Sunday, December 6, 2009

Flamengo eru Brasilíumeistarar!


Síðasta umferð deildarkeppninnar var leikin í dag. Flamengo áttu leik heima og þurftu sigur til að landa titlinum. Eftir að hafa lent marki undir þá höfðu þeir sigur, 2-1.
Titillinn ku sögulegur og það fyrir margra hluta sakir, þetta er í tíunda skiptið sem klúbburinn vinnur en síðast titill kom fyrir 17 árum. Þetta er bara næstum eins og hjá Liverpool ;)

Ekki nóg með það, það gekk ekkert hjá þeim framan af og þjálfarinn var látinn fara - þegar ég kom hér í júní þá voru þeir rétt um miðja deild. En gamall jaxl sem spilaði með klúbbnum á sínum tíma og hefur starfað fyrir félagið æ síðan tók við taumunum og náði að lemja mannskapinn saman með þessum líka árangri. Hann er fyrsti svarti þjálfarinn sem vinnur meistaratitil í Brasilíu, gaman af því.

Fagnaðarlætin eru náttúrulega engu lík. Við ætluðum á völlinn en það var ekki séns að ná miðum - fólk beið í röð tveim dögum áður en þeir fóru í sölu og ég var ekki alveg til að leggja svo mikið á mig.
Þannig að við horfðum hérna heima og fórum svo út að upplifa lætin í leikslok. Allir strætisvagnar fullir af fólki í rauðum og svörtum treyjum, syngjandi og öskrandi. Bílar keyra um með blaktandi fána og flautandi og annar hver maður á götunni var í treyju og leiðin lá að stóru torgi sem er í göngufæri. Þar var verið að skjóta upp flugeldum og hvaðeina og ljóst að liðið verður að eitthvað frameftir nóttu.

Ana og Fernanda vinkona hennar hafa útnefnt mig lukkudýr klúbbsins og sú síðarnefnda krafðist þess áðan að ég yrði í Brasilíu um ókomna tíð. Ég vék mér undan því að lofa nokkru ;)

1 comment:

  1. Hlýtur að hafa verið ótrúleg upplifun að vera þarna á staðnum og fá fagnaðarlætin beint í æð, við íslendingar erum nú ekki þeir líflegustu eða opnustu þegar kemur að svona :)
    Nei takk, þú verður ekki í Brasilíu um ókomna tíð! hahha....vil gjarnan hafa ykkur nær mér :)
    Knús og kossar
    Didda

    ReplyDelete