Tuesday, November 17, 2009

Cadastro de pessoas físicas


Hóf hina löngu vegferð í átt að innlimun í brasilískt samfélag í dag, með því að sækja um þetta ágæta kort sem allajafna er bara kallað CPF. Það gegnir mikilvægu hlutverki í daglegu lífi, gagnast sem skilríki, er nauðsynlegt til að opna bankareikning, kaupa bíl, sjónvarp o.þ.h.

Maður sækir nú bara um þetta á pósthúsinu og það er eins og svo margt í þessu ágæta hverfi staðsett rétt handan hornsins. Á göngunni þangað magnaði ég hins vegar upp allskyns vitleysu í hausnum á mér og var farinn að sjá frammá að við yrðum afgreidd af einhverskonar norn sem myndi heimta mútugreiðslu og ég veit ekki hvað...

Ég dundaði mér við það meðan við biðum í röð að ráða í andlit afgreiðslufólksins, hvert þeirra væri nú viðmótsþýðast. Ég var fljótur að komast að því að rúmlega helmingur þjáðist af lífsleiða á háu stigi og búinn að velja konu sem mér leist best á að erindast við. Á endanum skeiðaði nýtt andlit í salinn, líklega fersk úr kaffipásu eða álíka, og kallaði okkur til sín. Hún reyndist fjarri því að vera norn, kallaði skilmerkilega eftir ýmsum plöggum, sem ég fiskaði hikstalaust uppúr umslagi sem ég hafði í farteskinu og allt gekk mjög svo smurt fyrir sig.

Mér fannst merkilegt þegar hún var að rýna í fæðingarvottorðið og bað mig að benda á nafn móður. Ég gerði það og benti henni síðan á nafn föður en hún sagði það algjöran óþarfa - það væri móðirin sem skipti máli. Með því var þetta afgreitt, að vísu þurfum við að fara með kvittunina á annan stað til að ná í kortið en fyrsti þröskuldurinn af þónokkrum er í það minnsta yfirstiginn.

No comments:

Post a Comment