Monday, March 8, 2010

Óskar og John Hughes


Horfði á Óskarsverðlaunin í fyrsta skipti í mörg ár. Betra að gera það í þessu tímabelti, maður getur tekið þetta í beinni án þess að vaka framundir morgun. Hef svo sem aldrei verið að telja mig missa af neinu sérstöku en þetta var ágætt í gær og spillti ekki að hafa Steve Martin og Alec Baldwin í hlutverki kynna - fíla báða helvíti vel.

Ég gladdist yfir því að þunnildið Avatar skyldi ekki hafið til skýjanna, sjónarspilið var vissulega magnað á köflum en mér fannst gleymast að huga að handritinu. Hins vegar er Hurt Locker ekki mikið merkilegri mynd en hún átti hátíðina þetta árið, það þarf alltaf ein mynd að vera aðal.
Gladdist yfir að sjá Austurríska gaurinn úr stríðsmyndinni hans Tarantino taka óskar, nenni ekki að fletta nafninu hans upp en gestapo gaurinn hans hápunktur þeirrar myndar. Sömuleiðis var Jeff Bridges vel kominn að sinni styttu, við skelltum okkur á Crazy Heart í kvöld og hann var hreint út sagt frábær, myndin ekki alveg 100% en hann bætti upp fyrir það.

Hápunkturinn fyrir mér var virðingarvottur við John Hughes sem féll frá á síðasta ári. Þegar ég fletti upp ferlinum hans á imdb þá á hann ansi margar myndir sem lituðu uppvaxtar árin og maður horfði á oftar en einu sinni og oftar en tvisvar - ekki síst ef Bjarmi fílaði þær. Inn á milli er mismerkilegt stöff eins og gengur en Ferris Bueller er auðvitað klassík - ekki tímalaus þegar horft er til fatnaðar og hárgreiðslna en handritið og skilaboðin sem í því eru fólgin munu standast tímans tönn. Hann gerði reyndar miklu meira af því að skrifa en leikstýra en ég ætla ekki endursegja ferilinn, það ættu allir að kunna að nýta imdb. Hins vegar fannst mér við hæfi að eyða á karlinn nokkrum orðum, hann á það inni hjá mér ;)

No comments:

Post a Comment