Saturday, December 19, 2009

Kæri jóli


Gerðum okkur ferð á pósthúsið fyrir rúmri viku til að senda jólapakka til Íslands. Rákum augun í svaka hrúgu af jólapökkum bakvið borðið og spurðum fyrir forvitnissakir hvað væri á seyði. Þá kom uppúr dúrnum að pósturinn safnar saman bréfum sem börnin í fátækrahverfunum skrifa jólasveininum. Bréfin eru síðan látin liggja frammi á afgreiðslustöðum og fólk getur tekið bréf, keypt gjöfina og pósturinn kemur henni til skila - þeir meira að segja klæða sig upp og hvaðeina :)

Við auðvitað stóðumst ekki mátið og fórum og kíktum á bréfin. Óskir sumra voru helst til óraunhæfar, allavega miðað við okkar fjárráð - ein óskin hljóðaði til dæmis uppá Playstation 3 tölvu. En við rákumst á bréf frá 14 ára strák sem heitir að mig minnir Jefferson, hann óskaði sér að fá skóladót og bakpoka undir það og við ákváðum að bjarga því fyrir hann.

Skóladótið var auðvelt að versla, gott úrval af því og í raun erfiðara að hemja sig í innkaupunum. Þegar upp var staðið þá var erfiðara að fá bakpokann á sæmilegum kjörum, þannig að ég fórnaði mínum. Keypti hann af götusala í London 2007 og þrátt fyrir efasemdir föður míns um endingu þá sér ekki á honum eftir tveggja ára notkun. Ana laumaði síðan með bók úr safninu sínu og við vorum bara nokkuð ánægð með okkur þegar við pökkuðum inn og skiluðum af okkur á pósthúsinu. Vonandi að drengurinn verði það líka.

2 comments:

  1. en krúttlegt:) sá hefur örugglega verið glaður með pakkann frá ykkur:)

    ReplyDelete
  2. Maður verður bara að gefa sér það, við fengum ekki að setja með kort því þetta á að vera frá jólasveininum ;)

    ReplyDelete