Tuesday, December 29, 2009

Jól í Alphaville


Það er skrítið þegar maður er búinn að setja sér að halda 'dagbók' - ef svo má að orði komast. Rútínan er brotin upp og fyrr en varir vaknar maður upp við það að hafa ekki skrifað staf í hartnær viku.

Uppbrotið skrifast á ferðalag til Sao Paulo sem liggur hér suðvestur af og er stærsta borg landsins. Þetta var 430 km. akstur og því ekki ósvipað að aka heim til Dalvíkur til jólahalds, en samlíkingin nær ekki lengra en svo. Við lögðum af stað í bítið á þorláksmessu og sóttist ferðin nokkuð greiðlega en mér þótti kúnstugt að þegar við vorum komin innfyrir borgarmörkin þá var góður klukkutími eftir. Það helgast fyrst og fremst af umferðarþunganum - ástandið er ekki gott í Ríó en verra í Saó.

Það hlakkaði í mér þegar við renndum inn í Alphaville hverfið þar sem við áttum hótelgistingu og ég gat ekki á mér setið að söngla nokkrar hendingar úr Forever young. Tengdó fræddi mig á því að Japanskur náungi sem fann upp eitthvað lækningatæki og auðgaðist vel hefði keypt mikið land í Sao Paulo og byggt upp þetta hverfi. Kannski Alphaville hafi í virðingarskyni samið Big in Japan? Þarf að rannsaka þetta nánar ;)

Það er talsverður rígur milli Cariocanna og Paulistas (íbúa SP) þannig að það er ekki sjálfsagt mál að fara þangað til að halda jól. Foreldrar stjúpmóður hennar búa hins vegar þarna og faðirinn orðinn lélegur, þannig að ákveðið var að smala öllum systkinunum saman um jólin. Það væsti ekki um okkur, svo mikið er víst, ég kannski fer nánar í saumana á því síðar.

No comments:

Post a Comment