Friday, December 11, 2009

Þegar tré fellur


Eða nánar tiltekið tvö tré. Vöknuðum um fjögurleytið í nótt við eitthvað undarlegt hljóð. Maður var að sjálfsögðu hálfmeðvitundarlaus en vaknaði og skynjaði að það hafði orðið einhver hávaði, hvinur eða álíka. Svona til ítrekunar þá slökknaði á dýrindis jólaseríu sem búið er að setja upp í herberginu - rafmagnið sumsé farið.

Ég nennti nú ekki að spá mikið í málinu á þessum tímapunkti. Þær systur þinguðu eitthvað en ég sofnaði bara aftur og vaknaði síðan um morguninn við ómstríðann söng keðjusagar. Þá kom uppúr dúrnum að tvö tré í garðinum mikla sem er við hliðina á götunni okkar höfðu fallið um nóttina og tekið niður rafmagnslínurnar - sjá mynd.

Það er held ég ekki blessuðum vindinum að kenna, hann hafði tiltölulega hægt um sig í gær. En það rigndi hins vegar alveg ótrúlega, líklega mesta rigning sem ég hef upplifað á ævinni. Manni dettur í hug að regnið hafi grafið undan trjánum.
Það kann að hljóma ótrúlega en rigningin sem var í gærkvöldi var með ólíkindum, ég hafði ekki upplifað ekta hitabeltisrigningu fyrr en ég kom hingað. Það er hin ágætasta skemmtun að sitja við gluggann og horfa á hana, sem og hlusta. Ótrúlegur kraftur í þessu og hávaði + síðan þrumurnar og eldingarnar sem stundum fylgja með í kaupbæti - alveg ókeypis!

No comments:

Post a Comment