðum okkur af stað að verða 10. Fengum okkur morgunmat á frábærum stað þaðan sem maður horfði nánast beint niður á strönd.

Ég mætti til leiks með sólarvörn upp á 30 og fór fljótlega upp í 50...ég er að passa mig og vonast til að húðin gíri sig eitthvað upp í takt við aðstæðurnar. Það eru skiptar skoðanir um líkurnar á því en við sjáum hvað setur.

Hitinn var rosalegur þannig að ég var fljótlega kominn í sjóinn til kælingar. Hann var rólegri en ég hef upplifað hann áður við Ipanema en þetta var í fjórða skiptið sem við förum þangað. Stephen Merchant (The Office, Extras) beið næstum bana við það að ætla að bregða sér aðeins í sjóinn og kasta af sér vatni á þessum slóðum. Ég skil alveg hættuna á því miðað við aðstæðurnar sem ég hef upplifað þarna. Öldurnar verða ansi hreint hressilegar þó svo að það sé í raun blíðskaparveður.

Síðan eru lúmskir straumar í gangi. Það er alveg magnað að láta öldurnar rugga sér og skola sér til og frá. En það er álíka mikill kraftur í vatninu sem sogast út og því sem brotnar á ströndinni þegar aldan kemur inn. Þegar maður er kominn visst langt út þá magnast straumarnir og eru viðsjárverðir - það er dálítið búið að hamra á því við mig sem er náttúrulega bara eins og krakkavitleysingur þegar ég fer útí að busla :)

Það er skemmst frá því að segja að eftir 3 tíma dvöl á ströndinni þá eru axlir ansi hreint brunnar en annað í sæmilegu lagi. Semsagt: Næst verð ég með ullarjal yfir herðarnar...

Hér heima tóku við annir, við ætlum að smala liðinu saman á morgun; systrum hennar, föður og stjúpu og baka pizzu. Ég fann uppá þessu og var því leiðandi afl í framleiðslu á bæði sósu og deigi. Útkoman lofar helvíti góðu þó ég segi sjálfur frá.

E.s. Meðfylgjandi mynd telst tæknilega sögufölsun þar sem hún er tekin í annarri ferð. Ég er orðinn rúinn inn að skinni eða því sem næst, en blessunarlega bara um höfuðið.

1 comment:

  1. Það er svo gaman að sjæa myndir þarna, og þið eruð voðalega sæt:) Væri gaman að heyra í þér og sjá á Skype einhvern tímann. Og kannski hitta prinsessuna:)

    Kv. Jónína systir

    ReplyDelete