Monday, December 14, 2009

Marimbondo og co


Dýralífið er eins og gefur að skilja mun fjölbreyttara en ég á að venjast. Hef nú að líkindum ekki komist í tæri nema brotabrot af því dóti sem þrífst hér, ætli það sé ekki best að fara í Amazon til þess að fá þetta allt á einu bretti.
Það eru helst skordýrin sem ég hef komist í kast við og þá er fyrst og fremst að nefna móskítóflugur og termíta.

Móskítóflugurnar eru duglegur við að bíta mig með tilheyrandi ofnæmisviðbrögðum míns norræna líkama. Mér er tjáð að með tímanum geti blóðið framleitt einhver mótefni sem draga úr þessum ósköpum. Þangað til reyni ég að muna að nota fælu og nota ofnæmistöflur og áburð til að bera á 'minnismiðana' sem skjóta upp kollinum hér og þar, þó aðallega á fótleggjum.

Termítarnir bíta ekki en eru hins vegar að dunda sér við að éta fataskápana. Þegar þeir síðan komast á legg þá vilja þeir fljúga á vit ævintýrana en ef glugginn er ekki opinn þá millilenda þeir á okkur. Það er smá bögg en ekkert stórmál. Ég hef aðallega áhyggjur af því að þeir taki sér bólfestu í gítarnum mínum...

Kvikindin á myndinni kallast Marimbondo. Þær stinga og systurnar segja mér að það sé ógeðslega sárt... Ég sem hef aldrei orðið fyrir stungu geitungs eða neins af þessu tagi hef ákveðið að reyna að forðast Marimbondo-stungu eftir fremsta megni.
Þær eru hins vegar mikið hér í kring og eru að byggja sér hreiður í gluggakistunni hennar Biu. Ég tók þessa mynd af þeim að störfum og þær urðu ansi argar þegar vissri nánd var náð við glerið, flugu ítrekað á rúðuna og vildu greinilega komast inn og 'ræða' við mig. Húsvörðurinn ætlar að fjarlægja hreiðrið við tækifæri.

No comments:

Post a Comment