Wednesday, December 2, 2009

Áfangasigur - CPF í höfn


Jæja, ég hef orðið rétt til að:

- Stofna bankareikning
- Kaupa bíl
- Kaupa sjónvarp
- Borga skatta...

Gerðum okkur ferð í síðustu viku til að ljúka umsóknarferlinu um þetta ágæta kort. Kann ekki að nefna batteríið sem við heimsóttum en það er s.s. undir hatti hins opinbera. Skröltum í strætó niður í miðbæ og römbuðum inn í risavaxna byggingu sem virkaði eins og hún væri teiknuð af Albert Speer. Manneskjan fær sko virkilega að finna til smæðar sinnar innan slíkra veggja.

Þarna var margt um manninn og við byrjuðum á að fara í röð þar sem okkur var úthlutað númeri - handskrifað á blaðsnifsi. Síðan áttum við bara að mæna á bláan skjá eins og restin af hjörðinni og bíða þess að okkar númer kæmi upp. Skv. miðanum áttum við tíma 10.50 en þegar klukkan tók að síga að þeirri tölu og enn var löng leið í okkar númber, ákváðum við að hverfa frá og reyna aftur síðar.

Þannig að í gær fórum við aftur á stúfana og heimsóttum útibúið í Ipanema, styttra ferðalag og mögulega minni gestagangur. Það stóð heima, örfáar hræður á staðnum þegar við mættum og miðinn með númerinu útprentaður í þetta skiptið. Sami blái skjárinn að mæna á en allt gekk greiðar fyrir sig og fyrr en varði sátum við fyrir framan skrifborð og tíndum pappíra í embættismann. Hann bað mig að gaumgæfa að nafnið mitt og móður minnar væri rétt stafað - spurði sérstaklega hvort það væru tvö 't' í dóttir. Þegar það var allt vottað prentaði hann út plagg með CPF númerinu mínu og sagði ég gæti brúkað það til bráðabirgða, kortið yrði tilbúið eftir að giska 30 daga. Það var ekki flóknara en svo.

1 comment:

  1. Jæja gott að eitthvað mjakast í áttina með að festa búsetuna :)
    knús á ykkur bæði
    Didda

    ReplyDelete