Sunday, December 20, 2009

The naked and the dead e. Norman Mailer


Fyrst maður er á annað borð að hripa hér inn þá datt mér í hug að setja á blað nokkra punkta um bækurnar sem ég klára að lesa. Mér þykir orðið fenna ansi fljótt í sporin og hver veit nema þetta gagnist til að stemma við því stigu.

Þegar ég var að pakka heima á Íslandi þá komu ýmsar bækur úr hillum sem ég hafði geymt til betri tíma - ef svo má að orði komast. Þessi skræða var í þeim flokki og lenti með í farteskinu.

Ég hafði áður lesið eina bók eftir Mailer, Hörkutól stíga ekki dans, og líkað nokkuð vel. Hér er allt önnur skepna á ferð, þetta er hans fyrsta bók og hún byggir á atburðum sem höfundur upplifði sem hermaður í seinni heimsstyrjöld. Heilmikil skræða, rúmar 600 síður í vasabroti og ekki auðlesin.

Heilt yfir dálítið hæg en vel þess virði að lesa hana. Veltir upp skemmtilegu sjónarhorni á líf óbreyttra hermanna, eða öllu heldur venjulegra manna, sem hafa verið ræstir út, þjálfaðir upp og sendir af stað að slást við Japani. Það telst henni til tekna að í frásögninni er hvergi að finna sanna ameríska hetju sem drepur 500 óvini og fórnar á endanum lífi sínu til að binda endi á styrjöldina - a la Hollywood.

Samhliða því að fylgja sveit hermanna sem send er í vafasaman könnunarleiðangur þá veitir höfundur innsýn í bakgrunn hvers og eins, hvað þeir voru áður en þeir skrýddust búninginum. Vel skrifað og fyrir vikið eru karakterarnir mun trúverðugri. Markmiðið er að hreinsa einhverja eyju af Japönum og köppunum er falið að reyna að finna bakdyraleið að því markmiði. Leiðangurinn misheppnast en eyjan er nú samt hertekin, majór slysast til að vinna orrustuna á meðan hershöfðingin er í burtu á fundi og sá verður svaka svekktur. Hermennirnar láta ekki í ljós neinar sterkar tilfinningar, þegar bókinni lýkur eru þeir farnir að kvíða fyrir næstu innrás.

No comments:

Post a Comment