Tuesday, November 10, 2009

Kvöldstund með listamönnum


Fórum á tónleika í gær, að sjá choro grúbbu Zé Paulo Becker - þeir eru á myndinni hér fyrir ofan. Alveg mergjað band, ótrúlegir spilarar að gera ótrúlega hluti.
Lenti einnig í skemmtilegu kynjamisrétti, það kostaði 16 reais inn fyrir konur, en 18 fyrir karla...

Hvað um það, eins og gengur á nýjum stað þá er afskaplega gaman að skoða fólkið - það er af ýmsum gerðum hér um slóðir. Þegar nokkuð var á liðið þá kom innúr hurðinni frekar óhrjálegur náungi, allt að því rónalegur að mér fannst. Hann heilsaði öðrum hvorum manni þarna og þegar Ana sá hann hvíslaði hún að mér: 'Þetta er Yamandu, besti gítarleikari Brasilíu'. Þá rámaði mig í myndband sem hún hafði einhvern tíma sent mér með gaurnum.


Hann var auðvitað drifinn á svið fyrr en síðar og við skulum bara orða það sem svo að hann hafi staðið undir hinum mjög svo veglega titli. Maðurinn er hreint ótrúlegur spilari! Vinkona Önu sagðist aldrei hafa búist við að sjá Yamandu spila á einhhverjum bar, ég sagði að mér sýndist nú sem hann verði talsverðum tíma á börum, hún fattaði ekki djókinn.

Hann og þessi sakleysislegi nikkari, Alessandro Kramer, sem sést hér á lélegri mynd spiluðu 3 lög í beit og ég hef sjaldan séð eins góða tengingu milli tveggja spilara - gæsahúðardót.


Ég tók upp 2 laganna á farsímann minn, þetta eru ekki merkileg gæði en allavega nóg til að gefa smá tilfinningu fyrir þessu - síðan er auðvitað heilmikið úrval á youtube ;)

No comments:

Post a Comment