Wednesday, December 16, 2009

Lukkudýrið Fernando


Þessi litli gaur var að flækjast á vegg í sameigninni þegar við komum heim í fyrrakvöld. Hann var þægilega lítill og meinlaus eftir geðshræringuna sem fylgdi því að Ana steig næstum því á snák í einhverjum garði sem við vorum að væflast í. Ég sá ekki kvikindið en það hefði verið alveg mín heppni að stíga á snák í opnum sandölum.

Hvað um það, litla dýrið fékk nafnið Fernando og telst lukkudýr Liverpool aðdáendaklúbbsins sem við starfrækjum hér á heimilinu. Ekki vanþörf á heppninni og kappinn farinn að skila sínu, unnum Wigan í kvöld 2-1 og nafni hans skoraði eitt.

Við slepptum honum hér í herberginu og hann lét sig fljótlega hverfa inní skáp. Aðal röksemdin fyrir að leyfa honum leika lausum hala í okkar vistarverum er að hann étur meðal annars móskítóflugur. Lítið frést af honum nýlega, hann er kannski á termítafylleríi inní skáp og kemur tilbaka tveggja metra langur og reynir að éta mig - og bróður minn líka...

No comments:

Post a Comment