Thursday, February 18, 2010

Lífsmark


Jæja, karnival yfirstaðið og aldrei þessu vant þá var rigning þegar ég dró frá í morgun. Því var tekið með allt að því fögnuði af minni hálfu sem og þeirrar innfæddu - það kólnar og verður þægilegra að athafna sig utandyra, svo fremi sem það ekki hellirignir.

Annars hefur leti verið allsráðandi hér á bæ, held það sé eina útskýringin sem ég hef á takteinum. Er reyndar búinn að vera að skrifa dálítið í atvinnuskyni og þó svo að það ætti nú að vera öllum mun skemmtilegra að skrifa fyrir sjálfan sig þá er ég ekki frá því að þetta sé allt dregið úr sama brunni - ef svo má að orði komast.

Hef verið að velta fyrir mér hvort umpólun hafi orðið á minnisstöðvum í heila eða einhver bilun í öðrum búnaði þarna uppi. Hef verið að vakna með hreint út hræðileg lög á heilanum sí og æ. Til dæmis má nefna Frystikistulagið með Greifunum og Return to innocence með hinni mjög svo morknu Enigma - lagið með indjánagaulinu. Það var allavega eitt til en ég var svo hneykslaður að yfirsjálfið hefur kosið að afmá minninguna.

Tek mig til og gera karnival upplifun skil á næstunni, lofa því :Ð

No comments:

Post a Comment