Wednesday, November 11, 2009

Blackout


Skelltum okkur í bíó í gær og náðum að sjá hina ágætu District 9 áður en hún rennur sitt skeið. Vorum rétt lögð af stað heim þegar rafmagnið fer... Það er ekki kvikmyndahús í okkar hverfi, þannig að fórum í Botafogo hverfið og það sem meira er, okkur vantaði að komast í hraðbanka til að taka út pening. Það var náttúrulega ekki möguleiki í stöðunni.

Við ráðfærðum okkur við pabba hennar og stjúpu og ráfuðum aðeins um í myrkrinu. Það var ekki alveg málið, hún var hrædd og ég skil það svo sem vel - maður greindi fólk ekki nema sem skugga fyrr en það var svo gott sem komið í fangið á manni. Mikið af fólki á ferðinni og aldrei að vita nema einhverjir hefðu hugmyndir um að notfæra sér ástandið. Það varð því úr að við stukkum upp í leigubíl og fórum heim, þar sem við áttum smá pening.

Umferðin gekk merkilega greiðlega miðað við aðstæður. Marcia stjúpa hennar sagðist aldrei hafa verið svona fljót að komast leiðar sinnar, það er kannski til marks um glundroðann sem ríkir í umferðinni í Ríó...

Þegar heim var komið kveiktum við bara á kertum og höfðum það notalegt. Manni varð hugsað heim til Dalvíkur þar sem maður sat nú í þónokkur skipti við kertaljós í rafmagnsleysi fyrir langalöngu síðan, á meðan veturinn hamaðist fyrir utan. Hér var um 30 stiga hiti og logn um miðnættið, þannig að það er ólíku saman að jafna. Maður saknaði enda loftkælingarinnar og vorkenndi liðinu sem sat fast í lyftum og þessháttar... Ég er nú ekki með innilokunarkennd en gæti örugglega komið mér henni upp við slíkar aðstæður.

1 comment:

  1. úff ég held að ég myndi líka vera hrætt....

    kv Helga

    ReplyDelete